Gegnum tollinn Ferðamenn geta nú haft með sér staka hluti að verðmæti 88.000 krónur.
Gegnum tollinn Ferðamenn geta nú haft með sér staka hluti að verðmæti 88.000 krónur. — Morgunblaðið/Ómar
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Ein af þeim breytingum sem gerðar voru á vörugjöldum og tollalögum á síðustu vikum þingsins hafði það í för með sér að hámarksverðmæti einstaks hlutar sem ferðamaður búsettur hérlendis má taka með sér tollfrjálst til landsins hækkaði úr 44.000 krónum upp í 88.000 krónur.

Breytingin nú hefur því það í för með sér að ferðamenn geta nýtt sér tollfrelsismörkin fyrir einn stakan hlut en áður mátti upphæð eins staks hlutar einungis nema helmingi þeirrar hámarksupphæðar alls varnings sem ferðamenn máttu hafa með sér tollfrjálst inn í landið. Fari verðmæti hlutar yfir 88.000 krónur er sú upphæð dregin frá verðmæti hans áður en tollur er reiknaður. Sé til dæmis spjaldtölva eða snjallsími að verðmæti 100.000 krónur keyptur erlendis mun ferðamaðurinn aðeins greiða toll af 12.000 krónum.

Afturvirk breyting

Þessi lagabreyting varð við meðferð efnahags- og viðskiptanefndar hluti af lagfæringum á lögum um vörugjöld og tolla af sykruðum vörum sem samþykkt voru á Alþingi síðastliðinn desember en þau lög tóku gildi 1. mars. Þegar leiðréttingar á þeim lögum voru síðan samþykktar um miðjan mars var ljóst að breytingarnar á hámarksverðgildi staks hlutar myndu gilda afturvirkt til 1. mars þar sem þær væru ívilnandi en ekki íþyngjandi.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti tollstjóra höfðu um 90 aðilar sem breytingin náði til greitt of háan toll af vöru á tímabilinu frá 1. mars til 16. mars. Hafði tollstjóri frumkvæði að því að endurgreiða þeim, en svo vel bar til að um 80 af þessum 90 aðilum voru þegar með skráðar reikningsupplýsingar hjá embættinu. Hinir fengu bréf þar sem þeir voru beðnir um að koma slíkum upplýsingum á framfæri.

Fjárhæðirnar sem tollstjóri endurgreiddi voru á bilinu 2.000 krónur og upp í um 35.000 krónur. Þó að einstakar fjárhæðir séu ekki háar er talið að heildarupphæðin sem tollstjóri endurgreiði vegna breytinganna sé um 830.000 krónur.