[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is Eftir landsleikjahlé hefst úrslitakeppnin í N1-deild karla í handbolta á laugardaginn þegar FH tekur á móti Fram klukkan 15.

Handbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Eftir landsleikjahlé hefst úrslitakeppnin í N1-deild karla í handbolta á laugardaginn þegar FH tekur á móti Fram klukkan 15.00 í Kaplakrika og tveimur tímum síðar heimsækja bikarmeistarar ÍR deildarmeistara Hauka á Ásvelli.

ÍR-ingar eru fyrstu nýliðarnir sem komast í úrslitakeppnina eftir að nýtt fyrirkomulag var tekið í gagnið 2008 en þeir þurfa tæplega að óttast deildarmeistara Hauka.

Liðin hafa mæst fjórum sinnum á tímabilinu, tvisvar sinnum fyrir áramót þar sem Haukar unnu báða leikina og tvisvar sinnum eftir áramót þar sem ÍR vann báða leikina.

Í báðum sigurleikjum Hauka gegn ÍR fór Stefán Rafn Sigurmannsson á kostum og skoraði samtals 19 mörk. Í þeim leikjum skoruðu Haukar 55 mörk en aðeins 41 í leikjunum án Stefáns. Þannig er nefnilega í pottinn búið að sóknarleikur Hauka virðist hafa gert Stefáni Rafni kleift flugið út þegar hann samdi við Rhein-Neckar Löwen í desember á síðasta ári.

Nánast fullkomnir með Stefáni

Fyrir áramót spiluðu Haukar tólf leiki, þar af ellefu með Stefán Rafn í liðinu áður en hann fór nokkuð óvænt til Ljónananna hans Guðmundar Guðmundssonar þegar þýski landsliðsmaðurinn Uwe Gensheimer meiddist.

Haukar voru nánast fullkomnir fyrir áramót en þeir unnu ellefu af tólf leikjum sínum og gerðu eitt jafntefli. Tíu sigrar og eitt jafntefli sáust í leikjunum sem Stefán Rafn spilaði. Hann var farinn áður en Haukar unnu botnlið Vals í síðasta leik fyrir HM-frí.

Tölur Stefán Rafns tala hans máli. Í leikjunum ellefu sem hann spilaði skoraði Stefán 78 mörk eða 7,1 að meðaltali í leik. Hann bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn á þeim tíma og skoraði mörk í öllum regnbogans litum; úr horninu, skyttustöðunni, vítaköstum og hraðaupphlaupum.

Þrátt fyrir að spila aðeins ellefu leiki er Stefán Rafn langmarkahæsti leikmaður Hauka á tímabilinu en næsti maður er Árni Steinn Steinþórsson sem skoraði 66 mörk í deildinni í 20 leikjum.

Sex mörkum fátækari í leik

Með Stefán Rafn í liðinu skoruðu Haukar að meðaltali 27 mörk í leik. Þeir skoruðu átta sinnum yfir 27 mörk í leikjunum ellefu sem hornamaðurinn spilaði og skoruðu aðeins þrisvar sinnum færri en 24 mörk. Varnarleikur Hauka er sá besti í deildinni og fyrst liðið fékk ekki á sig nema 22 mörk í leik fyrir áramót kemur kannski ekki á óvart að liðið tapaði ekki leik á þeim tíma.

Varnarleikur Hauka var enn betri á seinni hluta móts en eftir áramót fengu Hafnfirðingarnir aðeins á sig 20,7 mörk að meðaltali í leik. Það er líka eins gott því sóknarleikurinn hrundi um leið og Stefán Rafn fór í atvinnumennskuna.

Eftir áramót skoruðu Haukar aðeins 20,7 mörk í tíu leikjum án Stefáns Rafns. Þeir unnu fimm leiki og töpuðum fimm. Tölur sem koma lítið á óvart þegar aðeins hálft mark skilur á milli marka sem liðið skorar að meðaltali og marka sem liðið fær á sig.