Adolf Hitler er kominn aftur. Ekki skelmirinn úr seinna stríði heldur tvífari hans, köttur, sem olli ferfætlingum Víkverja hugarangri um langt skeið en hvarf svo sporlaust fyrir nokkrum mánuðum.

Adolf Hitler er kominn aftur. Ekki skelmirinn úr seinna stríði heldur tvífari hans, köttur, sem olli ferfætlingum Víkverja hugarangri um langt skeið en hvarf svo sporlaust fyrir nokkrum mánuðum. Um helgina birtist hann sumsé aftur, stóð skyndilega keikur í garðinum og horfði inn um gluggann með þeim afleiðingum að kettirnir urðu órólegir og hundurinn gekk af göflunum. Skyrpti froðu og slími á innanverða rúðuna.

Adolf Hitler lét sér fátt um finnast, horfði sultuslakur í augun á hundinum og hélt síðan leiðar sinnar. Ansaði ekki fyrirspurn þess efnis hvar hann hefði haldið sig undanfarna mánuði. Víkverji var farinn að halda að hann væri fluttur úr hverfinu en svo virðist ekki vera. Mögulega hefur hann haldið til í neðanjarðarbyrgi sínu!

Jæja,“ sagði sonur Víkverja og tók upp snjallsímann. „Nú eigið þið að þekkja lögin, gamalt sixtís-, seventís- og eitís-efni.“

Sonurinn var að tala við Víkverja og kærasta dóttur hans sem sperrtu við það sama eyrun. Tónelskir báðir tveir. Ekki var um formlega keppni að ræða en Víkverji var eigi að síður nokkuð sigurviss. Hann er nefnilega fæddur árið 1971 en kærasti dótturinnar árið 1995.

En hvað var a'tarna? Kærastinn rauk eins og Usain Bolt upp úr startblokkunum, bar án umhugsunar kennsl á sveitir á borð við Creedence Clearwater Revival, The Who, Men Without Hats, The Mamas & the Papas, Kinks og Culture Club. Virkaði eiginlega sprækari eftir því sem lögin voru eldri.

Úr varð hörð keppni, hundrað lagabútar, og enda þótt enginn héldi stigunum til haga óttast Víkverji að hann hafi lotið í borð. Ætli kærastinn hafi ekki verið með 51% greiddra atkvæða en Víkverji 49%.

Þrátt fyrir tapið gat Víkverji ekki annað en dáðst að þekkingu kærasta dóttur sinnar. Það er þá von fyrir æsku þessa lands!