Góðverk Róbert Þórhallsson vill láta gott af sér leiða og hjólar því aftur fyrir veik börn.
Góðverk Róbert Þórhallsson vill láta gott af sér leiða og hjólar því aftur fyrir veik börn. — Morgunblaðið/Rósa Braga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir að hafa horft á jólamynd sem var uppfull af kærleika og gleði varð Róbert Þórhallsson fyrir hugljómun, hann varð að láta gott af sér leiða.

Eftir að hafa horft á jólamynd sem var uppfull af kærleika og gleði varð Róbert Þórhallsson fyrir hugljómun, hann varð að láta gott af sér leiða. Hann valdi sér félag til að styðja, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, og hefur í 10 ár safnað peningum fyrir félagið, bæði með jólakortasölu og með því að hjóla hringinn í kringum landið í fyrra. Hann stefnir nú á að hjóla aftur hringinn í sumar.

Signý Gunnarsdóttir

signy@mbl.is

Þetta byrjaði sem lítið jólagóðverk en hefur undið svolítið upp á sig. Ég var búinn að vera að horfa á Miracle on 34th Street þegar það kviknaði hjá mér hugmynd að ég yrði að gera eitthvað óeigingjarnt. Jólin eru víst tími þar sem maður hugsar um aðra og gefur af sér,“ segir Róbert Þórhallsson um upphaf þess að hann fór að selja jólakort fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, SKB. Róbert var rétt um tvítugt á þessum tíma og vann hjá netfyrirtækinu HIVE. Framkvæmdastjórinn þar seldi honum nokkur jólakort frá SKB og í framhaldi af því fór Róbert á skrifstofu SKB og keypti enn fleiri kort. „Ég keypti kortin fyrst og fremst til að selja áfram til fjölskyldu minnar. Árið eftir hugsaði ég með mér að fyrst að ég gat selt fjölskyldunni kort get ég selt einhverjum öðrum líka.“

Leigði sér bás fyrir jólakortasölu í Kolaportinu

Róbert brá þá á það ráð að kaupa fjöldann allan af kortum frá SKB og leigði sér síðan bás í Kolaportinu til að selja kortin. „Árið eftir hafði fólkið á skrifstofu SKB komist að því hvað ég var að gera og sagði að ég þyrfti ekkert að kaupa kortin. Ég gæti bara fengið kort og skilað aftur þeim sem ekki seldust. Það var mjög fínt því að ég hafði bæði árin á undan setið uppi með kort sem ekki höfðu selst hjá mér.“ Upp frá þessu hófst samstarf Róberts við SKB og hefur hann mikið til séð um jólakortasölu fyrir félagið alla tíð síðan. Hann hefur árlega verið með bás í Kolaportinu og verið með skipulagðar sölur í Smáralind og Kringlunni. „Fyrir jólin í ár fór ég út í það að fá þjóðþekkt fólk með mér til að mæta í hálftíma og hjálpa til við söluna. Jón Gnarr hefur til dæmis mætt bæði skiptin en mér finnst það mjög gott. Núna fyrir jólin fékk ég nokkra þjóðþekkta vini til að mæta tvo og tvo saman og þeir kepptu innbyrðis um hvorum tækist betur til við að selja og þá myndaðist bæði góð stemning og miklu meiri sala.“

Hringferð fram yfir kökubasar

Róberti þótti ekki nóg gert með jólakortasölunni einni og langaði að leggja meira af mörkum til félagsins. „Ég lét mér til dæmis detta í hug að vera með kökubasar en það kveikti í mér þegar Haraldur Hreggviðsson hjólaði hringinn í kringum landið fyrir félagið fyrir þremur árum. Þegar hann kom heim eftir ferðina hjólaði ég með honum síðasta spölinn og í móttökuhófinu sagði ég við hann að ég myndi gera þetta líka og þá varð ég auðvitað að standa við það.“

Hringferðin var ákveðin með mjög stuttum fyrirvara eða í lok júní og lagt var af stað í byrjun ágúst. Baldvin Sigurðsson félagi Róberts fór með honum og sá um að fylgja honum eftir á bíl. „Við vorum svo seinir með þetta en náðum að redda gistingu alls staðar nema á einum stað og það var eftir fyrsta og lengsta legginn. Málefnið hjálpaði okkur mikið þegar við leituðum eftir stuðningi.“

Fall er fararheill

Róbert vill ekki meina að hann hafi æft mikið fyrir ferðina síðastliðið sumar og hyggst vera betur undirbúinn líkamlega í ár en hann ætlar að hjóla aftur hringinn í kringum landið fyrir SKB í byrjun júlí. „Í fyrra hafði ég bara verið að hjóla í vinnuna og hafði lengst hjólað á Þingvelli áður en ég lagði af stað. Núna ætla ég að reyna að hjóla 50-100 kílómetra á dag til að æfa mig.“

Í hringferðinni í fyrra hjólaði Róbert 90-180 kílómetra á dag. Fyrsti leggurinn, til Víkur, var sá lengsti og sá erfiðasti. „Við sváfum í bílnum í Vík. Vöknuðum mjög illa stemmdir og horfðum á Ísland tapa í handbolta. Þetta var eitthvað svo ömurlegt þá en varð fljótlega miklu betra þó að ég hafi brákað rifbein og þurft að glíma við það.“

Róbert vill ekki meina að rasssæri hafi háð honum en segir fæturna hafa kvartað í lok hvers dags og það hafi bjargað miklu þegar hann komst í nudd á Akureyri. Róbert á eftir að finna sér ferðafélaga og vonast til að einhver félagsmaður úr SKB muni slást með honum í för.

„Í sumar stefni ég á að hafa betra skipulag á þessu. Nú hef ég meiri tíma til að undirbúa mig og tala við styrktaraðila upp á að fá næringu og gistingu. Tímaplanið verður þá bara skrifað í stein og ég get auglýst það betur á síðunni hjá mér. Við vorum bara með litla Facebook-síðu í fyrra sem verður auðvitað áfram opin en nú stefni ég á að vera með alvöruheimasíðu.“ Þegar Róbert er spurður út í hvort fólki þyki ekki sérstakt að hann leggi svo mikið á sig fyrir félag sem hann er ekki persónulega tengdur svarar hann. „Jú, fólki finnst það en þetta byrjaði mjög smátt hjá mér og ég er dálítið öfgakenndur og ef ég byrja á einhverju tek ég hlutina stundum aðeins of langt en í þessu tilfelli er það bara af hinu góða.“

STYRKTARFÉLAG KRABBAMEINSSJÚKRA BARNA

Hjólar fyrir veik börn

Róbert Þórhallsson vildi láta gott af sér leiða og valdi að safna peningum fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. Í ár ætlar hann að hjóla hringinn í kringum landið fyrir félagið í annað sinn. Árlega greinast að jafnaði 10-12 börn og unglingar, 18 ára og yngri með krabbamein á Íslandi. SKB var stofnað til að styðja við bakið á þeim og aðstandendum þeirra, bæði fjárhagslega og félagslega. Félagið styrkir einnig starfsfólk Barnaspítala Hringsins og ýmsa sérfræðinga til að sækja ráðstefnur og námskeið, innanlands og utan til að efla þekkingu á krabbameinum í börnum og umönnun krabbameinssjúkra barna. Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um söfnun Róberts geta fylgst með honum á Fésbókarsíðunni Hjólað til góðs. Þar mun hann setja síðar slóðina af vefsíðunni sem hann hyggur á að koma upp áður en hann leggur í hringferð númer tvö.