Á toppnum Jupp Heynckes þjálfari var hylltur af leikmönnum Bayern München eftir að þeir gulltryggðu sér þýska meistaratitilinn um helgina.
Á toppnum Jupp Heynckes þjálfari var hylltur af leikmönnum Bayern München eftir að þeir gulltryggðu sér þýska meistaratitilinn um helgina. — AFP
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Bayern München skráði nafn sitt í sögubækur þýsku knattspyrnunnar með því að innbyrða 23. meistaratitilinn eftir 1:0 sigur gegn Eintracht Frankfurt.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Bayern München skráði nafn sitt í sögubækur þýsku knattspyrnunnar með því að innbyrða 23. meistaratitilinn eftir 1:0 sigur gegn Eintracht Frankfurt. Aldrei áður í sögu deildarinnar hefur lið verið búið að tryggja sér sigur í deildinni þegar sex umferðum er ólokið en Bæjarar eru með 20 stiga forskot á Dortmund, sem hefur hampað meistaraskildinum undanfarin tvö ár. Ekkert lið hefur unnið titilinn oftar en Bayern.

Yfirburðir Bayern á tímabilinu hafa verið ótrúlegir en liðið hefur aðeins tapað einum af 28 leikjunum sínum í deildinni, gegn Bayern Leverkusen, og markatala liðsins er hreint út sagt glæsileg, 79:13. Liðið er með 75 stig og á möguleika að ná 93 stigum sem yrði nýtt stigamet.

Bæjarar er langt frá því að vera orðnir saddir. Þeir stefna leynt og ljós á að vinna þrennuna en Bayern er komið í undanúrslit í þýsku bikarkeppninni þar sem liðið mætir Wolfsburg og liðið er í góðum málum í Meistaradeildinni en þýska stórliðið vann fyrri leikinn gegn Ítalíumeisturum Juventus, 2:0, í átta liða úrslitunum.

Þriðji titill Heynckes með Bayern

Hinn 67 ára gamli Jupp Heynckes, þjálfari Bayern, getur kvatt lið sitt með reisn en hann hættir þjálfun liðsins í sumar og við starfi hans tekur Spánverjinn Pep Guardiola. Þetta er í þriðja sinn sem Heynches gerir Bayern að meisturum en hann stýrði liðinu til sigurs árin 1989 og 1990 og sem leikmaður varð hann fjórum sinnum þýskur meistari með Borussia Mönchengladbach. Þá gerði hann Real Madrid að Evrópumeisturum árið 1998 en var engu að síður rekinn úr starfi frá félaginu eftir tímabilið.

Sá fyrsti sætasti

„Minn fyrsti titill sem leikmaður var sá sætasti sem ég hef upplifað en það er líka frábær tilfinning að vinna þennan titil. Leikmenn hafa lagt hart að sér og að vera búnir að vinna titilinn eftir 28 leiki er óvenjulegt. Við getum nú litið björtum augum á að geta afrekað eitthvað í Meistaradeildinni líka,“ sagði Heynckes við fréttamenn.

Jurgen Klopp, þjálfari Dortmund, hrósar Bayern í hástert.

„Þetta hefur verið ótrúlegt tímabil hjá Bayern München og er mögulega það ótrúlegasta frá upphafi. Það var mjög erfitt fyrir okkur að ná 81 stigi í fyrra og setja nýtt stigamet en það virðist ætla að verða auðvelt fyrir Bayern að slá það. Ég óska félaga mínum Jupp Heynckes innilega til hamingu. Hann er frábær þjálfari og þvílíkt tímabil hjá honum,“ sagði Klopp.