Mark Gonzalo Higuaín fagnar ásamt Sergio Ramos og Raphael Varane eftir að hafa skorað fyrir Real Madrid í fyrri leiknum gegn Galatasaray.
Mark Gonzalo Higuaín fagnar ásamt Sergio Ramos og Raphael Varane eftir að hafa skorað fyrir Real Madrid í fyrri leiknum gegn Galatasaray. — AFP
Flestir sparkspekingar reikna með því að nífaldir Evrópumeistarar Real Madrid og Dortmund nái að tryggja sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Flestir sparkspekingar reikna með því að nífaldir Evrópumeistarar Real Madrid og Dortmund nái að tryggja sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Real Madrid sækir tyrknesku meistarana Galatasaray heim til Istanbúl eftir að hafa farið með sigur af hólmi, 3:0, í fyrri leiknum á Santiago Bernabeu. Þýsku meistararnir í Dortmund fá nýliðana í Meistaradeildinni, spænska liðið Malága, í heimsókn en fyrri viðureign liðanna á Spáni lyktaði með markalausu jafntefli.

Vonin er veik hjá Galatasaray að komast í undanúrslit í fyrsta sinn í 24 ár enda hefur lið Real Madrid verið á miklu flugi undanfarnar vikur. Spánarmeistararnir hafa skorað á útivelli í öllum 16 leikjunum sem þeir hafa spilað undir stjórn Josés Mourinhos og aðeins tapað tveimur þeirra. Það má því fastlega búast við því að Real Madrid verði í undanúrslitum í meistarakeppni Evrópu í 24. sinn.

Mourinho hefur varað sína menn við leiknum í Tyrklandi.

„Við náðum góðum úrslitum í fyrri leiknum en ég hef upplifað marga ótrúlega hluti í fótboltanum og það er ekkert sem getur komið mér á óvart. Það verður erfitt fyrir okkur að spila í Istanbúl. Í liði Galatasaray eru leikmenn sem búa yfir mikilli reynslu og eru með mikinn karakter og ég veit að liðið mun berjast hart á móti okkur. Við tökum leikinn mjög alvarlega og verðum ekki með neitt vanmat,“ sagði Mourinho við fréttamenn.

Jürgen Klopp, þjálfari Dortmund, segist hafa búið sína menn undir afar erfiðan leik gegn Málaga.

„Við vitum hvað við þurfum að gera. Við verðum að vera einbeittir, spila varnarleikinn að festu og reyna að koma marki á Málaga sem fyrst. Við berum virðingu fyrir mótherjunum. Málaga hefur sýnt og sannað að þeirra lið er gott og við verðum að ná góðum leik til að slá það út,“ sagði Klopp. gummih@mbl.is