Hasar Leikmönnum grannliðanna var stundum heitt í hamsi á Old Trafford í gærkvöld.
Hasar Leikmönnum grannliðanna var stundum heitt í hamsi á Old Trafford í gærkvöld. — AFP
Glæsilegt mark frá Argentínumanninum Sergio Agüero gerði út um slag Manchesterliðanna á Old Trafford í gærkvöld.

Glæsilegt mark frá Argentínumanninum Sergio Agüero gerði út um slag Manchesterliðanna á Old Trafford í gærkvöld. Agüero kom inná sem varamaður þegar 20 mínútur voru til leiksloka og hafði aðeins verið inná í sjö mínútur þegar hann tók góða ripsu í gegnum vörn United og skoraði sigurmarkið, 2:1.

Sennilega breytir það þó engu í baráttunni um enska meistaratitilinn í knattspyrnu. Þrátt fyrir ósigurinn er United með 12 stiga forskot á City þegar bæði lið eiga sjö leikjum ólokið. Það þyrfti því ansi mikið að fara úrskeiðis hjá Alex Ferguson og hans mönnum á endasprettinum ef þeir ættu að missa titilinn í hendur City á síðustu stundu, annað árið í röð.

Mörkin komu öll í seinni hálfleik. James Milner kom City yfir fljótlega eftir hlé en United jafnaði þegar Phil Jones skallaði og boltinn fór af Vincent Kompany, fyrirliða City, í markið.

City var sterkari aðilinn í leiknum þegar á leið og sennilega fór liðið langt með að tryggja sér Meistaradeildarsæti með þessum sigri. Níu stig skilja nú að City og Arsenal, sem er í fimmta sæti deildarinnar.

Toppliðin tvö eiga þessa leiki eftir á lokasprettinum í deildinni:

Man.Utd: Stoke (ú), West Ham (ú), Aston Villa (h), Arsenal (ú), Chelsea (h), Swansea (h), WBA (ú).

Man.City: Wigan (h), Tottenham (ú), WBA (h), West Ham (h), Swansea (ú), Reading (ú), Norwich (h). vs@mbl.is