Rauðamöl Útsýnið af teignum á 6. holu vallarins við Borg. Rauðamöl af svæðinu er notuð í sandglompum.
Rauðamöl Útsýnið af teignum á 6. holu vallarins við Borg. Rauðamöl af svæðinu er notuð í sandglompum.
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Golfvöllur við Borg í Grímsnesi var auglýstur til sölu nú um helgina og er óskað eftir tilboðum í hann.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Golfvöllur við Borg í Grímsnesi var auglýstur til sölu nú um helgina og er óskað eftir tilboðum í hann. Völlurinn er í eigu Grímsnes- og Grafningshrepps sem keypti landið af fyrri eigendum sem gátu ekki haldið framkvæmdunum áfram.

Steindór Guðmundsson, fasteignasali hjá Lögmönnum Suðurlandi, sem hafa umsjón með sölunni, segir að nokkrir aðilar hafi sýnt vellinum áhuga en tilboðsfrestur rennur út 12. apríl.

Auk vallarins er eitt hús á landinu sem getur nýst sem klúbbhús en það er í eigu Íslandsbanka. Það er boðið til sölu með vellinum. Steindór vill ekki gefa upp hvert hugsanlegt kaupverð vallarins gæti verið.

Gert ráð fyrir frístundahúsum

Framkvæmdir við nýjan 18 holna golfvöll við Minni-Borg hófust árið 2006 en hann er hannaður af Edwin Roald Rögnvaldssyni golfvallahönnuði. Eftir að fyrri eigendur, landeigandinn Hólmar Bragi Pálsson og Golfborgir hf., höfðu hætt framkvæmdum rann hluti landsins til lánastofnana.

Í kjölfarið ákvað hreppurinn að festa kaup á landinu árið 2011 og halda áfram framkvæmdunum til að hefta moldfok þar og koma svæðinu í rækt á ný með það fyrir augum að selja völlinn eða leigja áhugasömum aðilum.

Í upphaflegum áætlunum var gert ráð fyrir frístundahúsum í tveimur kjörnum innan vallarins og því er möguleiki fyrir nýja eigendur að byggja upp gistirými innan svæðisins.

Lengsti völlur landsins

Að sögn Edwins, hönnuðar vallarins, er um 85-90% framkvæmda við hann lokið. Búið sé að sá í allar brautir nema tvær og flestar flatirnar. Verði haldið áfram með framkvæmdir nú í vor og sumar verði hægt að opna völlinn síðsumars á næsta ári. Með mun minni fyrirhöfn mætti einnig sjá fyrir sér að hægt væri að opna níu holna völl. Þá séu ýmis smáverkefni eftir eins og að laga umhverfi göngustíga og fínpússa sandglompur.

Áætlað er að völlurinn verði um 6.400 metrar að lengd af hvítum teigum og hann yrði því langlengsti golfvöllur landsins að sögn Edwins. Því geti hann hentað vel fyrir mótahald í framtíðinni, jafnvel fyrir stærri alþjóðleg mót.

„Það er ekki síst vegna allrar þjónustunnar sem er í grenndinni við Borg. Það er félagsheimili, sundlaug, ýmis þjónusta og gisting í nágrenninu,“ segir hann.