Útlitið minnir að mörgu leyti á stóra bróður Oktavía en er þó aðeins einfaldara.
Útlitið minnir að mörgu leyti á stóra bróður Oktavía en er þó aðeins einfaldara.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skoda Rapid var kynntur á bílasýningunni í París síðastliðið haust og er nú kominn til Íslands. Margir Íslendingar sem komnir eru yfir fertugt kannast eflaust við Rapid-nafnið, en það var nokkurs konar sportútfærsla á Skoda 130 1984 með vélina aftur í.

Skoda Rapid var kynntur á bílasýningunni í París síðastliðið haust og er nú kominn til Íslands. Margir Íslendingar sem komnir eru yfir fertugt kannast eflaust við Rapid-nafnið, en það var nokkurs konar sportútfærsla á Skoda 130 1984 með vélina aftur í. Reyndar kom fyrsti Rapid-bíllinn fram á sjónarsviðið 1935 og þá einnig sem blæjubíll.

Þótt Skoda Rapid sé fjölskyldubíll í ódýrari kantinum er honum ætlað að auka markaðshlutdeild Skoda á svæðum sem selja mikið magn bíla. Er hann þegar framleiddur í Indlandi og brátt einnig í verksmiðjum í Kína og Rússlandi, sem er stærsta markaðssvæði fyrir bíla í Evrópu. Sá Rapid sem hingað kemur er hins vegar framleiddur í verksmiðju Skoda í Mladá Boleslav í Tékklandi. Sú verksmiðja var stækkuð um næstum þriðjung til að koma fyrir framleiðslulínu Rapid sem segir sitt um til hvers af þessum bíl er ætlast.

Með risaskotti

Skoda Rapid er í sama stærðarflokki og VW Vento sem er um leið hans aðalkeppinautur hérlendis. Hann er nokkuð nýtískulegur í útliti og líkist helst nýjum Oktavía enda á hann margt sameiginlegt með þeim bíl. Meðal þess er mjög stórt skott eða 550 lítrar alls með mottu sem snúa má við, og er þá gúmmí öðrum megin fyrir hluti sem sóða meira út, líkt og í Oktavía. Hlerinn fyrir skottið er einnig stór og opnast hátt, svo hátt reyndar að þeir sem eru mjög lágvaxnir gætu verið í vandræðum með að loka því aftur. Annað sem kemur beint frá Okatavía er rúðuskafan í bensínlokinu.

Að innan er Rapid nokkuð fábrotinn og mikið af innréttingu bílsins er úr hörðu plasti. Við fyrstu sýn virðist hann ekki mikið búinn en þó má finna upphituð sæti og bakkskynjara sem er staðalbúnaður. Framsætin eru frekar stutt svo að þau geta verið óþægileg á lengri akstursleiðum en gefa góðan stuðning við bak. Það fer eiginlega betur um mann í aftursætum sem eru bæði rúmbetri og þægilegri.

Auk þess tók undirritaður eftir einu atriði sem hefur pirrað hann lengi í nýjum bílum en það er staðsetning Isofix-festinga fyrir barnabílstóla, sem oft eru svo innarlega að nánast ekkert pláss er eftir fyrir þriðja barnið. Í Rapid voru þær aftur á móti vel utarlega svo að gott pláss var á milli bílstólanna.

Gott samspil vélar og kassa

Það fyrsta sem maður verður var við í akstri á Skoda Rapid er hversu léttur hann er í stýri og hvað hann liggur vel á. Það þýðir samt ekki að stýrið sé laust við tilfinningu en það leitar þó aðeins eftir hjólförum ef maður passar það ekki. Bíllinn liggur mjög vel á vegi enda var reynsluaksturbíllinn búinn léttri 1,2 lítra bensínvél. Sú vél er alveg ótrúlega öflug miðað við stærð og vinnur eiginlega á við 1,4 lítra vélina í Golf, sem dæmi. Hún gefur gott tog og er búin sex gíra beinskiptum kassa svo að aflið kemst alltaf vel til skila og má segja að þessi samsetning henti bílnum einstaklega vel.

Gott verð og fáir keppinautar

Annar kostur við vélina er hversu hljóðlát hún er, svo hljóðlát reyndar að leggja þurfti stundum við hlustir þegar bíllinn var stopp og gekk hægaganginn, svo hljóðlát er hún. Það sama er þó ekki hægt að segja um veghljóð sem er nokkuð og þótt bíllinn hafi verið búinn grófum vetrardekkjum er ekki hægt að skrifa það eingöngu á þau. Einnig er fjöðrunarbúnaður hans ekki alveg hljóðlaus.

Erlendis mun Rapid keppa við ódýrari gerðir eins og hinn Renault-ættaða Dacia Logan sem smíðaður er í Rúmeníu, og Kia Cee'd sem smíðaður er í Slóvakíu. Dacia Logan er ekki seldur hérlendis og því ekkert verð til á þann bíl sem eflaust yrði nokkuð ódýr væri hann í boði. Grunnverð Skoda Rapid er 3.090.000 kr. sem verður að teljast nokkuð gott en til samanburðar er grunnverð Kia Cee'd 3.490.000 kr. VW Jetta er eins og áður sagði bíll í sama stærðarflokki en flokki ofar í búnaði enda er grunnverð hans 3.980.000 kr.

Það hefði verið gaman að sjá Rapid fara niður fyrir þriggja milljóna króna múrinn en eftir sem áður er hér kominn rúmgóður fjölskyldubíll sem er þokkalega búinn og keppir við verð bíla sem eru í næsta stærðarflokki undir honum.

njall@mbl.is