Hátæknisjúkrahús Tölvuteiknuð mynd af byggingum nýja Landspítalans. Gamla byggingin sést í bakgrunni.
Hátæknisjúkrahús Tölvuteiknuð mynd af byggingum nýja Landspítalans. Gamla byggingin sést í bakgrunni.
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Forval vegna fullnaðarhönnunar bygginga nýja Landspítalans verður auglýst fljótlega á evrópska efnahagssvæðinu.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Forval vegna fullnaðarhönnunar bygginga nýja Landspítalans verður auglýst fljótlega á evrópska efnahagssvæðinu. Alþingi samþykkti ný lög um spítalann áður en þingfundum var frestað en þau veita ráðherra heimild til þess að hefja forvalið. Það gæti verið auglýst eftir um tvær vikur að sögn Stefáns B. Veturliðasonar, aðalverkefnastjóra nýja Landspítalans. Það verður hins vegar í höndum nýs Alþingis hvenær og hvernig framkvæmdirnar verða boðnar út.

Með forvalinu er leitað eftir aðilum sem vilja bjóða í fullnaðarhönnun bygginganna og verður í kjölfarið lagt mat á hæfi þeirra til þess. Stefán segir að verið sé að útbúa gögnin þessa stundina. Ríkiskaup sjái svo um að auglýsa forvalið en það verður gert án skuldbindingar um hvenær verkið verður svo boðið út.

„Það er í raun eina næsta skrefið sem er ákveðið. Það liggur ekki fyrir ákvörðun um hvenær það verður svo boðið út. Það eru engir peningar komnir í verkefnið ennþá,“ segir Stefán.

Horfið frá einkaframkvæmd

Búið er að forhanna 20-25% bygginganna og segir Stefán að deiliskipulag svæðisins verði birt í Stjórnartíðindum nú í byrjun vikunnar. Breytingarnar á lögunum um nýja sjúkrahúsið sem Alþingi samþykkti gera ráð fyrir að bygging þess verði opinber framkvæmd en ekki einkaframkvæmd eins og upphaflega var lagt upp með. Þá stóð til að farið yrði í svonefnt alútboð þar sem leitað yrði eftir aðilum sem myndu klára að hanna spítalann, byggja og eiga hann og leigja svo spítalanum byggingarnar til 30-40 ára. „Síðan var horfið frá þeirri hugsun með breytingunni á lögunum. Ríkið fjármagnar hann sjálft eins og hverja aðra opinbera framkvæmd í stað þess að einkaaðilar reki og leigi spítalann,“ segir Stefán.

Óvíst um áfangaskiptingu

Stefán segir að það ráðist af því hvernig fjárveitingum til framkvæmdarinnar verður háttað og hvernig áfangaskipting hennar verður.

„Það er algerlega stjórnvalda að taka ákvörðun um það hvernig verkinu verður skipt upp.“

Áfangar
» Fjórar byggingar koma til með að tilheyra sjálfum spítalanum. Stærst þeirra verður meðferðarbyggingin en hún verður um 60 þúsund fermetrar að flatarmáli.
» Auk hennar verður rannsóknahús, sjúkrahótel og bílastæðahús.
» Þar fyrir utan kemur til með að rísa nýtt hús fyrir Háskóla Íslands austan við Læknagarð.
» Sjötti byggingarhlutinn sem boðinn yrði út er framkvæmdir á lóð nýja spítalans.
» Búið er að forhanna allt að fjórðung nýja spítalans. Það var Spítalahópurinn sem bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni um forhönnun bygginga og deiliskipulags fyrir lóðina. Hópurinn lauk störfum í lok síðasta árs.