Erfitt Sigurður Þorvaldsson sækir að körfu Stjörnunnar en Marvin Valdimarsson er til varnar hjá Garðbæingum.
Erfitt Sigurður Þorvaldsson sækir að körfu Stjörnunnar en Marvin Valdimarsson er til varnar hjá Garðbæingum. — Ljósmynd/Eyþór Benediktsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Stykkishólmi Símon B. Hjaltalín sport@mbl.is „Við erum rosalega sáttir þar sem við þurftum að vinna einn útileik í Hólminum til þess að komast áfram.

Í Stykkishólmi

Símon B. Hjaltalín

sport@mbl.is

„Við erum rosalega sáttir þar sem við þurftum að vinna einn útileik í Hólminum til þess að komast áfram. Það var ekkert sjálfgefið þar sem við erum að berjast við hörkulið Snæfells,“ sagði Fannar Freyr Helgason, fyrirliði Stjörnunnar, eftir að liðið vann Snæfell, 93:79, í íþróttahúsinu í Stykkishólmi í gærkvöldi í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í körfuknattleik. Stjarnan hefur þar með unnið tvo leiki og Snæfell einn í rimmu liðanna í undanúrslitum.

Snæfellsmenn byrjuðu frísklega og virtust ekki sakna Jay Threatts sem er frá vegna meiðsla sem hann varð fyrir í síðasta leik. Heimamenn voru yfir, 27:22, eftir fyrsta leikhluta. Þá var hins vegar komið að hruni Snæfellsliðsins í öðrum leikhluta, á meðan Stjörnumenn léku við hvern sinn fingur.

„Leikmenn Snæfells byrjuðu mjög vel og voru grimmir í fyrsta hluta en þegar við börðum frá okkur og náðum að spila okkar varnarleik í öðrum hluta þá snerist taflið við,“ sagði Fannar Freyr, fyrirliði Stjörnunnar, ennfremur.

Staðan í hálfleik var 57:41 fyrir Garðbæinga sem skoruðu 35 stig í öðrum leikhluta. Jarrid Frye lék vörn Snæfells oft grátt og skoraði með sniðskotum hvað eftir annað. Tólf stiga munur var á liðunum eftir þriðja leikhluta, 74:62.

Nánast var formsatriði að leika fjórða leikhlutann því leikmenn Snæfells voru ekki líklegir til þess að jafna metin.

Jarrid Frye var stigahæstur Stjörnunnar með 29 stig. „Frye er einn af bestu leikmönnum sem ég hef spilað með og ef við lendum í vandræðum er eins hann geti alltaf komið og leyst upp leikinn með frábærum sóknum,“ sagði Fannar Freyr, fyrirliði Stjörnunnar.

Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnumanna, var að vonum sáttur við að ná mikilvægum útisigri. „Frábær leikur okkar í öðrum leikhluta lagði grunninn að þessum sigri,“ sagði Teitur. „Við skiluðum fyrirmyndarnýtingu á köflum í leiknum og eigum ekki að tapa leikjum þegar svo er þótt okkur hafi tekist það um daginn. Við höfum verið að bæta okkur hægt og fannst mér þetta skásti leikurinn gegn Snæfelli; að ná öruggum sigri á útivelli var virkilega ánægjulegt og höldum við áfram að einbeita okkur að okkar liði og við viljum að sjálfsögðu klára dæmið á föstudag.“

Ryan Amorso var stigahæstur Snæfellinga með 21 stig og Sigurður Þorvaldsson skoraði 20 stig en þeir settu oft góð þriggja stiga skot. Snæfellsmenn náðu aldrei að byggja þá brú sem þeir þurftu yfir gjána sem hafði myndast í öðrum hluta. Sendingar voru slakar og sömu sögu má segja um mörg skot.

„Leikur okkar hrundi gjörsamlega, sérstaklega varnarlega, og við litum út eins og byrjendur og þegar við spilum svona slaka vörn þá verður sóknin einnig dauf og við tökum léleg skot í leiknum og þannig var þessi kafli í öðrum hluta. Þeir spiluðu bara vel og skotin duttu vel fyrir þá í dag en við vorum klaufar. Við auðvitað söknuðum Jay Threatts en það er engin afsökun og við áttum alveg að gera betur án hans,“ sagði Pálmi Freyr Sigurgeirsson, leikmaður Snæfells.

Snæfell – Stjarnan 79:93

Stykkishólmur, undanúrslit karla, þriðji leikur, mánudag 8. apríl 2013.

Gangur leiksins : 5:7, 11:15, 19:17, 27:22 , 29:29, 33:41, 35:49, 41:57 , 46:62, 52:63, 54:67, 62:74 , 64:81, 69:83, 71:84, 79:93 .

Snæfell : Ryan Amaroso 21/9 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 20/6 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 12, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 10/6 fráköst/5 stoðsendingar, Hafþór Ingi Gunnarsson 10/6 fráköst, Ólafur Torfason 2, Stefán Karel Torfason 2, Sveinn Arnar Davíðsson 2.

Fráköst : 25 í vörn, 10 í sókn.

Stjarnan : Jarrid Frye 29/9 fráköst, Jovan Zdravevski 21/4 fráköst, Brian Mills 15/5 fráköst/5 stoðsendingar, Justin Shouse 12/4 fráköst, Marvin Valdimarsson 9, Fannar Freyr Helgason 4/6 fráköst, Dagur Kár Jónsson 3.

Fráköst : 23 í vörn, 6 í sókn.

Dómarar : Sigmundur Már Herbertsson, Jón Guðmundsson, Jón Bender.

*Staðan er 2:1 fyrir Stjörnuna.