[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Hörður Ægisson hordur@mbl.is Gengi krónunnar hefur styrkst samfellt á umliðnum tveimur mánuðum og nemur hækkunin gagnvart evru meira en 11% frá því í lok janúar.

Fréttaskýring

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Gengi krónunnar hefur styrkst samfellt á umliðnum tveimur mánuðum og nemur hækkunin gagnvart evru meira en 11% frá því í lok janúar. Þrátt fyrir að í vændum sé talsvert gjaldeyrisinnstreymi á næstu mánuðum samhliða auknum ferðamannastraumi telja sérfræðingar á gjaldeyrismarkaði ólíklegt að slíkt muni skila sér í enn meiri gengishækkun krónunnar yfir sumarið.

Regluleg gjaldeyrisinngrip Seðlabanka Íslands á síðustu mánuðum hafa ráðið mestu um gengisstyrkingu krónunnar. Seðlabankinn hefur selt gjaldeyri fyrir 78 milljónir evra, jafnvirði um 12 milljarða á núverandi gengi, af skuldsettum forða bankans til að stemma stigu við þeirri gengisveikingu sem átti sér stað á síðustu mánuðum liðins ár. Að mati viðmælenda Morgunblaðsins á fjármálamarkaði hafa aðgerðir Seðlabankans skilað því sem þeim var ætlað.

„Seðlabankanum hefur tekist að hafa nokkuð mikil áhrif á gjaldeyrismarkaðinn með því tiltölulega litla magni af evrum sem hann hefur selt,“ útskýrir Styrmir Guðmundsson, sjóðsstjóri Júpiter rekstrarfélags, í samtali við Morgunblaðið. „Miðað við hvað það er tvíeggjað sverð að nota skuldsettan gjaldeyrisforða í slíkar aðgerðir þá má segja að þær hafi haft jákvæð áhrif,“ segir Styrmir, sem bætir við að það sé einnig af hinu góða að bankinn sé ekki aðeins að reyna að stýra gengi krónunnar með vaxtabreytingum.

Á árunum 2011 og 2012 keypti Seðlabankinn yfir 200 milljónir evra á gjaldeyrismarkaði í viðleitni sinni til að byggja upp óskuldsettan gjaldeyrisforða. Í byrjun þessa árs lýsti seðlabankastjóri því hins vegar yfir að bankinn hefði gert hlé á reglulegum gjaldeyriskaupum. Að sögn Styrmis má fastlega gera ráð fyrir því að Seðlabankinn muni hefja á ný regluleg kaup á gjaldeyri um leið og ferðamannasumarið fer í gang með tilheyrandi gjaldeyrisinnstreymi. „Hann verður einfaldlega að gera það til þess að ávinna sér trúverðugleika með aðgerðum sínum.“

Þrátt fyrir að mánuður sé liðinn frá því að Seðlabankinn seldi síðast evrur á markaði hefur gengi krónunnar haldið áfram að styrkjast. Skýrist sú hækkun meðal annars af því að bankarnir hafa selt gjaldeyri.

Íslandsbanki hefur að undanförnu selt gjaldeyri í því augnamiði að ná gjaldeyrisjöfnuði bankans undir 15% af eigin fé. Við síðustu áramót var gjaldeyrisjöfnuður hans 28 milljarðar, eða sem nemur um 19% af eigin fé bankans. Leyfilegur heildargjaldeyrisjöfnuður er 15% og hefur bankinn verið með undanþágu frá reglum Seðlabankans. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er gjaldeyrisjöfnuður bankans hins vegar nú innan þeirra marka sem reglur Seðlabankans gera ráð fyrir. Því má áætla að Íslandsbanki hafi selt gjaldeyri fyrir að minnsta kosti um sex milljarða frá áramótum.

Sérfræðingar telja líklegt að fleiri en Seðlabankinn – fyrirtæki og sveitarfélög sem þurfa að greiða af erlendum lánum – muni sjá tækifæri til að kaupa gjaldeyri á markaði í sumar. Hagfræðideild Landsbankans telur því hætt við að „gjaldeyrir sem kemur inn á markaðinn í sumar vegna erlendu ferðamannanna verði fljótur að fara án þess að það skili sér í mikilli styrkingu krónunnar“.