Guðmundur fæddist í Reykjavík 26. ágúst 1941. Hann lést á Vífilsstöðum aðfaranótt 16. mars 2013 eftir skammvinn veikindi.

Foreldrar hans voru hjónin Sólveig Guðmundsdóttir frá Indriðastöðum í Skorradal, f. 29. apríl 1901, d. 17. apríl 1982, og Magnús Vigfússon húsasmíðameistari frá Þorleifskoti í Flóa, f. 28. september 1906, d. 9. maí 1976.

Systkini hans: Hólmfríður, f. 17. jan. 1931, d. 27. nóv. 2011, og Vigfús, f. 3. júní 1933.

Fyrrverandi sambýliskona Guðmundar var Þuríður Hermannsdóttir, f. 5. maí 1941, d. 19. jan. 2010. Sonur þeirra er Magnús, f. 30. nóv. 1969 og á hann soninn Emil Kára, f. 23. ágúst 1996.

Guðmundur varð stúdent frá MR 1961 og lagði stund á stærðfræðinám í Danmörku. Var um skeið kennari, m.a. við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, en varð að hætta kennslu vegna vanheilsu.

Útför Guðmundar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 9. apríl 2013, kl. 15.

Leiðir okkar Gvendar Magg lágu fyrst saman í Vonarstrætinu, landsprófsdeild, Þar vissum við hvor af öðrum en varla meira. Í 4. bekk í menntaskólanum lentum við í sama bekk, 4.Y, og kynntumst þar að einhverju gagni. Það var sumarið 1959 er við fengum báðir sumarvinnu við byggingu lóranstöðvarinnar að Gufuskálum sem við tengdumst vinaböndum. Þar vorum við herbergisfélagar, unnum saman í brjálæðislegri ákvæðisvinnu daglega frá kl. 8.20 til 22 sex daga vikunnar við að slípa steypu og stál. Á kvöldin var spilaður póker en brids um helgar, engar voru helgarferðir til Reykjavíkur. Um haustið tókum við því vel á skemmtanalífinu eftir svelti sumarsins. Veturinn í 5. og 6. bekk vorum við mikið saman og lásum jafnvel stærðfræði saman heima hjá honum í Eskihlíðinni og naut ég þar frábærrar gestrisni Sollu, móður Guðmundar. Eftir stúdentspróf skildi leiðir okkar, Guðmundur fór í stærðfræðinám til Árósa en ég í verkfræði til Þýskalands. Við hittumst þó ætíð í sumarfríum og meðal annars fór Gvendur með mér í hálfsmánaðar sýningarferð með kvikmyndina „79 af stöðinni“. Var sú ferð mjög skemmtileg og okkur minnisstæð. Gvendur Magg hvarf frá stærðfræðinni í ár og ætlaði í viðskiptafræði og bisness, síldarævintýri. Magnús faðir hans bað um mig um aðstoð við að fá Guðmund sinn ofan af þessari vitleysu. Magnús sendi mig með Gvendi til Seyðisfjarðar að skoða aðstæður, en tilgangurinn var að fá Gvend í sinnaskipti og það tókst. Hvarf hann til fyrra náms til Árósa og lauk stærðfræðináminu utan lokaverkefnisins. Hann kenndi starðfræði við ýmsa skóla eftir það. Vinátta okkar Gvendar Magg hélst alla tíð án áfalla, þó sambandið væri stundum slitrótt vegan veikinda hans. Stundum var erfitt að ná til hans en tókst oftast gegnum Huldu, sem reyndist honum ætíð vel. Um langt skeið stundaði Guðmundur hestamennsku sem var hans stóra hobbí og fór ég nokkrum sinnum með honum í stutta reiðtúra. Fjórum vikum fyrir andlát hans hringdi hann í mig og sagðist vera kominn með krabba í brisið. Ég heimsótti hann á Landakot, en hann var þar í lyfjameðferð. Virtist hann nokkuð hress og í besta skapi. Gvendur sagðist verða fluttur á Vífilsstaði næsta miðvikudag og þangað sótti ég hann til að fara á fund stúdentssystkina okkar á veitingastaðnum Uppsölum. Var það vel. Viku seinna lét hann mig vita að hann væri kominn á krabbameinsdeildina á Landspítalnum. Ég og Eggert Jónsson fórum þangað á laugardegi. Gvendur leit illa út og fannst mér að liði að leiðarlokum og fór því strax aftur næsta mánudag. Gvendur virtist þá vera að braggast og glettumst við hvor við annan, húmorinn var í lagi. Það var í hinsta sinn sem ég sá Gvend Magg, vin minn, því hann lést næsta laugardag.

Vertu sæll, góði vinur.

Samúðarkveðjur til ættinga og þín, Hulda.

Gunnar Rósinkranz.

Látinn er gamall vinur og samstarfsmaður okkar í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Guðmundur K. Magnússon.

Þó að nokkuð langt sé síðan Guðmundur hætti stærðfræðikennslu við FB var hann sú manngerð sem minnisstæð verður samstarfsfólki sínu fyrir ýmissa hluta sakir. Guðmundur var jafnan afdráttarlaus í skoðunum og setti þær gjarnan fram af því hispursleysi að stundum þótti um of. Það má því segja um Guðmund að hann var ekki allra en innst inni var góð sál sem öllum vildi vel þótt yfirborðið væri stundum hrjúft. Á fyrstu árum FB var Guðmundi ásamt undirrituðum falið að gera stundatöflur. Þetta var mjög vandasamt verk og flókið og þurfti mikla stærðfræðigáfu til að leysa. Guðmundur var afbragðs stærðfræðingur og menntaður í þeirri grein og í þessu starfi naut hann sín mjög. Honum gekk einnig vel að kenna efnilegum nemendum stærðfræði en miður þeim sem lakari voru. Verður svo stundum að þeim sem að upplagi er sterkur í grein verður skilnings vant yfir því hve viðtakandinn skilur lítið og hve mikla þolinmæði þurfi að sýna.

Guðmundur var mikill hestamaður og best leið honum kringum hesta sína. Ósjaldan kom hann beint úr hesthúsinu til kennslu og þá fylgdi honum þessi dásamlega hestalykt að sumum þótti enda hestamenn í kennarahópnum. Öðrum var færra um. Við félagarnir söknum góðs drengs sem var ljóngáfaður og gull af manni við nánari kynni.

Við vottum fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð.

Stefán Andrésson,

Stefán Benediktsson.

Leiðir okkar Gvendar kynnu að hafa legið fyrst saman á fæðingardeildinni 26. ágúst 1941, en ég hafði komið í heiminn deginum fyrr. Það er engan veginn víst, að mæður okkar hafi gert sér grein fyrir þeim merkisatburði, frekar en ýmsum uppátækjum síðar, sem þær höfðu ýmist engar eða mjög takmarkaðar upplýsingar um. Ólíklegt verður að teljast, að við höfum borið kennsl hvor á annan, þegar við settumst í 7 ára bekk E í Miðbæjarbarnaskólanum haustið 1948. Að minnsta kosti fer engum sögum af því, að við höfum þakkað fyrir síðast, þegar fundum okkar bar saman aftur, en við urðum fljótlega vinir og héldum sambandinu, þótt slitrótt yrði. Hann átti heima á Bókhlöðustígnum fyrstu árin og þar tóku foreldrar hans manni ætíð opnum örmum eins og reyndar síðar í Eskihlíð og Stigahlíð.

Við Gvendur áttum samleið meira og minna saman fram að stúdentsprófi 1961. Eftir það tvístraðist hópurinn eins og vænta mátti, þegar ungt fólk átti í hlut og vissi ekki hvað það vildi. Gvendur valdi sér nám í stærðfræði í Danmörku og sóttist námið að mörgu leyti vel, að því er ég bezt veit, en lokahnykkurinn lét á sér standa. Skáldið Steinn Steinarr mun hafa látið orð falla um það í meitluðu máli, að oft væri vitlaust gefið. Gvendur galt þess með geðtruflunum, sem hvorki hann né aðrir skildu. Örlög hans urðu því erfiðari en flestra annarra, sem betur farnaðist, oft án þess að hafa til þess unnið.

Heilagur Pétur þarf ekki lengur að ganga um með marga þunga lykla og fletta upp í þykkum bókum. Nú er hann kominn með erfðalykil að öllum upplýsingum um það, sem fólki er áskapað. Syndajátningin, sem farið er með í tíma og ótíma í kirkjum landsins, gefur það til kynna, að Drottinn allsherjar hefur sjaldnast ástæðu til að gleðjast yfir mannlegu eðli, – eða hvað? Ímyndum okkur heilagan Pétur ganga á hans fund dag eftir dag í eilífðarinnar rás og segja: Góður Guð, þau gátu ekkert að þessu gert. Í tilviki Gvendar er það ljóst, að hann á skilið allt hið bezta.

Eggert Jónsson.

Þegar Guðmundur K. Magnússon er borinn til grafar þá vil ég kveðja góðan dreng. Við kynntumst í Kaupmannahöfn vegna skynjunar á því, að við vorum báðir að líta á heiminn frá aðeins öðru sjónarhorni en þeir, sem sóttust eftir að skýrgreina sig með sérstökum hópi til hægri eða vinstri eða eitthvað sérgreindara. Við Guðmundur litum á einstök mál sem viðfangsefni fremur en að tilheyra einhverjum flokki manna. Sækjast sér um líkir. Velvild og góðvild var í sjálfsögðum undirtóni, en viðfangsefnin oftast tæknileg. Það er ekki til siðs í greinum sem þessari, að hafa tæknileg atriði í frammi. En samtöl okkar voru tæknileg um margt. Guðmundur var þeirrar náttúru að hafa mikið minni, því fylgdi að minnið kallaði fram allar tilfinningar sem gengu þegar minnið myndaðist. Það er mikil ánauð að gleyma ekki eða fyrna minningar. Við það verður tilfinningalegur heimur allur til aðgengis á samtíma. Hann gat lýst fyrir mér löngu felldum hesti, eins og hesturinn stæði með reiðtygjum fyrir utan. Hann kallaði fram eins og á samtíma væri. Þetta gera nú fleiri hestamenn, en Guðmundur hafði miklu fleira í stöðugum samtíma hins mikla minnis, áður en hann veiktist. Mér var slíkt ekki ókunnugt, var svo innan minnar ættar. Ég tók þessu sem eðlilegu, og sá þetta reyndar ekki fyrr en ég hugði að síðar. Við töluðum létt hvor við annan um okkar hugviðfangsefni, Guðmundur rakti fyrir mér grafþeóríu og ritaði niður með sérstökum breiðum sjálfblekungi, sem ég sé enn fyrir mér. Þetta var grein stærðfræði, sem mér var framandi, en ég skildi sumt. „Sko, Guðmundur,“ sagði ég, „ef við tökum tengingarnar milli punktanna og endurskýrgreinum gerund tenginganna, þannig að hver tenging verði stubbur, sem aðeins endist stutt en skapast aftur í nýrri tengingu, þá getum við búið til kerfi til lýsingar um framvindu efnisins og við að allir stubbar hverfi og verði til þá er efninu viðhaldið og talning á þessari gerund verður tími.“ „Þú ert vitlaus,“ sagði Guðmundur, „grafþeóría er ekki birting stubba milli punkta hvippinn og hvappinn, stundum og stundum ekki.“ Og svo hélt Guðmundur áfram um hvernig grafþeóría gæti nýst við landbúnaðarskipulag á Íslandi. Það var oft þannig, að við töluðum fram frumhugmyndir hvor fram í annan, því enginn annar hlustaði. En það er ekki til siðs að rekja tæknilegar minningar. Guðmundur veiktist mikið af geðhvarfasýki og náði að skefja sjúkdóminn með litíumlyfi. En jafnvægið, sem fylgdi lyfinu, leyfði ekki sama greindarflug á stundum og áður. Samskiptin urðu miklu minni eftir að við komum heim, en ég vil kveðja Guðmund, eins og hann stendur mér kær í minni síðan í Kaupmannahöfn.

Þorsteinn Hákonarson.

Dánarfregn, vinur látinn, sá þriðji á skömmum tíma, allir dóu þeir úr krabbameini. Maður hugsar að nú fari lengjast í annan endann og styttast í hinn.

Við Guðmundur hittumst í menntaskóla og urðum strax vinir. Foreldrar Guðmundar voru elskulegt rausnarfólk sem tók okkur vinum Guðmundar opnum örmum og þar á heimilinu var oft komið saman.

Að loknu stúdentsprófi héldum við Guðmundur til Árósa að læra stærðfræði. Guðmundur tók sér hlé frá námi eftir tvö ár og vann við kennslu um tíma, m.a. á Snæfellsnesi. Þar fann hann upp sniðuga kennsluaðferð. Bekkurinn var nokkuð róstusamur, sérstaklega tveir piltar. Guðmundur gerði þá að foringjum og lét þá skipta bekknum í tvo hópa. Síðan áttu liðin að keppa í dæmareikningi og málfræði. Foringjarnir sáu til þess að liðsmenn lærðu fyrir tímana, sjálfir voru þeir ekki miklir lærdómsmenn. Þó gerðist það þegar hallaði á annað liðið að foringinn sagði: „Nei, nú verð ég sjálfur að koma upp að töflu.“ Ekki fer sögum af því að það hafi bætt gengi liðsins.

Eftir nokkurn tíma hélt Guðmundur aftur til Árósa og lauk bachelorprófi í stærðfræði með ágætum árangri. Hann hóf mastersnám og lauk tilskildum prófum en hélt heim til Íslands við andlát föður síns og átti þá ritgerð ókláraða. Guðmundur kenndi stærðfræði í mörg ár, var m.a. stundakennari við Verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands. Síðar kenndi hann í framhaldsskóla.

Þegar Guðmundur var á besta aldri fór hinn erfiði sjúkdómur þunglyndi að ásækja hann og sú sókn ágerðist frekar en hitt. Það gerði Guðmundi erfitt um vik að starfa sem kennari. Þó bráði af inn á milli og fyrir nokkrum árum svo mjög að Guðmundur leitaði eftir því að fá að ljúka námi sínu í Árósum. Leyfi fékkst en þá þvarr móður.

Stúdentsárgangur okkar Guðmundar kom saman fyrir nokkrum vikum. Guðmundur reis af sjúkrabeði, mætti á fundinn og kvaddi skólasystkini sín með handabandi. Það var hinsta kveðjan.

Blessuð sé minning Guðmundar.

Eggert Briem.