Lóð Byggingarreiturinn við Austurhöfn í Reykjavík er milli Geirsgötu og Tryggvagötu, við hlið Tollhússins. Lóðin er talin í hópi þeirra dýrari í Reykjavík.
Lóð Byggingarreiturinn við Austurhöfn í Reykjavík er milli Geirsgötu og Tryggvagötu, við hlið Tollhússins. Lóðin er talin í hópi þeirra dýrari í Reykjavík. — Morgunblaðið/Rósa Braga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Þetta er dýr lóð á besta stað í bænum. Vonir standa til að við fáum gott verð fyrir hana,“ segir Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Sítusar, sem auglýsir lóð við Austurhöfn í Reykjavík til sölu.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Þetta er dýr lóð á besta stað í bænum. Vonir standa til að við fáum gott verð fyrir hana,“ segir Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Sítusar, sem auglýsir lóð við Austurhöfn í Reykjavík til sölu. Lóðin er við hlið Tollhússins, milli Geirsgötu og Tryggvagötu og nær yfir helming bílastæðanna sem þar eru, nær Tollhúsinu.

Pétur segist finna fyrir auknum áhuga á lóðinni. Enn sem komið er hafa eingöngu Íslendingar sýnt henni áhuga. Hann var þó ekki tilbúinn að nefna verðhugmynd um lóðaverðið.

Sítus ehf., félag í eigu Reykjavíkurborgar og ríkisins, keypti lóðina af þrotabúi Landsbankans árið 2008. Lóðinni hefur verið skipt í tvo byggingarreiti. Nú er auglýst sala á byggingarreit nr. 1.

„Lóðin er í hópi þeirra dýrari í Reykjavík og þyrfti fjársterkan aðila til að festa kaup á henni,“ segir Sverrir Kristinsson, fasteignasali og framkvæmdastjóri Eignamiðlunar, um byggingarreitinn. Hann bendir á að lóðir á góðum stað í Reykjavík, sem eru t.d. í eigu banka, fjármálastofnana og byggingafyrirtækja, hafi verið að koma á markaðinn um þessar mundir.

Sex hæða hús má rísa á byggingarreitnum sem yrði að hámarki 9.350 fermetrar auk 400 fermetra kjallara. Á fyrstu og annarri hæð byggingarinnar er gert ráð fyrir að verði verslunar- og þjónustustarfsemi en íbúðir á efri hæðum. Innigarður verður í miðju byggingarinnar og þakið verður einnig nýtt til útiveru. Innkeyrsla verður í bílakjallara í bygginguna Tryggvagötumegin.

Árið 2007 efndi Landsbankinn til samkeppni um hönnun nýbyggingar fyrir höfuðstöðvar bankans auk bygginga á lóðinni allri í heild. Fjöldi tillagna barst.

Á þeim hluta lóðarinnar sem liggur við Lækjargötu áttu aðalstöðvar Landsbankans að rísa. Ekki verður úr þeim áformum því á þeirri lóð er gert ráð fyrir þjónustu- og verslunarhúsnæði. Sú lóð verður auglýst síðar til sölu.

„Við fengum verðlaunaféð greitt, í ágúst að áliðnum slætti; rétt fyrir hrun,“ segir Einar Ólafsson arkitekt en hann var í hópi þeirra sem áttu vinningstillöguna.

Hópurinn samanstóð af Arkiteó, Einrúmi og BIG auk Andra Snæs Magnasonar rithöfundar. Verðlaunaféð, sem kom í þeirra hlut, var 12 milljónir króna sem voru greiddar að fullu í ágúst 2008. Úrslit samkeppninnar voru þó aldrei formlega kynnt.

Bygging

» Gert ráð fyrir 9.350 m 2 byggingu auk 400 m 2 kjallara, á sex hæðum.
» Á fyrstu og annarri hæð verður verslunar- og þjónustustarfsemi en íbúðir þar fyrir ofan.
» Innigarður í miðju byggingarinnar.
» Þakflöturinn nýttur til útivistar.