Ragnheiður Jónsdóttir fæddist á Stokkseyri 9.4. 1895. Foreldrar hennar voru Jón Sigurðsson, kennari í Stokkseyrarhreppi, og kona hans, Guðrún Magnúsdóttir.

Ragnheiður Jónsdóttir fæddist á Stokkseyri 9.4. 1895. Foreldrar hennar voru Jón Sigurðsson, kennari í Stokkseyrarhreppi, og kona hans, Guðrún Magnúsdóttir. Faðir Jóns var Sigurður Ívarsson, bóndi á Gegnisparti í Flóa, sonur Ívars Þórðarsonar, bónda á Efri-Völlum í Flóa, og Ingunnar Vigfúsdóttur sem var dóttir Vigfúsar Ófeigssonar, bónda á Fjalli á Skeiðum.

Ragnheiður lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1923. Þá dvaldi hún við framhaldsnám í Englandi 1929 og kynnti sér þar smábarnakennslu en einnig enskar bókmenntir. Auk þess dvaldi hún rúmt ár, 1946-1947, á Norðurlöndunum, við nám og ritstörf. Ragnheiður hóf kennslu 1914 og kenndi á ýmsum stöðum á Suðurlandi og í Reykjavík. Síðast var hún kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar.

Fyrsta bók Ragnheiðar, Ævintýraleikir, er leikrit ætlað bömum en hún mun vera fyrst íslenskra höfunda til að gefa út leikrit fyrir börn. Hún skrifaði síðan jöfnum höndum skáldverk handa unglingum og fullorðnum. Af verkum hennar má nefna Arf (1941), Í skugga Glæsibæjar (1945), fjögurra binda þroskasögu sem hófst með Ég á gull að gjalda (1954) Villieldur (1967) og smásagnasafnið Deilt með einum (1959). Ragnheiður er þó fyrst og fremst þekkt sem barnabókahöfundur en hún sendi frá sér tuttugu og eina barnabók, þ.ám. bækurnar um Dóru og bækurnar um Kötlu sem margir muna sjálfsagt eftir. Ragnheiður sat í barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands 1958-1960 og var formaður þess frá 1964 og til dauðadags 9. maí 1967.

Eiginmaður Ragnheiðar var Guðjón Guðjónsson, f. 23.3. 1892 á Akranesi, d. 30.1. 1971, skólastjóri Barnaskólans í Hafnarfirði og forstöðumaður Fræðslumyndasafns Reykjavíkur. Þau eignuðust tvö börn, Jón Ragnar, f. 1920, sem var stýrimaður og skipstjóri í Boston, Massachusetts, og Sigrúnu myndlistarkonu, Rúnu, f. 1926.

Ragnheiður lést 9.5. 1967.