Á flugi Búast má við að marga langi að fara á EM-mótið sem fram fer í Danmörku í janúar á næsta ári.
Á flugi Búast má við að marga langi að fara á EM-mótið sem fram fer í Danmörku í janúar á næsta ári. — Morgunblaðið/Golli
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Ferðaskrifstofur eru þegar farnar að huga að skipulagningu ferða á Evrópumótið í handbolta en eins og kunnugt er tryggðu Íslendingar sér farseðilinn þangað eftir frækilegan sigur á Slóvenum á sunnudag.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Ferðaskrifstofur eru þegar farnar að huga að skipulagningu ferða á Evrópumótið í handbolta en eins og kunnugt er tryggðu Íslendingar sér farseðilinn þangað eftir frækilegan sigur á Slóvenum á sunnudag. Mótið verður haldið í Danmörku að þessu sinni og því ætti að vera auðvelt fyrir Íslendinga að komast til landsins, enda samgöngur með besta móti og tvö flugfélög reglulega fljúga þangað. Hörður Hilmarsson, framkvæmdastjóri ÍT ferða, segir ferðaskrifstofuna stefna að hópferð á mótið. „Það verður mikill áhugi hjá Íslendingum. Ég var að ganga út úr Höllinni í gær þegar síminn hringdi og ég var spurður hvort við værum ekki örugglega með ferð á EM 2014,“ segir Hörður.

Vita-ferðir og Úrval-Útsýn eru einnig farin að skoða möguleika á því að bjóða upp á pakkaferðir fyrir aðdáendur landsliðsins. Forsvarsmenn ferðaskrifstofanna segja þó ekki hægt að gera almennilegar áætlanir fyrr en keppnisstaður landsliðsins liggur fyrir. Dregið verður í riðla keppninnar 21. júní.

Vonast eftir Kaupmannahöfn

Hefð er fyrir því að gestgjafarnir velji sér leikstað, en um fimm leikstaði er að ræða. Einn er í Kaupmannahöfn á Sjálandi, annar í Óðinsvéum á Fjóni, en hinir þrír verða í Árósum, Álaborg og Herning sem eru á Jótlandi en þangað er töluvert ferðalag frá Kaupmannahöfn. „Það er alltaf áhugi á landsliðinu og við munum skoða þetta af alvöru þegar búið er að draga í riðlana,“ segir Sigurður Gunnarsson, deildarstjóri hjá íþróttadeild og sérferðum Úrvals-Útsýnar.