Sigríður María Sigurgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 28. mars 1974. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 30. mars 2013.

Móðir Sigríðar Maríu er Guðrún Kristín Þorsteinsdóttir, fædd 1955. Faðir Sigríðar Maríu er Sigurgeir Bjarni Gunnarsson, fæddur 1951. Foreldrar Guðrúnar Kristínar voru hjónin Sigríður Kristinsdóttir og Þorsteinn H. Ólafsson. Stórfjölskyldan bjó í Þingholtsstræti 23 í Reykjavík ásamt ættmóðurinni Guðrúnu Einarsdóttur. Maður hennar var Kristinn E. Magnússon, hann lést þegar Guðrún Kristín var barn að aldri. Systkini Guðrúnar Kristínar eru Elínborg Jóhanna Þorsteinsdóttir, fædd 1960, og Ólafur Guðmundur Þorsteinsson, fæddur 1962. Bróðir Sigríðar Maríu, sammæðra, er Philip Hrafn Jackson, fæddur í Reykjavík 1981. Philip Hrafn er búsettur í Bandaríkjunum, eiginkona hans er Alissa Kvalita Jackson. Síðastliðin ár bjó Sigríður María í sambýlinu að Sólheimum 21b.

Útför Sigríðar Maríu fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 9. apríl 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku hjartans Sigga Mæja mín, það er erfitt að kveðja þig en ég skil að þú þurftir að fara og nú hefur þú fengið frelsi úr þeim líkama sem var þér til hindrunar í þessu jarðneska lífi þínu. Ég sé þig nú fyrir mér dansandi og syngjandi á fallegum blómaakri í fallega kjólnum þínum, frjálsa frá veikindum og þjáningu. Vinkona mín færði mér fallegan engil í gær sem hélt á hjarta, með þeim orðum að engillinn væri dóttir mín sem væri nú engill á himnum og héldi á hjarta mínu. Þú munt ætíð halda á hjarta mínu, elsku fallega ljósið mitt. Með þér átti ég kærleiksríkustu stundir lífs míns og hjá þér fann ég þann frið og kærleika sem er vandfundinn hjá okkur sem heilbrigð erum. Þú áttir fallegustu brosin og kunnir að gefa ást þína án allra skilyrða.

Ég kveð þig, elskan mín, með þakklæti í hjarta mínu.

Þú gafst mér skýin og fjöllin

og guð til að styrkja mig.

Eg fann ei, hvað lífið var fagurt,

fyrr en eg elskaði þig.

Eg fæddist til ljóssins og lífsins,

er lærði eg að unna þér,

og ást mín fær ekki fölnað

fyrr en með sjálfum mér.

(Sigurður Nordal.)

Þín

mamma.

Sigga Mæja er fyrsta barnið sem fæddist innan systrafélagsins. Systrafélagið samanstendur af æskuvinkonum úr Þingholtsstrætinu, tveimur systrum, þeim Gunnu og Ellu úti á horni og okkur Þóru á númer 15. Gunna er elst okkar og þegar hún gekk með Siggu Mæju fylgdumst við hinar með stækkandi mallakútnum, beittum brögðum til að ná ljósmynd af Gunnu þegar hún var nærri því komin á steypirinn og dáðumst svo að fallegasta barni sem við höfðum nokkurn tíma séð. Og það eru engar ýkjur því Sigga Mæja var eins og englarnir á glansmyndunum sem allar stelpur söfnuðu. Fallega andlitið umkringt stórum ljósum krullum. Sigga Mæja var orðin nokkurra mánaða þegar grunur vaknaði um að eitthvað væri að og smám saman kom í ljós hvað hún var mikið veik. Það er mikið lagt á unga móður að eignast fjölfatlað barn en Gunna reyndi allt sem hægt var til að fá sem bestu lækningu, þær mæðgur fóru t.d. til Bandaríkjanna í von um að finna bót á þessum sjaldgæfa sjúkdómi en allt kom fyrir ekki. Á meðan mögulegt var annaðist Gunna Siggu Mæju og það var ekki fyrr en fullreynt var, að Sigga Mæja flutti á sambýlið við Holtaveg og síðar á sambýlið Sólheimum 21b. Á þeim heimilum hafa að mestu leyti sömu einstaklingarnir fylgst að öll þessi ár.

Lífið hefur ekki alltaf verið þeim mæðgum auðvelt en það er ekki hægt annað en að dást að því hvað Gunna hefur lagt sig fram sem móðir og ekki er að efa að hvergi hefur Siggu Mæju liðið betur en í návist mömmu sinnar. Tæplega átta ára gömul eignaðist hún bróðurinn Philip Hrafn og þá var góður tími í lífi Siggu Mæju, hún var brosmild stúlka með grallaralegan húmor. Sem ungri konu fór heilsu hennar hrakandi. Undanfarin ár hefur Gunna búið í göngufæri við heimili Siggu Mæju sem gerði þeim auðvelt að vera saman.

Á ungdómsárum okkar stelpnanna í Þingholtsstrætinu sáum við ekki fyrir að líf okkar yrði svona ólíkt en við höfum þó alltaf haldið vinskap, oftast í gleði en líka í sorg. Nú syrgi ég að Sigga Mæja fékk ekki að fæðast heilbrigð og skil ekki það óréttlæti. Þó þakka ég fyrir að hún fæddist hér á Íslandi því annars staðar hefði hún kannski ekki fengið þann góða aðbúnað sem hún fékk hér á sambýlunum.

Ef líf er eftir vistina hér á jörðinni á Sigga Mæja skilið það allra besta. Hjartahreinni manneskja er varla til nema þá ungbörn. Sigga Mæja hefur í orðsins fyllstu merkingu aldrei gert flugu mein og það verður nú ekki sagt um margan manninn.

Innileg samúð, elsku Gunna, Philip Hrafn og Alissa, Ella og fjölskylda og sambýlisfólk Siggu Mæju.

Hólmfríður Ben

Benediktsdóttir.

Sigríður María er farin héðan frá okkur. Hennar lokabarátta hefur verið háð. Við sem eftir lifum minnumst dásamlegrar konu sem á sinn yndislega hátt snart innsta kjarnann í okkur öllum. Mín blessun var að fá að taka þátt í lífi hennar síðastliðin tíu ár. Sigga Maja var ein af fimm íbúum á sambýli hér í bæ þar sem ég hóf störf. Hún fékk mig til að hugsa hærra og álykta að sumir séu of góðir fyrir þennan heim, sendir til að benda á betri veg.

Sigga Maja, tók á móti manni með geislandi brosi sem hafði þann mátt að geta dimmu í dagsljós breytt og fyllt hjarta þitt gleði. Sigga Maja var kona sem blessaði alla með nærveru sinni, glaðlyndi og gjafmildi. Hún mat alla aðstoð og hjálp mikils og sýndi vinum sínum kærleika.

Sigga Maja elskaði að hlusta á góða músík og kunni að meta ólíka tónlist. Sigga Maja naut þess að fara á listasýningar og í leikhús. Rómantískar kvikmyndir voru í uppáhaldi hjá dömunni sem fannst ekki slæmt að dást að myndarlegum karlmönnum á skjánum. Sigga Maja var mikil félagsvera og tók hún þátt í ýmissi félagsstarfsemi og var virkur þátttakandi í því sem lífið hafði upp á að bjóða.

Sigga Maja var einstakur húmoristi og var alltaf stutt í hláturinn, jafnvel þessar síðustu vikur sem hún átti hér með okkur og við með henni. Hún sá spaugilegu hliðarnar á lífinu. Þá var ósjaldan að Sigga Maja tæki bakföll af hlátri yfir klaufaskapnum í okkur sem vorum að aðstoða hana.

Sigga Maja var einstaklega ljúf og yndisleg á allan hátt. Hún gaf mikið af sér þrátt fyrir fötlun sína og hafði ákveðið næmi til að bera í samskiptum við fólk. Oft sátum við saman og horfðumst í augu og töluðum saman þar til við vissum báðar að við höfðum rætt saman þótt engin orð væru notuð. Við skynjuðum báðar að við vorum sannir vinir. Ég gleymi seint þeim geislandi brosum sem hún sendi mér þegar ég bauð henni góða nótt í lok dagsins. Það voru bros sem náðu til augnanna og sögðu oft meira en þúsund orð. Gleði hennar Siggu Maju og þakklæti var smitandi og ég varð ríkari á að fá að þekkja hana.

Síðasta söngstundin okkar var skömmu áður en hún hóf sína lokabaráttu hér á jörð. Ég söng fyrir hana kóra úr kirkjunni minni og ég fann að tónlistin róaði hana í hennar vanlíðan en ekki vissi ég þá, að þetta yrði okkar síðasti fundur en kallið var komið.

Sigga Maja var mömmustelpa. Faðmur mömmu hennar var sá staður sem Sigga Maja átti alltaf afturkvæmt í, sama hvernig viðraði. Þar leið henni best. Enginn gat komið í staðinn fyrir mömmu. Hjá mömmu hurfu þjáningar þessa heims og máttur kærleikans opinberaðist.

Mikið skarð hefur verið hoggið í hópinn okkar sem nutum þess að kynnast Siggu Maju. Skarð,sem verður ekki fyllt. Ég stend í þeirri trú, að Sigga Maja sé laus undan þjáningum og takmörkunum þessa heims og í dag dansar hún á grænum grundum með Jesú sjálfum. Elsku Gunna Stína, Bjössi, Ella og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur og mætti Guð, sá er kann að hugga okkur, vera ykkur nálægur í sorg ykkar og söknuði. Minningin um yndislega konu lifir.

Halldóra Ólafsdóttir.

Nú hefur mín kæra vinkona, Sigga Maja, yfirgefið þennan heim. Við höfum þekkst frá því í Múlaborg í gamla daga og höfum verið saman á sambýli í ansi mörg ár.

Við áttum því margar góðar og ánægjulegar stundir saman. Fórum t.d. aðra hverja viku í Grensáskirkju, oft á kaffihús, í keilu eða eitthvað út að borða. Við áttum margar stundir fyrir framan sjónvarpið og horfðum þá mikið á Abba, en þau voru hennar uppáhald. Ennfremur var oft dansað í stofunni við tónlist Stuðmanna. Það voru skemmtilegir tímar.

Nú býr enginn þar sem þú bjóst og ég á erfitt með að borða og sofa því ég hugsa svo mikið um þig. Ég sakna þín mikið því mér þykir svo vænt um þig. Ég vona að góður Guð haldi sinni verndarhendi yfir þér og taki þér fagnandi í himininn sinn.

Minning þín lifir.

Þinn vinur,

Kristinn (Deddi).

Elsku Sigga Maja okkar. Það er með miklum trega sem við kveðjum þig í dag. Við erum þakklátar fyrir að hafa kynnst þér og fengið að vera þátttakendur í lífi þínu.

Þú varst félagslynd og naust þín vel innan um hóp af góðu fólki. Þú hafðir gaman af því að fara í góðra vina hópi út að borða, í keilu, bíó og leikhús. Þú áttir líka góðar stundir með vinkonum þínum í klúbbnum ykkar sem þið kölluðuð Vinkonuklúbbinn.

Það verður sannarlega tómlegt án þín í Sólheimum en við getum yljað okkur við minningarnar um glaðværð þína og allar góðu stundirnar sem við áttum með þér.

Okkar dýpstu samúðarkveðjur sendum við til mömm u þinnar.

Guð blessi þig.

Ólafía Magnea Hinriksdóttir, Pálína G. Benjamínsdóttir, Sambýlið Sólheimar 21b.

Í dag kveðjum við kæra vinkonu okkar, Siggu Mæju, eins og hún var alltaf kölluð. Það verður tómlegt á heimilinu okkar án hennar. Undanfarnar vikur höfum við beðið og vonað að hún kæmi aftur heim af spítalanum en verðum nú að sætta okkur við að svo varð ekki. Við munum sakna hennar en jafnframt minnast hennar með þakklæti og hlýju. Við erum búin að eiga mörg góð ár saman og því margs að minnast og munum við geyma þær minningar hvert í sínu hjarta.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Gunna Stína! Við vottum þér og fjölskyldu þinni innilega samúð og biðjum allar góðar vættir að styrkja ykkur á sorgarstundu.

Andri, Bergdís og Ólöf.

Sigga Maja var ein af þeim ljúfu og yndislegu manneskjum sem maður er svo heppinn að hafa kynnst á lífsleiðinni og er alltaf gott að vera nærri. Leiðir okkar lágu saman þegar við hófum störf í Lækjarási.

Hún hóf störf hér í Lækjarási fyrir 20 árum og hafa mörg okkar fylgt henni allan þann tíma.

Sigga Maja var mikil félagsvera og var ávallt vel til höfð. Hún hafði gaman af að fara í búðir, á kaffihús og hitta annað fólk, var þá oft stutt í fallega brosið hennar.

Hún naut þess að fara í heita pottinn hér í Lækjarási og einnig að hlusta skemmtilega tónlist. Margt höfum við brallað saman og margar góðar minningar koma upp í huga okkar þegar við lítum til baka.

Í lífi Siggu Maju voru margir samstarfsfélagar og aðstoðarmenn. Til að bæta lífsgæði hennar þurftu allir að vinna vel saman og viljum við í Lækjarási þakka gott samstarf í gegnum tíðina við heimilið og þá aðila sem tóku þátt í lífi hennar.

Að lokum viljum við senda móður og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur, einnig íbúum og starfsfólki í Sólheimum 24b .

Fyrir hönd samstarfsfólks í Lækjarási,

Halla, Margrét, Guðrún og Sigrún Þ.