[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ingvar P. Guðbjörnsson ipg@mbl.is Það eru meiri líkur á kampýlóbakter, salmonellu og E. coli-stofnum sem geta valdið blóðugum niðurgangi og nýrnabilun.

Baksvið

Ingvar P. Guðbjörnsson

ipg@mbl.is

Það eru meiri líkur á kampýlóbakter, salmonellu og E. coli-stofnum sem geta valdið blóðugum niðurgangi og nýrnabilun. Einnig á sýklalyfjaónæmi gegn sýklum sem geta borist með fóðri og ferskum matvælum,“ segir Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir sýklafræðideildar Landspítalans, um hættuna af innflutningi á hráu kjöti til landsins.

Hann hélt ásamt Vilhjálmi Svanssyni, dýralækni hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum, erindi um þetta mál á hádegisfundi hjá Bændasamtökum Íslands í síðustu viku.

Niðurstaða í báðum erindum er sú að það sé meiri hætta af kjöti sem innflutt er en af innlendu kjöti þegar kemur að sjúkdómum. Fram kom að flest salmonellusmit í fólki hérlendis undanfarin ár hafi orðið erlendis.

Karl segir að gæta þurfi að því að í innfluttu dýrafóðri og ferskum matvælum leynist ekki þessar tilteknu bakteríur. Fram kom í máli hans að notkun á sýklalyfjum í Evrópu er langminnst hér á landi. Næst á eftir okkur koma Norðmenn og Svíar. Hinsvegar er sýklalyfjanotkun langmest í Ungverjalandi en einnig mjög mikil á Spáni, í Portúgal, Hollandi, Belgíu og Frakklandi.

MÓSAR óþekktir í dýrum hér

Staðfest hafa verið fjölmörg smit í Evrópu á MÓSUM, fjölónæmum klasakokkum, úr dýrum í menn. MÓSAR hafa ekki greinst í dýrum á Íslandi.

Hann segir að það sé mun meira notað af sýklalyfjum í mönnum á Íslandi en í nágrannalöndunum og það sé því andstætt því sem gerist í landbúnaðinum.

„Eins og hefur komið í ljós í Hollandi þar sem ónæmir stofnar eru að koma upp í svínum. Það getur borist í menn eins og er að gerast í Hollandi og Danmörku,“ segir Karl.

Mikið er notað af lyfjum sem læknar treysta á í baráttunni við sýkingar og sýklar erlendis mynda stundum ónæmi gegn algengum lyfjum. Hann segir vandamál að mörg lönd noti ennþá mikilvæg sýklalyf í landbúnaði sem önnur eru búin að banna: „Þýðingarmikil sýklalyf sem algengust eru í lyfjaflokkum sem við notum til þess að meðhöndla alvarlegar sýkingar hjá fólki. Það eru þrír lyfjaflokkar sem menn vilja síður nota í dýrum eins og Cephalosporins, Quinolones og Macrolides,“ segir Karl en það getur haft alvarlegar afleiðingar ef sýklar í dýrum sem geta borist í menn hafa myndað ónæmi fyrir þessum lyfjaflokkum.

Í erindi hans kom fram að það marki vart fyrir notkun þessara lyfja hérlendis í dýrum, en hlutfallið sé víða hátt. Í Austurríki, Danmörku, Frakklandi, Írlandi, Lettlandi, Portúgal og á Bretlandseyjum er hlutfallið yfir 10%.

Ísland og Noregur eru með innan við hálft prósent. Karl segir að sum þessara landa séu í dag að framleiða hráefni á ódýran hátt og að lítið sé fylgst með sýklalyfjaofnæmi. „Menn eru rétt að vakna til lífsins með það í fóðri og dýrum,“ segir hann.

Karl nefndi einnig í erindi sínu að svonefndar „ofurbakteríur“ eða iðrabakteríur, á borð við E. coli og Klebsiella eru sumstaðar orðnar ónæmar fyrir öllum sýklalyfjum. Í því sambandi nefndi hann lönd á borð við Indland og lönd í Suðaustur-Evrópu.

SMITSJÚKDÓMAR

Íslensk dýr mótstöðulítil

„Við fáum faraldra hér á Íslandi af smitefnum sem engum hefði dottið í hug að gætu valdið faraldri, “ segir Vilhjálmur Svansson, dýralæknir á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum, og vísar þar meðal annars í hrossasótt sem barst með smiti erlendis frá fyrir nokkrum árum. Íslensku dýrastofnarnir eru með lága tíðni sjúkdóma miðað við önnur lönd og hafa því ekki ónæmisvörn fyrir nema broti af þeim sjúkdómum sem geisa í Evrópu. Spurður út í líkurnar á smiti úr matvælum í dýr segir hann: „Það er nóg af dæmum um að það hafi gerst í sögunni. Smitsjúkdómastaða íslensku búfjárstofnanna er óumdeild og það er ekkert land í heiminum með þessa stöðu.“