Brynfríður fæddist í Bæjum á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp 31. ágúst 1915. Hún lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Grund 31. mars 2013.

Foreldrar hennar voru Halldór Halldórsson, bóndi í Bæjum, fæddur 14. október 1884, dáinn 19. desember 1947, og kona hans Þorbjörg Brynjólfsdóttir, fædd 13. september 1884, dáin 21. október 1983.

Systkini hennar voru: Rannveig Jensína f. 5.3. 1914, dáin 12.6. 1993, Kjartan f. 17.6. 1917, dáinn 7.3. 1993, Halldór Tryggvi f. 24.8. 1919, dáinn 16.7. 2003, Guðbjörg f. 10.4. 1923 og Sigríður Kristín f. 1928, dáin 1930.

Fljótlega eftir andlát föður síns fluttist Brynfríður til Reykjavíkur ásamt móður sinni og stofnuðu þær, ásamt Guðbjörgu saman heimili við Flókagötu 12, Reykjavík, síðar keyptu þær sér íbúð við Mánagötu 14 í Reykjavík.

Um 1960 keyptu þær systur íbúð við Skipholt 55 í Reykjavík og bjuggu þar saman til ársins 1973, en þá keypti Brynfríður hlut Guðbjargar í íbúðinni og bjó þar áfram þar til hún fluttist á Grund fyrir u.þ.b. fjórum árum.

Sambýlismaður hennar var Gísli Þorgeirsson f. 15.9. 1914, dáinn 24.7. 2003.

Veturinn 1936 til 1937 stundaði Brynfríður nám við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Síðar lærði hún fatasaum í Reykjavík og varð það síðan hennar ævistarf. Við fatasaum vann hún m.a. hjá Andrési klæðskera í Reykjavík, Kápunni og hjá Álafossi í Mosfellssveit.

Útför Brynfríðar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 9. apríl 2013, kl. 13.

Síðasta skiptið sem ég hitti Binnu var sl. haust er ég kom með aðalbláber til hennar frá foreldrum mínum að vestan. Í þessari heimsókn var hún þreytt og lá í rúminu sínu og opnaði aldrei augun.

Í minningu minni frá ferðalögum til Reykjavíkur þegar ég var barn hittum við oftast systkini ömmu minnar, að minnsta kosti var alltaf farið til Binnu frænku og hún oft búin að kalla saman hópinn. Þar sem einungis tvö af fimm systkinunum sem komust á legg eignuðust afkomendur þá voru Gugga og Binna frænka svona aukaömmur sem við áttum í Reykjavík. Binna var mjög gestrisin og hafði gaman af að veita mat og oft var hlegið að því hvað allir fóru útbelgdir heim frá henni, hún eldaði líka góðan mat og hugsaði mikið um hollustu.

Síðan þegar ég bjó á námsárunum í Reykjavík 1980 til 1986 þá kynntist ég Binnu enn betur, þá vorum við litla fjölskyldan boðin til hennar í mat og kaffi reglulega, það voru ýmist sláturboðin að hausti, jólaboð á jóladag, vöfflukaffi eða óteljandi matarboð á sunnudögum. Alltaf var jafn notalegt fyrir unga fólkið sem kunni ekki mikið til matargerðar og hafði ekki sína fjölskyldu nálægt að koma og fá heimilismatinn hjá Binnu. Oftar en ekki fór maður svo heim með eitthvað, mat, sultur, búta af ullarteppum frá Álafossi til að setja í vöggu eða barnavagn eða föt af Binnu því við notuðum sömu fata- og skóstærð. Binna átti svo mikið af fallegum fötum, bæði saumaði hún sér og keypti mjög vönduð föt, oft var haldin smá tískusýning á nýju síðpilsunum, blússunum eða kjólunum sem hún ætlaði að nota í leikhúsið eða til að fara út að dansa með Gísla. Mér er minnisstætt í einu matarboðinu þegar ég var komin að því að fæða mitt elsta barn að þá var Kjartan frændi, bróðir hennar, líka þar og hann var nýbúinn að fá pampers-bréfbleyjur í vinning einhvers staðar, en þær voru dýrar á þessum árum og lítið notaðar, hann rétti mér bleyjurnar og sagði þetta vera fyrir Halldór litla. Það var greinilegt að þau vildu viðhalda nafni föður síns í fjölskyldunni.

Það var oftast komið við hjá Binnu ef ég var á ferð í Reykjavík og þá með stækkandi fjölskyldu, eins fór ég einu sinni að Tirðilmýri og hitti ömmu og þau systkinin að sumri til en þar dvöldu þau eins og þau gátu saman. Alltaf bárust veglegar jólagjafir frá Binnu til okkar systra í búið og börnin okkar fengu smá glaðning og happaþrennu með. Seinni árin kom Binna vestur í fermingu dóttur minnar og dóttur systur minnar, en síðasta ferðin vestur var hjá henni til að halda upp á 90 ára afmælið sitt.

Binna bjó í sinni íbúð fram yfir nírætt, en seinustu árin dvaldi hún á Grund og náði ég að hitta hana þar er ég kom til Reykjavíkur, síðustu skiptin þekkti hún mig ekki en áttaði sig stundum er ég sagðist vera dóttir Hadda.

Elsku Binna, kærar þakkir fyrir allt, kveðja,

Árný Halldórsdóttir.

Móðursystir mín Brynfríður Halldórsdóttir, Binna eins og hún var ávallt nefnd innan fjölskyldunnar, lést að kvöldi páskadags og var þá leyst undan þrautum þeim er aldur og lasleiki höfðu valdið henni um skeið, enda hafði hún oft haft orð á því að nóg væri komið.

Á kveðjustund fara um hugann minningar liðins tíma, ég sem unglingur sá þær frænkur mínar Binnu og Guggu, sem bjuggu í Reykjavík, ávallt í nokkurskonar glansmyndaljósi. Á mínum unglingsárum 1940-1950 var nú ekki verið að flakka landshorna á milli oft á ári eins og við upplifum í dag. Einu samskiptin voru bréfasendingar milli þeirra og mömmu og síðan pakkarnir á jólum og afmælum. Síðar meir fjölgaði ferðum suður og þá var ekki í kot vísað hjá þeim systkinum. Binna lagði alla tíð mikla rækt við það að halda fjölskyldutengslunum vel við. Í Reykjavík bjuggu auk þeirra mæðgna bræðurnir Kjartan og Tryggvi og oftar en ekki var það Binna sem bauð allri fjölskyldunni til hátíðar þegar við Ísfirðingarnir vorum á ferðinni og vel var veitt, endaði veislan oft á því að hún renndi til mín restinni af ísnum og niðursoðnu ávöxtunum og segði: Haddi, þú klárar þetta. Dóttir mín, Rannveig, bjó hjá Binnu um þriggja mánaða skeið meðan hún sótti nám í Kvennaskólanum í Reykjavík og naut hjá henni mikils og góðs atlætis. Einnig var Binna hinni dóttur minni, Árnýju, betri en enginn, meðan hún stundaði nám í Reykjavík og voru ófá matarboðin sem hún bauð fjölskyldu Árnýjar til.

Binna og Gugga (reyndar Tryggvi líka) ferðuðust mikið með Ferðafélagi Íslands í gönguferðum innanlands, sérstaklega var Þórsmörkin í uppáhaldi hjá þeim og leið varla svo sumar að þær skelltu sér ekki í Mörkina. Einnig fóru þær saman í ferðalög erlendis. Þær systur, sjálfsagt vegna sveitauppeldisins, nutu þess að vera úti í náttúrunni. Sveitin togaði alltaf í þær og má þar t.d. nefna að eftir að Kjartan eignaðist Tirðilmýrina þá dvöldu þær systur þrjár ásamt Gísla hennar Binnu oft með honum á Mýrinni. Nokkrum sinnum komu þær líka hingað vestur til að fara á berjamó. Síðasta ferð Binnu vestur var þegar hún kom til okkar til að halda upp á 90 ára afmælið sitt.

Binna hugsaði alla tíð vel um heilsuna og það sem hún lagði sér til munns og hafði ákveðnar skoðanir í þeim efnum, einnig blönduðust þar inn í ýmis töframeðul fundin upp af henni og var hún óspör á ráðleggingar þar að lútandi. Fram eftir öllum aldri var hún við góða heilsu og má kannski þakka það þessum töframeðulum hennar, þó svo að ég hafi nú ekki alltaf samsinnt henni í þeim málum.

Elsku Binna, ég þakka þér fyrir það sem þú hefur verið mér og mínu fólki og geymi í huganum minninguna um frábæra konu sem vildi öllum gott og lagði mikla orku í að halda fjölskylduböndunum saman.

Halldór Margeirsson.