Arnþrúður Heimisdóttir
Arnþrúður Heimisdóttir
Eftir Arnþrúði Heimisdóttur: "Til að viðhalda þessu yndislega mannlífi, og treysta það, þarf hið manngerða umhverfi, „kerfin“, að taka tillit til þess, og sýna landsbyggðinni skilning."

Það er gott að búa úti á landi á Íslandi, bæði í dreifbýlinu og bæjunum. Mannlífið er þétt, við hittum kunnuga hvenær sem við bregðum okkur af bæ, og tökumst saman á við erfiðar aðstæður og uppákomur. Þátttaka í félagslegum og menningarlegum atburðum er mikil, oft finnst fólki að í borginni fari menn miklu meira á þannig samkomur og skemmtanir. Raunin er hinsvegar sú, að við úti á landi erum oft reiðubúnari að leggja aðeins meira á okkur við að útbúa menningarviðburði og skemmtanir. Svo bregðum við undir okkur betri fætinum og sækjum jafnvel býsna langan veg til að mæta. Já, það er gott að búa úti á landi.

Ég er alin upp í Skálholti og á Þingvöllum. Ég sótti nám að Hólum og Hvanneyri, og settist svo að í Fljótum í Skagafirði fyrir hartnær tveimur áratugum. Mitt umhverfi hefur því einkennst af fjölbreyttri náttúru og hinni sterku sögu landsins sem andar til okkar frá hverri þúfu. Ég hef lifað og hrærst í daglegu lífi fólks á landsbyggðinni og fundið hvernig lífið mótast af árstíðunum og samfélagi við gróandann, og þeirri baráttu sem náttúruöflin veita okkur stundum, með þurrkum, stórhríðum, gæftaleysi og annarri tilfallandi óáran. Við njótum líka þeirrar gleði sem okkur veitist á sólríkum degi, við ilminn af góðu heyi, við björt augu nýfædds lambs eða folalds, við tignarlega fjallasýn og ferska loftið sem hressir okkur er við stígum út að morgni dags. Þetta er lífið.

En til að viðhalda þessu yndislega mannlífi, og treysta það, þarf hið manngerða umhverfi, „kerfin“, að taka tillit til þess, og sýna landsbyggðinni skilning. Það þarf að gæta jafnræðis milli svæða. Það verður gert til dæmis með því að færa til skattheimtu, það hafa ýmsir skattar verið lagðir á sem leggjast þyngra á landsbyggðarmanninn en fólkið á höfuðborgarsvæðinu. Þar má nefna sem skýrt dæmi álögur á eldsneytislítrann, sem má kalla skatt á fjarlægðir. Bensín- og olíugjöldin hafa hækkað gríðarleg í krónum talið, á lítra, en löngu er tímabært að festa þá upphæð við fasta krónutölu en ekki prósent af heimsmarkaðsverði. Annað dæmi er það að lúxus-vörugjöld (milljónir á hvern nýjan bíl) hafa verið lögð á þá stóru bíla sem eru forsenda búsetu á snjóþungum svæðum, og forsenda ýmiss konar atvinnurekstrar á landsbyggðinni (í hrossarækt og fleiri atvinnugreinum) sem dæmi. Heilbrigðisþjónusta og opinber þjónusta hefur þjappast mikið saman á undanförnum árum, en það er einkennilegt hvernig þjónustan sogast á höfuðborgarsvæðið, þegar ýmsir þættir hennar gætu verið reknir fullt eins vel úti á landi, á okkar tímum fullkominna fjarskipta. Nú hníga ýmsar fyrirhugaðar breytingar varðandi sjávarútveg í sömu átt, að þar sé sótt að þeim byggðarlögum sem byggja á sjávarútvegi. Ótal fleiri dæmi mætti telja upp, þar sem sóknar er þörf, til að jafnræðis sé gætt óháð búsetu.

Við viljum hafa landið allt í byggð og náttúruleg gæði til lands og sjávar verði vernduð og nýtt með sjálfbærum hætti þjóðinni allri til heilla. Við teljum það jafn mikið hagsmunamál íbúa landsins, óháð búsetu, að svo sé.

Afturköllum ESB-umsóknina

Við þurfum að stöðva og afturkalla aðildarumsóknina að ESB, sem fór af stað án þess að spyrja þjóðina hvort hún vildi ganga í ESB eða ekki. En um það snýst einmitt málið. Það spyrja sig ýmsir, hvort nokkur þörf sé á því, hvort það eigi ekki bara að ljúka „samningunum“ og sjá hvað er í pakkanum. En það að kalla ferlið „samninga“ var stórkostlegt áróðursbragð hjá ESB-sinnum. Það eru engir samningar í gangi. Evrópusambandið lítur svo á að í umsókn um aðild felist yfirlýsing um að menn hafi ákveðið að ganga inn. Ef umsókn er lögð fram og Evrópusambandið samþykkir að hefja viðræður þá snúast þær viðræður um það hvað umsóknarríkið þarf að gera til þess að uppfylla skilyrði ESB fyrir inngöngu. Viðræðurnar snúast ekki um það hverju Evrópusambandið breyti hjá sér. Það að sækja um inngöngu í ESB er einmitt bara það að sækja um inngöngu í ESB og ganga að skilmálum ESB. Evrópusambandið segir sjálft í eigin bæklingi stækkunardeildar sinnar að hugtakið „samningar“ geti verið villandi, að viðræðurnar snúist um hvernig „umsóknarríkið“ innleiðir 90.000 blaðsíður af reglum frá Brussel, reglur sem, með orðum ESB sjálfs, eru óumsemjanlegar. Það er sem sagt enginn óvæntur glaðningur í pakkanum, staðreyndirnar eru allar augljósar. ESB veitir engar varanlegar undanþágur frá sínum lögum, heldur í mesta lagi tímabundnar undanþágur til örfárra ára.

Framundan eru „samningar“, þ.e.a.s. aðlögun, í landbúnaði og sjávarútvegi. Viljum við breyta sjávarútveginum og landbúnaðinum þannig að öll lög hér séu fyrirfram fullkomlega aðlöguð ESB, áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur, bara af því ESB sinnar villa um fyrir okkur og kalla ferlið „samninga“ en ekki sínu raunverulega nafni, aðlögun? Þessar breytingar læðast nefnilega inn í allt lagaumhverfi okkar, allt frá stjórnarskránni til hinna smæstu reglugerða.

Við vitum allt sem við þurfum að vita, og getum haldið þjóðaratkvæðagreiðslu strax, um það hvort við viljum:

Fórna fullveldi okkar og ganga í Evrópusambandið.

Segja nei.

Höfundur er grunnskólakennari og tamningamaður, og býður sig fram í 2. sæti X-J Regnbogans í Norðvesturkjördæmi. www.Regnboginn.is