Gunnar Heiðar Þorvaldsson
Gunnar Heiðar Þorvaldsson
Gunnar Heiðar Þorvaldsson hefur tekið upp þráðinn með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, þar sem hann hætti í lok síðasta tímabils.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson hefur tekið upp þráðinn með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, þar sem hann hætti í lok síðasta tímabils. Eyjamaðurinn marksækni skoraði 8 mörk í síðustu 7 leikjunum í haust og endaði sem annar markahæsti leikmaður deildarinnar með 17 mörk. Nú hefur hann skorað í fyrstu tveimur leikjunum á þessu tímabili en Gunnar skoraði fyrra mark Norrköping í gærkvöld og lagði það síðara upp þegar liðið vann Gefle, 2:1, og hann skoraði líka gegn Mjällby í fyrstu umferðinni.

Samtals er Gunnar því kominn með 10 mörk í síðustu 9 deildaleikjum sínum með liðinu.

Um leið hefur Norrköping farið vel af stað, unnið þessa fyrstu tvo leiki og er á toppi deildarinnar ásamt IFK Gautaborg, sem þeir Hjálmar Jónsson og Hjörtur Logi Valgarðsson leika með.

Mjällby, sem á dögunum samdi við Hannes Þ. Sigurðsson, sótti Djurgården heim til Stokkhólms í gær en Hannes var ekki í hópnum þar. Robin Strömberg, sem var í láni hjá Þór á Akureyri síðasta sumar, kom Mjällby yfir undir lok fyrri hálfleiks. Í kjölfarið fékk einn samherja hans flösku í höfuðið og leiknum var hætt. Djurgården má búast við þungri refsingu fyrir þetta atvik. vs@mbl.is