Markaskorarar Baldur Sigurðsson og Björn Daníel Sverrisson berjast um boltann í Krikanum í gær en báðir skoruðu þeir fyrir lið sín í gær.
Markaskorarar Baldur Sigurðsson og Björn Daníel Sverrisson berjast um boltann í Krikanum í gær en báðir skoruðu þeir fyrir lið sín í gær. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kaplakrika Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Eftir þó nokkrar ófarir í leikjum sínum gegn FH frá síðustu aldamótum hafa KR-ingar heldur betur snúið blaðinu við.

Í Kaplakrika

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Eftir þó nokkrar ófarir í leikjum sínum gegn FH frá síðustu aldamótum hafa KR-ingar heldur betur snúið blaðinu við. Þeir lögðu Hafnfirðingana tvívegis í úrvalsdeildinni í fyrra, þar sem Baldur Sigurðsson skoraði í báðum leikjum, og hann skoraði fyrsta markið og krækti í vítaspyrnu á fyrstu 12 mínútunum í stórmeistaraslagnum í Kaplakrika í gærkvöld.

Í leiðinni náði hann í rautt spjald á Róbert Örn Óskarsson, markvörð FH. KR-ingar voru manni fleiri í 80 mínútur og nýttu sér það þegar upp var staðið, unnu 4:2 og eru með tveggja stiga forskot á Val á toppi deildarinnar en FH seig niður í þriðja sætið.

Þriðji sigur KR á FH í röð í deildinni en þetta var fyrsta tap FH-inga í 12 deildaleikjum – síðan þeir biðu lægri hlut fyrir KR 23. ágúst í fyrra.

Var rauða spjaldið sanngjarnt?

Rauða spjaldið á Róbert var þó umdeilanlegt. Hann braut á Baldri, engin spurning, en Mývetningurinn var á leið frá markinu og ekki sjálfgefið að hann hefði náð skoti á markið þótt hann hefði farið óáreittur framhjá markverðinum. Dómurinn var strangur hjá Magnúsi Þórissyni og þung refsing fyrir FH-inga að vera manni færri í allan þennan tíma.

Þótt KR-ingar virtust lengi vel vera með öll ráð FH í hendi sér snerist dæmið við að hluta þegar Björn Daníel Sverrisson minnkaði muninn í 2:1 í lok fyrri hálfleiks, og þegar hann jafnaði 20 mínútum fyrir leikslok, 2:2, virtist það ótrúlega ætla að gerast. FH-ingar virtust til alls vísir.

En þeir gleymdu sér í ákafanum. Í stað þess að draga sig til baka og halda stiginu, sem hefði verið mjög ásættanlegt við þessar aðstæður, vildu þeir meira og KR-ingar voru ekki lengi að refsa. Glæsilega útfærð skyndisókn og Óskar Örn Hauksson kom þeim yfir á ný. Það var of mikið fyrir Íslandsmeistarana.

KR-liðið er stöðugt að styrkjast. Rúnar Kristinsson er að fá inn menn sem hafa verið meiddir. Gunnar Þór Gunnarsson og Haukur Heiðar Hauksson eru góð viðbót við vörnina, ekki síst þar sem Brynjar Björn Gunnarsson var ekki með vegna meiðsla og Bjarni Guðjónsson var fljótlega orðinn laskaður. Atli Sigurjónsson er stöðugt að gera sig meira gildandi í Vesturbænum. Skemmtilegur og sparkviss miðjumaður sem kórónaði fínan leik með því að leggja upp fjórða markið í lokin með glæsilegri sendingu.

Hinum megin var Björn Daníel Sverrisson nærri því að vera hetja kvöldsins. Tvö mörk frá honum, bæði eftir flottar sendingar Ólafs Páls Snorrasonar, og liðið manni færri. FH sýndi styrk sinn með því að jafna og er líklegt til að halda sínu striki í toppslagnum þrátt fyrir þessi úrslit.

Daði Lárusson, sem verður fertugur í næstu viku, kom í mark FH þegar Róbert var rekinn af velli og lék sinn fyrsta leik með liðinu í deildinni frá 2009, en Daði var í Haukum í þrjú ár. Ljóst er að Daði ver mark FH-inga aftur, þremur dögum fyrir fertugsafmælið, því Róbert fer í eins leiks bann vegna rauða spjaldsins.

0:1 Baldur Sigurðsson 8. með hnitmiðuðu skoti í vinstra hornið niðri, rétt utan markteigs, eftir sendingu frá Hauki H. Haukssyni.

0:2 Bjarni Guðjónsson 13. af öryggi úr vítaspyrnu sem dæmd var á Róbert Óskarsson markvörð fyrir brot á Baldri Sigurðssyni.

1:2 Björn Daníel Sverrisson 44. skoraði með viðstöðulausu skoti frá markteig eftir aukaspyrnu frá Ólafi Páli Snorrasyni.

2:2 Björn Daníel Sverrisson 71. skallaði í netið frá markteig eftir fyrirgjöf Ólafs Páls Snorrasonar frá vinstri.

2:3 Óskar Örn Hauksson 75. skoraði með skoti frá vítateigslínu eftir stungusendingu frá Guðmundi Reyni Gunnarssyni.

2:4 Þorsteinn Már Ragnarsson 87. skoraði af stuttu færi eftir skyndisókn og sendingu frá Atla Sigurjónssyni.

Gul spjöld:

Atli G. (FH) 5. (brot), Bjarni (KR) 27. (brot), Baldur (KR) 35. (brot), Þorsteinn (KR) 86. (brot).

Rauð spjöld: Róbert (FH) 11. (brot)

Engin.

MM

Atli Sigurjónsson (KR)

M

Björn Daníel Sverrisson (FH)

Ólafur Páll Snorrason (FH)

Guðmann Þórisson (FH)

Freyr Bjarnason (FH)

Gunnar Þór Gunnarsson (KR)

Baldur Sigurðsson (KR)

Jónas Guðni Sævarsson (KR)

Guðmundur R. Gunnarss. (KR)

FH – KR 2:4

Kaplakriki, Pepsi-deild karla, 6. umferð, mánudag 10. júní 2013.

Skilyrði : 15 stiga hiti, gola, skýjað, völlurinn nokkuð háll en ágætur.

Skot : FH 5 (3) – KR 12 (7).

Horn : FH 3 – KR 6.

Lið FH : (4-3-3) Mark : Róbert Örn Óskarsson. Vörn : Guðjón Árni Antoníusson, Guðmann Þórisson, Freyr Bjarnason, Viktor Örn Guðmundsson. Miðja : Dominic Furness (Pétur Viðarsson 55.), Brynjar Á. Guðmundsson (Daði Lárusson 12.), Björn Daníel Sverrisson. Sókn : Ólafur Páll Snorrason, Atli Viðar Björnsson (Kristján Gauti Emilsson 80.), Atli Guðnason.

Lið KR : (4-3-3) Mark : Hannes Þór Halldórsson. Vörn : Haukur H. Hauksson, Grétar S. Sigurðarson, Gunnar Þór Gunnarsson, Guðmundur R. Gunnarsson. Miðja : Jónas G. Sævarsson, Baldur Sigurðsson (Kristján H. Finnbogason 90.), Bjarni Guðjónsson (Þorsteinn Ragnarsson 56.) Sókn : Atli Sigurjónsson, Gary Martin (Emil Atlason 85.), Óskar Örn Hauksson.

Dómari : Magnús Þórisson – 6.

Áhorfendur : 2.767.