Óheppinn Kjartan Henry Finnbogason hefur verið úr leik í 8 mánuði.
Óheppinn Kjartan Henry Finnbogason hefur verið úr leik í 8 mánuði. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

Fótbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Óvissa ríkir enn um það hvort eða hvenær sóknarmaðurinn Kjartan Henry Finnbogason getur byrjað að spila með KR-ingum á nýjan leik en hann hefur verið frá æfingum og keppni frá því hann gekkst undir aðgerð á hné undir lok síðustu leiktíðar.

KR-liðið hélt utan til Spánar í æfingaferð í morgun og fór Kjartan með liðinu og þar hyggst hann láta á það reyna hvernig hnéð bregst við álagi.

„Ég er búinn að vera í endurhæfingu síðustu mánuðina þar sem ég hef keyrt á milli sjúkraþjálfara og í þessum töluðum orðum var ég að koma úr spautumeðferð. Ég ætla mér að prófa að hlaupa úti á grasinu á Spáni. Ég er ekki með neina verki núna. Það er vökvi í hnénu en ég ætla að láta á það reyna,“ sagði Kjartan Henry í samtali við Morgunblaðið í gær.

Læknirinn vil gera aðra aðgerð

Kjartan náði aðeins að vera með í 14 leikjum KR-inga í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð en engu að síður tókst þessum öfluga sóknarmanni að skora átta mörk og varð hann markahæsti leikmaður liðsins í deildinni.

„Ég er búinn að vera duglegur að lyfta og hef verið í styrktarprógrammi en ég hef ekki hreyft mig í átta mánuði. Það er alveg ljóst að ég verð ekki klár þegar Íslandsmótið byrjar en það þýðir ekkert annað en að vera jákvæður. Maður sér það í fréttum þessa dagana að það er margt verra en að hafa brjóskskemmdir í hné. Læknirinn minn vill gera aðra aðgerð og reyna að krukka meira í hnéð en ég tók þá ákvörðun, eftir hafa rætt við fjölmarga aðila, að fara þá leið að styrkja vöðva í kringum hné og slaka á öðrum. Ef þetta virkar ekki þá er það bara hnífurinn sem bíður. En ég er þokkalega jákvæður án þess að missa mig. Það er fínt að komast út til Spánar. Ég hef verið í sjúkraþjálfun á sama tíma og strákarnir hafa verið á æfingum og hef því ekki verið mikið í kringum þá. En ég er hluti af liðinu og mér fannst sjálfsagt að ég færi út með því og léti reyna á þessi meiðsli sem hafa verið að plaga mig,“ sagði Kjartan Henry.

Kjartan er ekki eini leikmaður KR-liðsins sem glímir við hnémeiðsli. Bakvörðurinn Haukur Heiðar Hauksson gekkst undir aðgerð í byrjun september og líkt og Kjartan er hann ekki byrjaður að spila á nýjan leik.

Með augu og eyru opin

„Ég vonast til að fá Kjartan og Hauk aftur inn í hópinn en með því myndi hópurinn breikka töluvert hjá okkur. Haukur er rétt að fara af stað en meiðsli hans voru ekki eins alvarleg og hjá Kjartani,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, við Morgunblaðið.

Spurður hvort hann sé að leita að liðstyrk segir hann: „Við erum ekki að leita beint að leikmönnum en auðvitað höfum við eyru og augu opin eins og flest lið,“ sagði Rúnar.