Aþena Grískir bankar hríðféllu í verði í kauphöllinni í Aþenu í gær.
Aþena Grískir bankar hríðféllu í verði í kauphöllinni í Aþenu í gær.
Hlutabréf í tveimur grískum bönkum, National Bank of Greece og Eurobank, lækkuðu um rúm 30% þegar viðskipti hófust í kauphöllinni í Aþenu í gærmorgun.

Hlutabréf í tveimur grískum bönkum, National Bank of Greece og Eurobank, lækkuðu um rúm 30% þegar viðskipti hófust í kauphöllinni í Aþenu í gærmorgun. Var þetta mikla verðfall skýrt af greinendum á þann veg að lækkunina mætti rekja til þess að bankarnir verða ekki sameinaðir á næstunni líkt og til stóð.

Vísitala banka hafði lækkað um tæp 17% í kauphöllinni í Aþenu um hádegisbil í gær, samkvæmt frétt á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC . Og um sama leyti hafði verð hlutabréfa í grísku bönkunum Alpha og Piraeus fallið um 20 af hundraði, en þeir eru hinir tveir bankarnir sem hafði staðð til að sameina NBG og Eurobank.

Í fyrrakvöld greindi Seðlabanki Grikklands frá því að fjórir stærstu bankar landsins yrðu endurfjármagnaðir hver fyrir sig en ekki sameinaðir að svo stöddu. Áhyggjur stjórnvalda af sameinuðum banka munu hafa snúist um það að hann yrði of stór og með of ráðandi stöðu á markaði.

Endurfjármögnun grísku bankanna var skilyrði af hálfu Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fyrir þeirri neyðaraðstoð sem veitt var Grikklandi. Gríski seðlabankinn sendi í fyrrakvöld frá sér yfirlýsingu, þar sem fram kom að brátt yrðu hluthafafundir haldnir í NGB og Eurobank, þar sem leitað yrði eftir samþykki fyrir hlutafjáraukningu. Yfirlýsingin var gefin eftir að viðræður höfðu farið fram á milli lánveitendanna og gríska forsætisráðherrans Antonis Samaras.

Grikkir hafa beðið frá því í marsmánuði eftir því að lánardrottnar þeirra greiddu þeim neyðaraðstoð upp á 2,8 milljarða evra, sem samsvarar um 434 milljörðum íslenskra króna.

Yannis Stornaras, fjármálaráðherra Grikkja, sagðist í gær sannfærður um að samkomulag um greiðsluna næðist á næstu dögum.