Slitnar Ferðamönnum fjölgar og ferðamannatímabilið hefur lengst. Fleiri koma nú á vorin þegar gróður er viðkvæmur. Þessi mynd var tekin í fyrravor, áður en meginstraumurinn byrjaði. Nú er svæðið að mestu undir snjó.
Slitnar Ferðamönnum fjölgar og ferðamannatímabilið hefur lengst. Fleiri koma nú á vorin þegar gróður er viðkvæmur. Þessi mynd var tekin í fyrravor, áður en meginstraumurinn byrjaði. Nú er svæðið að mestu undir snjó. — Ljósmynd/Helga A. Erlingsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Umhverfi Goðafoss hefur látið verulega á sjá undanfarin ár.

Baksvið

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Umhverfi Goðafoss hefur látið verulega á sjá undanfarin ár. Sveitarfélagið hefur sótt um styrk til að deiliskipuleggja svæðið og hyggur á framkvæmdir en ekki er gert ráð fyrir að hægt verði að byrja á þeim fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári.

Búast má við metfjölda ferðamanna að fossinum í sumar, m.a. vegna þess að gert er ráð fyrir 20% fjölgun ferðamanna sem koma með farþegaskipum til Akureyrar en langflestir þeirra fara að Goðafossi.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, segir að göngustígar séu löngu hættir að anna umferðinni. Átak hafi verið gert við fossinn fyrir allmörgum árum en stígarnir sem voru lagðir þá hafi verið helst til mjóir. Afleiðingin er sú að ferðamenn ganga meðfram stígunum, þeir breikka og svörðurinn lætur á sjá. „Það eru hreinlega komin djúp kindagöng, eins og við köllum þau,“ segir Dagbjört, nema hvað kindastígarnir séu af völdum ferðamanna en ekki fjár. „Við erum einnig uggandi um öryggi ferðamanna sem fara út á bakkana við fossinn. Við vitum ekki alveg hvar bakkarnir eru traustir,“ segir Dagbjört. „Það er átroðningur á svæðinu og það er orðið illa farið.“

Geta ekki haldið í sér

Salernismálum þarf einnig að kippa í lag. Við fossinn eru engin salerni en hægt er að komast á snyrtingar á Goðafossmarkaðnum sem er austan við fossinn. Dagbjört bendir á að rútur sem komi að fossinum leggi vestan við hann og svo gangi fólkið þaðan að markaðnum eða fari með rútunni. Sumir geti þó ekki beðið svo lengi. „Þannig að við höfum orðið vör við leiðindaumgang vegna þess þar í kring. Ég þarf nú kannski ekki að lýsa því nánar.“

Þetta er ekki lítið mál því tugþúsundir koma að fossinum árlega. Enginn veit fjöldann með vissu.

Í mörg horn að líta

Sveitarfélagið sækir nú í fyrsta skipti um styrk til framkvæmda í góðu samráði við landeigendur. Kveikjan að umsókninni er slæmt ástand við fossinn í lok síðasta sumars. Dagbjört og skipulags- og byggingafulltrúi sveitarfélagsins (914 íbúar) könnuðu stöðuna og í kjölfarið var ákveðið að grípa til aðgerða.

Dagbjört segir að ýmislegt hafi orðið til þess að ekki var brugðist við fyrr. Sveitarfélagið sé lítið og í mörg horn að líta. Þarna hafi e.t.v. verið sofið á verðinum. „En ég velti því fyrir mér á hvers ábyrgð það er að vakta svæðið og bregðast við. Ég bendi á að viðbrögðin eru að frumkvæði sveitarfélagsins og landeiganda.“

ÞUNGUR STRAUMUR Á VORIN ÞEGAR GRÓÐUR ER VIÐKVÆMUR

Kvenfélagið lét til sín taka

Helga Arnheiður Erlingsdóttir var oddviti í Ljósavatnshreppi sem Goðafoss tilheyrði áður en hreppurinn sameinaðist í Þingeyjarsveit og hefur verið fengin til að vera verkefnastjóri vegna endurbóta á aðgengi að Goðafossi. Helga segir ástandið við fossinn ekki nógu gott og það hafi versnað hratt. Ferðamönnum fjölgi og ferðamannatímabilið lengist. Straumurinn byrji af þunga snemma á vorin þegar gróðurinn sé hvað viðkvæmastur. Annaðhvort þurfi að takmarka umferð ferðamanna eða gera meiriháttar átak til að taka á móti henni.

Helga nefnir sérstaklega að umgangur austan megin við fossinn hafi aukist, m.a. vegna verslunar og gistiþjónustu sem þar er.

Ýmislegt hafi verið gert til að vernda landið fyrir ágangi, t.d. hafi kvenfélagið látið til sín taka. Sú aðstaða sem hafi verið byggð upp dugi þó alls ekki lengur.