Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson
„Þetta er athyglisverð hugmynd.

„Þetta er athyglisverð hugmynd. Það er ekki spurning að Óli verðskuldar svo sannarlega að fá kveðjuleik og það er bara verið að vinna í þeim málum hvernig á að gera það í samráði við hann,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari karlalandsliðsins í handknattleik, þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við viðhorfsgrein Víðis Sigurðssonar, íþróttafréttastjóra Morgunblaðsins, í blaðinu í gær.

Þar leggur Víðir til að Ólafur Stefánsson spili kveðjuleik sinn með landsliðinu þegar Íslendingar taka á móti Rúmenum í lokaleik sínum í undankeppni EM í Laugardalshöllinni hinn 16. júní en Ísland vann sér keppnisréttinn í úrslitakeppni EM með sigrinum á móti Slóvenum í fyrradag.

Hefur tekið vel í það

„Það hafa komið upp nokkrar hugmyndir og þessi er ein af þeim. Við höfum verið að skoða hvernig sé best að standa að þessu. Það hefur verið rætt við Ólaf um að hann spili kveðjuleik með landsliðinu og hann hefur tekið vel í það. Það var sterklega inni í myndinni að fá hann með okkur á HM á Spáni. Við völdum hann í hópinn en Óli ákvað að draga sig út úr honum þar sem hann taldi sig ekki vera í nógu góðu formi. Nú er hann kominn á fullt með liði sínu í Katar og er í góðu formi svo hann er alveg gjaldgengur í landsliðið,“ sagði Aron en sem kunnugt er gekk Ólafur í raðir Lekhwiya í byrjun ársins.

gummih@mbl.is