Mannþröng Gestir í Louvre-safninu í París reyna að komast sem næst meistaraverkinu Monu Lisu. Louvre var mest sótta listasafnið í fyrra.
Mannþröng Gestir í Louvre-safninu í París reyna að komast sem næst meistaraverkinu Monu Lisu. Louvre var mest sótta listasafnið í fyrra. — Morgunblaðið/Einar Falur
Síðustu ár hafa sýningar á myndlist jöfra tuttugustu aldar og samtímans verið vinsælastar í stærstu söfnum heimsins, en það breyttist í fyrra þegar sýning á verkum gömlu hollensku meistaranna, sem sett var upp í Tokýó Metropolitan Art Museum í Japan,...

Síðustu ár hafa sýningar á myndlist jöfra tuttugustu aldar og samtímans verið vinsælastar í stærstu söfnum heimsins, en það breyttist í fyrra þegar sýning á verkum gömlu hollensku meistaranna, sem sett var upp í Tokýó Metropolitan Art Museum í Japan, hlaut mestu aðsóknina á árinu.

Samkvæmt samantekt The Art Newspaper sáu 10.573 gestir að meðaltali farandsýninguna „Dutch Old Masters“ sem var fyrst sett upp í Tókýó og er nú á heimsferðalagi. Á sýningunni eru verk frá safninu Mauritshuis í Den Haag, sem verið er að gera upp og opnar aftur árið 2014. Vinsælasta verk sýningarinnar er „Stúlka með perlueyrnalokk“ eftir Vermeer en einnig eru á henni verk meistara á borð við Rembrandt, Hals og Van Dyck.

Önnur sýning í Tókýó var einnig vinsæl en þar var boðið upp á evrópska list fjögurra aldra frá Hermitage safninu í Pétursborg. Rúmlega 5000 gestir sáu hana daglega.

Cindy Sherman vinsæl

Áherslur voru aðrar á vinsælustu sýningum stóru evrópsku og bandarísku safnanna, eins og athyglisverðar aðsóknartölurnar gefa til kynna. Þar vildu gestir fara nær samtímanum. Um 5.700 sáu daglega yfirlitssýnignuna á verkum ljósmyndalistakonunnar Cindy Sherman í MoMA í New York – Sherman var gestur Listahátíðar í Reykjavík árið 2010. Og í Lundúnum þyrptust rúmlega 7.500 gestir daglega á sýningu málarans Davids Hockney í Royal Academy of Arts. Í París var innsetning Daniels Buren í Grand Palais vinsæl, en um 6.500 manns sáu hana á degi hverjum.

Listunnendur í Brasilíu

Sýning á verkum Leonardos da Vinci var vinsælust í Lundúnum, þegar litið er til myndlistarverka eldri en frá tuttugustu öld; tæplega fjögur þúsund manns sáu meistaraverkin daglega í National Gallery, og komust færri að en vildu.

Á síðustu árum hafa stórar listsýningar í Brasilíu verið afar vinsælar og engin breyting varð á því í fyrra. Þar eru sýningar sem Centro Cultural Banco do Brasil stendur að vinsælastar en aðgangur að þeim er ókeypis. Sýningarsalir bankans í Rio de Janeiro voru fullir alla dagana sem metnaðarfull sýning um Amazon stóð þar yfir, og sáu hana tæplega 8.000 manns daglega. Aðeins færri sáu sýningar þar á verkum breska skúlptúristans Antony Gormley, um 7000 manns. Athygli vekur að sýning Gormley var vinsælli en úrval verka impressjónista frá Musée d'Orsay í París sem bankinn setti upp í São Paulo en hana sáu um 6.000 daglega; þegar hún var hinsvegar flutt til Rio jókst aðsóknin upp í 8.000 á dag.

The Louvre er best sótt safnið og jókst aðsókn þar um heila milljón gesta, og er nýrri íslam-deild þakkað það að hluta. Næst á listanum er Metropolitan-safnið í New York og Tate Modern í Lundúnum það þriðja.