Frumkvöðull Þórður Tómasson í Skógum með Landstólpann.
Frumkvöðull Þórður Tómasson í Skógum með Landstólpann.
Þórður Tómasson, safnvörður og menningarfrömuður í Skógum undir Eyjafjöllum, hlaut í síðustu viku Landstólpann, samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar.

Þórður Tómasson, safnvörður og menningarfrömuður í Skógum undir Eyjafjöllum, hlaut í síðustu viku Landstólpann, samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar.

Fram kemur í tilkynningu að Þórður hafi byggt upp stærsta byggðasafn á Íslandi sem dragi að sér fjölda ferðamanna. Safnið í Skógum sé einstakt á landsvísu, þar sé byggðasafn, samgönguminjasafn og kirkja sem Þórður lét reisa á staðnum. Þórður er enn starfandi, 92 ára gamall.

Landstólpinn er veittur einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum eða sveitarfélögum sem vakið hafa jákvæða athygli á landsbyggðinni. Þetta var í þriðja skipti sem Byggðastofnun veitir þessa viðurkenningu. Jón Jónsson, þjóðfræðingur og menningarfrömuður á Ströndum hlaut Landstólpann árið 2011 og í fyrra var viðurkenningin veitt Örlygi Kristfinnssyni, frumkvöðli í menningarferðaþjónustu og safnastarfi á Siglufirði.

Leirlistamaðurinn Gréta Jósefsdóttir á Litla-Ósi í Húnaþingi vestra hannaði viðurkenninguna í ár.