Olíufélögin lækkuðu eldsneytisverð í gær. Þar með hefur verð á bensíni lækkað um tæpar 20 kr. síðan um miðjan febrúar. Á sama tíma hefur dísilolía lækkað um 25 kr.

Olíufélögin lækkuðu eldsneytisverð í gær. Þar með hefur verð á bensíni lækkað um tæpar 20 kr. síðan um miðjan febrúar. Á sama tíma hefur dísilolía lækkað um 25 kr.

Það var Atlantsolía sem reið á vaðið í gærmorgun og lækkaði bensínlítrann um tvær krónur og dísilolíu um þrjár krónur. Hin olíufélögin fylgdu í kjölfarið og í gærkvöldi var bensínverð 247,50-249,90 kr. skv. gsmbensin.is.

Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu, sagði í samtali við mbl.is í gær að lækkunin síðan í febrúar þýddi að 1.100 krónum ódýrara væri að fylla 55 lítra bensíntank í dag samanborið við verð um miðjan febrúar. Lækkanir á eldsneytisverði undanfarnar vikur skýrast bæði af hagstæðara innkaupsverði og styrkingu krónunnar.

Í samræmi við forsendur

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeiganda, segir verðið nú í réttum farvegi. „Við kvörtuðum um tíma í síðasta mánuði yfir því að verðið væri ekki að ganga jafn hratt niður og efni stæðu til. En það hefur tekið við sér síðan í rétta átt,“ segir Runólfur um þróunina undanfarið.

Hann segir framhaldið ráðast af sveiflum á gengi og heimsmarkaðsverði. Runólfur bendir á að dollarinn hafi í gærmorgun kostað um 119 krónur en staðið í 127 kr. skömmu fyrir páska. heimirs@mbl.is