Það var ekki leiðinlegt að prófa nýju Yokohamadekkin á Mercedes-Benz SL sportbílnum .
Það var ekki leiðinlegt að prófa nýju Yokohamadekkin á Mercedes-Benz SL sportbílnum .
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hverjum skyldi detta í hug í sömu andrá appelsína og hjólbarðar? Tæpast margir en bein tengsl eru samt á milli í einu tilviki, að minnsta kosti.

Hverjum skyldi detta í hug í sömu andrá appelsína og hjólbarðar? Tæpast margir en bein tengsl eru samt á milli í einu tilviki, að minnsta kosti. Jú, galdurinn á bak við mýkt, þjálni og grip nýju sportlegu Advan V105-dekkjanna frá Yokohama liggur í olíu úr appelsínuberki. Þessi lausn hefur skilað árangri, sem fékkst staðfest er bílablaðamenn fengu að prófa nýju dekkin og bera saman við eldri gerðina, hin mjög svo vel liðnu Advan V103-dekk. Munurinn var greinilegur.

Yfirburðir fljótt augljósir

Reynsluaksturinn fór fram í Ascari-kappakstursbrautinni við bæinn Ronda á Spáni, rétt um það leyti sem Advan Sport V105-dekkin voru sett á markað í Evrópu.

Það voru ekki neinir aukvisar sem við höfðum úr að spila við reynsluaksturinn. Mercedes-Benz SL og CLS, BMW 328i og Audi A4 biðu í röðum, en allar þessar gerðir, auk annarra, bjóða bílsmiðjurnar upp á Yokohama-dekkin sem frumdekk. Yokohama Advan V105-dekkin verða fáanleg í 36 stærðum fyrir 16 til 20 tommu felgur.

Ég prófaði muninn á V105 og V103 í hraðakstri á tveimur eins BMW 328i-bílum. Yfirburðir V105 voru fljótt augljósir, sérstaklega með auknum hraða. Þau voru ögn skarpari inn í beygjur sem eknar eru á hægum og meðalhraða, en eftir því sem beygjuhraði jókst munaði miklu á stöðugleika bílsins og hann svaraði mun nákvæmar stýrisbreytingum á V105-dekkjunum. Væri of mikið lagt á dekkin þurfti ekki nema rétt að lyfta bensínfetil til að þau límdu sig aftur við malbikið. Svörunin frá V103-dekkjum var öllu óræðari, bíllinn skreið meira útundan sér á þeim og slaka þurfti mun meira á aflinu áður en þau endurheimtu fulla vegfestu. Af þessum sökum var öryggistilfinningin því öllu meiri á nýju V105-dekkjunum.

Aukin afköst í bleytu

Einir helstu kostir nýju Advan-dekkjanna eru afköst þeirra í bleytu, sem hlýtur að teljast stór plús í akstri við íslenskar aðstæður. Því fékk ég að kynnast í braut sem sérhönnuð var til aksturs í bleytu en sérstakt úðarakerfi sá um að halda henni mátulega votri.

Þarna kom munur á V103 og V105 betur í ljós en á þurrum brautunum. Gripu nýju dekkin mun betur en undirstýring háði í akstri með V103 undir. Og þegar metin var bremsuhæfni kom munur líka í ljós. Kom reynsla mín heim og saman við það sem Yokohama heldur fram; að Advan V105-dekkin þurfi 14% styttri bremsulengd í rigningu og hafi 11% meiri rásfestu. Aukinheldur heldur Yokohama því fram eftir mælingar við þróun dekkjanna að hin nýju séu 15% hljóðlátari í venjulegum akstri.

Þessum kostum hafa tæknimenn og hönnuðir Yokohama náð fram með því að búa til dekk með ósamhverfum þráðvefjum; innri þráðvef sem eykur grip í bleytu og ytri þráðvef sem bætir meðfærileika í þurrakstri. Munstrið hefur líka sitt að segja, þrjár breiðar rásir og ein þynnri ryðja vatni hratt í burtu og draga úr vatnsskautun.

Gagnleg upplifun

Loks er „burðargrind“ ekki með nákvæmlega þverofinn radíal. Í stað þess að liggja þvert á yfirborð dekksins, 90°, liggja þráðlögin 80° á það. Með því móti myndast burðarnet í hliðarveggnum sem alsett er þríhyrningum sem gerir að verkum, að þau spyrna betur við togkröftum þyngdaraflsins og bremsuafls. Allt bætir það meðfærileika bíls á þessum dekkjum, ekki síst í rigningu, að sögn tæknimanna Yokohama. sem voru viðstaddir reynsluakstur blaðamanna.

Upplifunin af akstrinum var gagnleg að því leyti að hún sýndi höfundi þessara lína að dekk hafa afar mikið segja við hegðun bíls, meðfærileika hans, ferðaþægindi og ekki síst ferðaöryggi.

agas@mbl.is

Sportdekkin þróuð í Þýskalandi

Öruggari, léttari og fyrir meiri hraða

Nýju Advan V105-sportdekkin voru þróuð í tæknisetri Yokohama við Nürburgring í Þýskalandi, eina erfiðustu keppnisbraut í heimi fyrir ökumenn. Eftir prófanir í tölvulíkönum færðist þróun dekkjanna út á brautina og sá formúluþórinn fyrrverandi, Ukyo Katayama, um hann.

Látum var ekki linnt fyrr en „skófar“ dekksins var með þeim hætti, að orðið var til öruggara, léttara dekk og bauð upp á meiri hraðakstur en fyrra flaggskip, V103-dekkið. Naut Yokohama við þetta reynslu og þekkingar úr akstursíþróttum. Orðið var til dekk sem ætlað var fyrir öfluga sportbíla á borð við Aston Martin og Porsche og aðra eðalbíla. Með því að fínstilla uppbyggingu þeirra og efnisval á þróunarskeiðinu varð V105 barðinn til.

Nú til dags hafa fullkomin tölvulíkön dregið úr þörf fyrir reynsluakstur við þróun dekkja. Sagði Katayama fulltrúa Morgunblaðsins, að hann hefði engu að síður lagt að baki um 1.000 klukkutíma við prófanir, bæði í Nürburgring og í Japan.

V103-dekkin hafa náð miklum vinsældum og meðal bílsmiða sem valið hafa þau sem frumdekk bíla sinna eru Porsche, Bentley, Audi, Nissan, Volkswagen og BMW. Flestir ef ekki allir bjóða þeir líka upp á V105 sem grunndekk. Það er til marks um ágæti nýja dekksins, afköst og skilvirkni, að Mercedes-Benz býður upp á þau undir sínum helstu lúxus- og sportbílum; C-Class, CLS, SL og SLK.

agas@mbl.is

Nýju dekkin á markað hér á landi í sumar

Líkar ljómandi vel

„Við búumst við að fá Yokohama Advan V105 dekkin í sölu nú í sumar,“ segir Elín Dögg Gunnarsdóttir rekstrarstjóri Dekkjahallarinnar. Fyrirtækið sem starfar á landsvísu en er með höfuðstöðvar á Akureyri hefur umboð fyrir Yokohama dekk á Íslandi. Það fyrirtæki hefur undanfarið kynnt áhugaverðar nýjungar í dekkjaframleiðslu. Miklar framfarir hafa átt sér stað enda er mikil vinna og fjármunir lagðir í þróunarvinnu hjá þeim.

Um nokkurt skeið hafa fyrirrennar V105 dekkjana verið á markaði hér á landi. „Reynslan er góð,“ segir Elín. „Við þróun og framleiðslu hafa þættir eins og til dæmis þyngd, minni elsneytiseyðsla og ending verið höfð að leiðarljósi. Appelsínuolían ræður því sömuleiðis að dekkin eru mjúk og hafa gott grip,“ segir Elín og getur þess að Advan dekkin og önnur Yokohama dekk með sömu gúmmíblöndu hafi fengið góða umsögn hér á landi.

„Ég hef keyrt á Yokohama sumardekkjum, framleiddum úr appelsínuolíu og líkaði alveg ljómandi vel. Ég trúi staðfastlega að þetta sé framtíðin,“ segir Elín. sbs@mbl.is