Söngkonan Hanna Dóra Sturludóttir kom Wesendonck-ljóðaflokknum „ákaflega vel til skila með blæbrigðamiklum söng.“
Söngkonan Hanna Dóra Sturludóttir kom Wesendonck-ljóðaflokknum „ákaflega vel til skila með blæbrigðamiklum söng.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Richard Wagner (1813-1883): Sigfried Idyll (1869-70), Wesendonck-ljóðin (1857-58). Felix Mendelssohn (1809-1847): Sinfónía nr. 3 í a-moll, op. 56, „Skoska sinfónían“ (1842). Hanna Dóra Sturludóttir einsöngvari. Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Richard Wagner (1813-1883): Sigfried Idyll (1869-70), Wesendonck-ljóðin (1857-58). Felix Mendelssohn (1809-1847): Sinfónía nr. 3 í a-moll, op. 56, „Skoska sinfónían“ (1842). Hanna Dóra Sturludóttir einsöngvari. Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi: Ilan Volkov. Föstudaginn 5. apríl kl. 19:30.

Siegfried Idyll og Wesendonck-ljóðin eru nánast einu tónverk Wagners utan ópera sem eru reglulega flutt. Því var þessi kvöldstund sl. föstudagskvöld frábært tækifæri til þess að kynnast þessari hlið tónskáldsins auk þess að heyra eina fáguðustu tónsmíð Felix Mendelssohns.

Sigfried Idyll var samið sem gjöf til eiginkonu Richards, Cosimu Wagner, og var frumflutt á sveitasetri þeirra hjóna að morgni jóladags 1870. Verkið var mjög persónulegt að mörgu leyti, efniviðinn sótti hann að hluta til í eigin handraða og að hluta til í vögguvísu eldri barna sinna. Sveitasetrið bauð að sjálfsögðu ekki upp á stóra sinfóníusveit og því flutt af eins konar kammersveit. Sú stærð sveitar var einnig notuð þetta kvöld og það hjálpaði til þess að skapa þetta létta en brothætta andrúmsloft, sem verkinu hæfir. Verkið býður upp á mikla nánd við áheyrendur, sem kammersveitin kom vel til skila með góðum leik.

Richard Wagner samdi Wesendonck-ljóðaflokkinn á árunum 1857 til 1858 við texta Mathilde Wesendonck. Eiginmaður hennar var velgjörðamaður Wagners, Otto Wesendonck, en þrátt fyrir það felldu þau skötuhjú hugi saman. Hvort sem það er áhrifavaldur í tónverki þessu eru ljóðin og tónlistin innblásin af anda þessa rómantíska tíma, þrungin tilfinningu og ákefð. Hanna Dóra Sturludóttir kom þessu ákaflega vel til skila með blæbrigðamiklum söng, góðum framburði (alltént fyrir íslenskættaðan þýskumann) og fínlegri túlkun við fallegan undirleik sinfóníunnar.

Árið 1829 var hinn ungi Felix Mendelssohn á ferð um Bretland þar sem hann lék á píanó við frábærar undirtektir heimamanna. Í Skotlandi heimsótti hann meðal annars Holyrood-kastalann í nágrenni Edinborgar. Hann virðist hafa orðið fyrir miklum áhrifum af heimsókninni í kastalann og sagði í sendibréfi til heimaslóða að hann hefði „fundið byrjunina á skosku sínfóníunni sinni“. Mendelssohn vann að verkinu með hléum í langan tíma og því er númeraröð sinfónía hans nokkuð á skjön. Sú skoska er númer þrjú af fimm er var þó frumflutt síðust þeirra allra, árið 1842. Hún ber því lágt ópusnúmer en er þó metnaðarfullt og fágað verk fullþroska listamanns. Sveitin stóð sig ákaflega vel undir stjórn Ilans Volkovs. Þetta heilsteypta stykki var ákaflega fallega mótað með sterkan heildarsvip. Það má reyndar segja um tónleikana í heild, sem gerði þessa kvöldstund einkar fallega og eftirminnilega.

Snorri Valsson

Höf.: Snorri Valsson