Steinn Jónsson
Steinn Jónsson
Eftir Stein Jónsson: "Víst er að sú frestun hefur varðveitt völd ráðherra við að miðstýra þessu stóra og flókna þjónustukerfi beint úr ráðuneytinu."

Flestum eru nú orðnar ljósar afleiðingar hins mikla niðurskurðar sem orðið hefur í heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum. Samstaða virðist vera að nást um að lengra megi ekki ganga og að uppbygging þurfi nú að eiga sér stað til þess að við getum áfram boðið landsmönnum úrvals heilbrigðisþjónustu. En hvernig á að leysa heilbrigðisþjónustuna til frambúðar úr þeim fjárhagsvanda sem hefur hrjáð hana um langt árabil? Víst er að fjárþörfin er mikil og vaxandi en nauðsynlegt er að hagkvæmni, jafnræði þegnanna og málefnaleg rök ráði ferðinni við ákvarðanir.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil umræða bæði hér á landi og erlendis um hvernig best sé að stýra fjármögnun heilbrigðiskerfa sem í eðli sínu eru flókin og viðkvæm. Þeir sem gleggst þekkja til hafa viljað byggja ákvarðanir að miklu leyti á kostnaðargreiningu verkefna þannig að hagkvæmni, skilvirkni og málefnaleg sjónarmið séu í fyrirrúmi.

Árið 2008 voru sett á Alþingi lög nr. 112 um Sjúkratryggingar Íslands. Í greinargerð með frumvarpinu sem Alþingi samþykkti segir svo „Í lagafrumvarpi þessu er mælt fyrir um hvernig ráðherra geti með skipulögðum hætti nýtt þær valdheimildir sem hann hefur samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og hvernig umboði hans til þeirra hluta skal fyrir komið innan heilbrigðiskerfisins. Það samskiptaform sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu felur í sér samninga við alla þjónustuaðila innan heilbrigðiskerfisins þar sem nánar er samið um endurgjald fyrir tiltekna þjónustu, magn hennar og gæði... Frumvarpið gerir ráð fyrir að undir öllum kringumstæðum skuli ákvörðun um gerð samninga fyrst og fremst byggð á hlutlægum og málefnalegum forsendum þar sem tekið er tillit til ákvæða laga um heilbrigðisþjónustu og faglegra sjónarmiða svo sem hæfni, gæða, rekstrar- og þjóðhagslegrar hagkvæmni, kostnaðar, öryggissjónarmiða, viðhalds nauðsynlegrar þekkingar og jafnræðis.“

Sambærilegar breytingar á fjármögnun heilbrigðisþjónustu í stórum heilbrigðiskerfum erlendis hafa verið gerðar á grundvelli kostnaðargreiningar með áherslu á að fjármagn fylgdi verkefnum. Hér á landi hefur slík kostnaðargreining átt sér stað bæði á Landspítala og á vegum Sjúkratrygginga Íslands sem áttu samkvæmt lögunum að taka að sér mun víðtækari verkefni varðandi kaup á heilbrigðisþjónustu af þjónustuaðilum en raunin hefur orðið. Ástæðan er sú að núverandi stjórnvöld hafa stöðugt frestað gildistöku þessara laga. Það er áleitin spurning hvers vegna núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að láta þessi lög ekki koma til framkvæmda og halda fast við gamla kerfið um föst fjárlög. Víst er að sú frestun hefur varðveitt völd ráðherra við að miðstýra þessu stóra og flókna þjónustukerfi beint úr ráðuneytinu.

Hvers vegna eru núverandi stjórnarflokkar á móti þessarri nálgun meðan flestallir sem starfa við stjórnun í heilbrigðiskerfinu hafa óskað eftir breytingum í þessa átt? Hvers vegna má ekki leggja upplýsingar um kostnaðargreiningu sem gerðar hafa verið hér á landi til grundvallar við gerð samninga við þjónustuaðila og stýringu fjárveitinga? Engar viðhlítandi skýringar liggja fyrir varðandi þetta mál. Ef til vill finnst valdhöfum að þessi mál gangi svo vel núna að ekki sé ástæða til að breyta nokkrum sköpuðum hlut.

Höfundur er formaður Læknafélags Reykjavíkur.

Höf.: Stein Jónsson