Rune Jensen
Rune Jensen
Eftir Rune Jensen: "Við leggjum því til að Íslendingar hugi vel að stofnum laxa og annarra villtra fiska og dragi lærdóm af þeim mistökum sem aðrir laxeldismenn hafa gert."

Framundan eru kosningar og þá er rétt að krefja stjórnmálamenn svara um mikilvæga þætti sem varða framtíð Íslands sem framleiðanda sjávarafurða. Þrýstingur eykst á að hefja umfangsmikið laxeldi og taka þarf afdrifaríkar ákvarðanir um hvernig best skuli staðið að því. Laxeldi hefur gert fáeina menn vellauðuga í Noregi og víðar, en nauðsynlegt er að draga lærdóm af þeim vanda sem laxeldi hefur skapað annars staðar áður en ákveðið er að flytja sömu vandamál til Íslands.

Lax er að jafnaði alinn í opnum sjókvíum, þ.e. netum sem loka fiskinn af á meðan bæði sníkjudýr, sjúkdómar og úrgangur eiga greiða leið inn og út úr kvíunum. Þetta hefur valdið margháttuðum vandamálum alls staðar þar sem lax er alinn og erfitt er að átta sig á öllum afleiðingum eldisins. Aðrir kostir en sjókvíar eru þó í boði og þar býr Ísland að einstökum náttúrulegum kostum. Heitt jarðvatn í lokuðum eldiskerfum getur tryggt bæði hraðan vöxt og náttúruvænar afurðir.

Laxeldi á Íslandi er enn á byrjunarstigi og því viljum við, sem séð höfum afleiðingar þess í Noregi, af vinsemd leggja til að Íslendingar forðist að lenda í sömu vandamálum og aðrar þjóðir sem hafa lagt fyrir sig laxeldi. Það er enn ekki of seint að gera kröfur sem hafa í fyrirrúmi bæði hagsmuni umhverfisins og búa í haginn fyrir laxeldi. En þá þurfa íslenskir stjórnmálamenn að axla sína ábyrgð. Setja þarf strangar kröfur og reglur áður en laxeldið er gert að stóriðju.

Laxeldi í Noregi óx of hratt til þess að hægt væri að setja fullnægjandi reglugerðir og kröfur um starfsemina. Umhverfisáhrif hafa því orðið mikil og engar lausnir eru í sjónmáli. Greinin er orðin það stór að hún hefur knúið fram regluverk sem einkum tekur tillit til hagsmuna hennar sjálfrar, efnahags og vaxtarmöguleika, en ekki umhverfisins.

Íslendingar hafa áunnið sér alþjóðlegt orðspor sem framleiðendur hreinna og verðmætra sjávarafurða úr ómenguðu umhverfi. Þeir hafa því fengið umtalsvert betra verð fyrir fiskinn en aðrir. Hvað gerist ef álit erlendra fiskkaupenda breytist hvað þetta varðar?

Helstu ókostum umfangsmikils laxeldis má skipta í sex flokka: Dreifingu laxalúsar, dreifingu fisksjúkdóma, eldislax sem sleppur, mengun vegna losunar næringarsalta, ofnotkun á sjávarauðlindum til fóðrunar og losun efna sem valda umhverfistjóni í hafi.

Umfangsmikið laxeldi mun í síauknum mæli draga úr vaxtarmöguleikum villtra laxa því laxalúsin er óhjákvæmilegur fylgifiskur eldisins. Þessi rýrnun vaxtarmöguleika ræðst af því hve mikið laxeldi verður leyft og af þéttleika eldisstöðvanna. Vandinn mun þó allt að einu verða viðvarandi.

Enn er hvergi nærri nóg vitað um að hvaða marki dreifing sjúkdóma vinnur gegn stofnum villtra ferskvatnsfiska en gögn frá Noregi og Bresku-Kólumbíu sýna að vandinn er mun umfangsmeiri en áður var talið. Þrátt fyrir mikla notkun bóluefna og lyfja deyja 20% alls eldislax í Noregi, einkum vegna sjúkdóma. Á sumum svæðum deyja allt að 37% eldislaxins. Áhrif þessa á villtan lax hafa enn ekki verið kortlögð.

Eldislax sem sleppur hefur slæm áhrif á villtan lax vegna þess að stöðugur straumur kvíalax í ár hefur erfðafræðileg áhrif sem veikja stofnana smám saman, samtímis því að seiði villilax eiga undir högg að sækja gagnvart seiðum eldislax sem vaxa hraðar.

Mikil losun næringarsalta getur stuðlað að þörungablóma og ójafnvægi í staðbundnum vistkerfum í grennd við eldisstöðvar. Norskir fiskimenn fullyrða að veiði úr villtum fiskstofnum í fjörðum með umfangsmiklu laxeldi hafi dregist saman. Norðmenn framleiða rúmlega 1,2 milljónir tonna af eldislaxi og staðbundin mengun af völdum næringarsalta jafngildir losun frá um 15 milljóna manna byggð. Ekkert liggur fyrir um hvaða áhrif þessi losun gæti haft á það verð sem nú fæst fyrir íslenskan, villtan fisk.

Margir hafa miklar áhyggjur af notkun óæskilegra efna til að ráða niðurlögum laxalúsar á eldisfiski en þau eru skaðleg vistkerfum hafsins. Alvarlegust er notkun laxalúsareiturs með díflúbensúrón. Þetta eitur drepur öll krabbadýr sem skipta um skel og orðið hefur vart við áhrif þess á sjávarsvifdýr, rækjur, humar og aðra krabba sem veiddir eru til matar. Samtök fiskimanna í Nordland-fylki kröfðust nýlega banns á notkun þessara lyfja því menn óttast afleiðingarnar.

Ísland hefur alla möguleika til að framleiða eldislax í stórum stíl en verði valið að framleiða hann í opnum sjókvíum eins og gert er víðast annars staðar, óttumst við að það geti haft skaðleg áhrif á umhverfið, orðspor Íslands og það verð sem Íslendingar fá fyrir villtan fisk.

Við leggjum því til að Íslendingar hugi vel að stofnum laxa og annarra villtra fiska og dragi lærdóm af þeim mistökum sem aðrir laxeldismenn hafa gert. Nú hefur stórt laxeldisfyrirtæki sótt um leyfi til að reka allt að þúsund tonna eldisstöð í Arnarfirði. Það er upphaf að risaeldi sem hæglega getur tekið völdin með því að verða fordæmi nýrra laxeldisstöðva. Haldið vöku ykkar og verið vel á verði því að þannig hófst umhverfisvandinn annars staðar. Það er enn ekki of seint fyrir ykkur, sýnið meiri klókindi en við gerðum.

Höfundur er stofnandi SalmonCamera, norskra umhverfissamtaka sem vinna fyrir villtan lax, sjóbirting og bleikju. rune@salmoncamera.com

Höf.: Rune Jensen