Hvatt er til þess í Bandaríkjunum að grænir bílar njóti afsláttar og ívilnana, svo ódýrari geti orðið. Frá bílasýningunni í New York á dögunum.
Hvatt er til þess í Bandaríkjunum að grænir bílar njóti afsláttar og ívilnana, svo ódýrari geti orðið. Frá bílasýningunni í New York á dögunum. — AFP
Vistvænni bílar sem nota annars konar eldsneyti en bensín- og dísilolíu gætu stuðlað að því að gróðurhúsaloft í útblæstri bíla yrði 80% minna árið 2050 en það er í dag. Það myndi þýða 13% minnkun heildarloftmengunar í Bandaríkjunum.

Vistvænni bílar sem nota annars konar eldsneyti en bensín- og dísilolíu gætu stuðlað að því að gróðurhúsaloft í útblæstri bíla yrði 80% minna árið 2050 en það er í dag. Það myndi þýða 13% minnkun heildarloftmengunar í Bandaríkjunum. Þetta eru meginniðurstöður rannsóknar á vegum bandarísku vísindaakademíunnar. Þar segir að frá fólksbílum og litlum pallbílum stafi 17% heildarlosunar gróðurhúsalofts í Bandaríkjunum. Ekki er þó víst að rannsókn þessi muni hafa ráðandi áhrif, sbr. að eyðsluhákar og þægindakerrur voru í brennidepli á bílasýningunni í New York.

Dýrt en mun skila sér

Helsti þrándur í götu aukinnar sölu bíla með drifrás sem nýtir hvorki bensín né dísil er hátt verð á þeim. Kosta þeir yfirleitt mörg þúsund dollurum meira en bílar með hefðbundna brunavél.

Sérfræðingar spá því að verð á bílum með óhefðbundna aflrás verði áfram talsvert hærra, í allt að áratug eða svo. Akademían segir að þrátt fyrir hærra verð í byrjun skili það sér margfalt til baka með tímanum. Rekstrarkostnaður sé minni og þjóðhagslegur ávinningur gríðarlega mikill með minni mengun og bensínnotkun. Hvetur akademían því yfirvöld til að greiða fyrir þróun í átt til minni bílmengunar með niðurgreiðslum og skattafslætti til að létta byrðum af neytendum sem vilja aka á vistvænni bílum.

„Verðlækkun kemur ekki af sjálfu sér á bílamarkaði, það verður að vera bit í stefnu stjórnvalda um að draga úr mengun,“ sagði forystumaður hóps akademíunnar sem að rannsókninni stóð.

Vísindamenn sjá fyrir sér að bílar og litlir pallbílar muni komast 42 kílómetra á lítrann í framtíðinni, miðað við 10 km að meðaltali á lítra árið 2005. Skilvirkari bíltækni – svo sem léttari og mun straumlínulagaðri bílar – í bland við annars konar orkugjafa á borð við lífeldsneyti, rafmagn og vetni gæti minnkað bensínnotkun um 80% fyrir árið 2050. Akademían segir að markmiðin í skýrslu hennar, sem er afrakstur tveggja ára athugana og rannsókna, séu torsótt en ekki óvinnanleg.

agas@mbl.is