9. apríl 1949 Flugstöðvarbygging var formlega tekin í notkun á Keflavíkurflugvelli. Þar var flugafgreiðsla og hótel. „Fullkomnasta flugvallarhótel við Norður-Atlantshaf,“ sagði Tíminn. Ný flugstöð var vígð vorið 1987. 9.

9. apríl 1949

Flugstöðvarbygging var formlega tekin í notkun á Keflavíkurflugvelli. Þar var flugafgreiðsla og hótel. „Fullkomnasta flugvallarhótel við Norður-Atlantshaf,“ sagði Tíminn. Ný flugstöð var vígð vorið 1987.

9. apríl 1963

Ofviðri með hörkufrosti gerði um allt land. Ellefu sjómenn fórust þennan dag við Norðurland og fimm menn daginn eftir við Reykjanes. Í veðrinu urðu miklar gróðurskemmdir og hefur verið fullyrt að allar aspir frá Vík í Mýrdal að Hvalfirði hafi eyðilagst.

9. apríl 1982

Mattheusarpassía Bachs var flutt í fyrsta sinn í heild hér á landi, í Háskólabíói. Flytjendur voru á fjórða hundrað, Pólýfónkórinn, Hamrahlíðarkórinn, Kór Öldutúnsskóla, kammerhljómsveitir og einsöngvarar. Flutningurinn tók rúmar fjórar klukkustundir. Stjórnandi var Ingólfur Guðbrandsson.

9. apríl 1989

Fimmtán ungmenni fermdust borgaralegri fermingu, þeirri fyrstu hér á landi. Athöfnin var í Norræna húsinu.

9. apríl 2011

Samningi um lausn Icesave-deilunnar var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu með tæplega 60% atkvæða. „Þjóðin fór með sigur af hólmi,“ sagði í ritstjórnargrein Morgunblaðsins.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.