Afreksmaður Jón Margeir hefur æft sund frá því hann var sex ára og á hann mörg Íslandsmet. Hann hefur einnig unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikum auk annarra titla. Hann mun í haust taka þátt í heimsmeistaramótinu í Kanada.
Afreksmaður Jón Margeir hefur æft sund frá því hann var sex ára og á hann mörg Íslandsmet. Hann hefur einnig unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikum auk annarra titla. Hann mun í haust taka þátt í heimsmeistaramótinu í Kanada. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson hefur staðið sig einkar vel upp á síðkastið og bætti nýlega Íslandsmet. Kappinn keppir nú undir formerkjum Fjölnis en hann hóf feril sinn í röðum Íþróttafélagsins Aspar.

Sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson hefur staðið sig einkar vel upp á síðkastið og bætti nýlega Íslandsmet. Kappinn keppir nú undir formerkjum Fjölnis en hann hóf feril sinn í röðum Íþróttafélagsins Aspar. Heimsmeistaramótið í Kanada nálgast og stefnan er síðan sett á Ólympíuleikana í Brasilíu árið 2016.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

Ég var einhvers staðar á milli sex og sjö ára þegar ég byrjaði að æfa með Öspinni. Ég æfði allar sundgreinarnar, ég tók bara allan pakkann. Ég hef líka æft fótbolta og keilu með félaginu. Það hefur verið mjög gott að vera þar,“ segir sundkappinn Jón Margeir Sverrisson sem hefur upp á síðkastið bætt hvert metið á fætur öðru. Sundferill hans byrjaði með íþróttafélaginu Ösp en hann hefur þó þurft að flytja sig um set.

„Ég byrjaði þarna í Öspinni. Það var síðan bara orðið þannig að félagið gat ekki séð fyrir nægilega mörgum æfingum fyrir mig. Ég varð því að fara yfir til Fjölnis. Ég held að það hafi líka bara verið frekar gott fyrir mig að fá þá auknu samkeppni sem þar var að finna,“ segir Jón Margeir en hann segist alltaf munu búa að þeirri þjálfun sem hann hlaut hjá Ösp. Hann bætir því enn frekar við að þeir þjálfarar sem þar hafi verið hafi verið einkar liðlegir auk þess sem félagsskapurinn hafi verið mjög góður.

Bætti nýlega Íslandsmet

„Það var frekar mikil breyting að fara yfir til Fjölnis. Æfingar breyttust og þeim fjölgaði svo ég náði að bæta mig mikið. Öspin og Fjölnir eru að mestu leyti bæði í Laugardalslauginni, svo það var lítil breyting þar á. Ég fór þó bæði að mæta á morgun- og kvöldæfingar. Áður hafði ég bara verið á kvöldæfingum. Mér finnst samt eiginlega skemmtilegra að æfa á kvöldin, það getur verið erfitt að vakna snemma. En það er bara hluti af prógramminu,“ segir Jón Margeir og virðist einbeittur í sínum verkefnum. Aðspurður segir hann margt á sinni könnu.

„Ég er búinn að taka þátt í mjög mörgum keppnum upp á síðkastið. Ég var til að mynda í Þýskalandi og það gekk mjög vel þar. Ég var þar að keppa á þýsku meistaramóti,“ segir hann. Ekki er langt síðan Jón Margeir setti nokkur Íslandsmet á vormóti Aspar og Elliða.

„Það er alltaf jafngaman að bæta þessi Íslandsmet, en ég þarf að æfa mikið svo það sé mögulegt. Ég æfi nánast á hverjum degi á morgnana og á kvöldin þannig að þetta getur tekið svolítið á. Svo er maður líka að vinna í Rúmfatalagernum. Ég fer því á æfingar fyrir og eftir vinnu,“ segir Jón Margeir.

Gullið opnaði margar dyr

Eins og flestir muna vann Jón Margeir til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í fyrra. Hann segir það hafa verið mikla hvatningu.

„Það gaf mér mikið sjálfstraust að taka þátt í Ólympíuleikunum. Það að vinna gullið opnaði líka fleiri dyr fyrir styrkjum og þess háttar. Það hefur hjálpað mikið til. Ég stefni á næstu Ólympíuleika og fleiri mót og þessir styrkir fara meðal annars í ferðakostnað og þess háttar,“ segir hann en auk Ólympíuleikanna í Brasilíu árið 2016 er heimsmeistaramótið núna í ágúst og að sjálfsögðu setur Jón þar markið hátt. Hann segist þó ekki stefna á nein sérstök met frekar en önnur.

„Maður vill bara halda sér í góðu standi, leggja sig allan fram og bæta þau Íslandsmet sem hægt er að bæta. Það er misjafnt eftir dögum hvaða grein ég er bestur í. Tvö hundruð metra skriðsundið er hvorki sprett- né langsund og getur því verið mjög erfitt,“ segir Jón Margeir.

Mikill stuðningur og gott fólk

Sundið er ekki það eina sem heillar Jón Margeir en hjólreiðar höfða einnig til hans.

„Ég hef áhuga á fjallabruni, ég er svolítið í því. Þetta er skemmtileg íþrótt og ég er búinn að vera að horfa á myndbönd af þessu á netinu. Þetta leit út fyrir að vera skemmtilegt og sú varð raunin. Þetta getur verið svolítið hættulegt en maður passar sig bara. Það þarf bara að vera með gott hjól og þá fer þetta vel,“ segir hann. Jón Margeir segist alltaf halda ágætis tengslum við Öspina þó svo hann æfi þar ekki lengur.

„Það er öðru hverju sem ég keppi með félaginu. Ég held samt góðu sambandi við félagið enda gott fólk þar á ferð,“ segir hann og bætir við að hann geti þakkað mörgum þá velgengni sem hann hefur notið.

„Það er mest að þakka þjálfurunum sem ég hef verið að æfa með, foreldrum mínum fyrir að styðja við bakið á mér og svo stend ég í mikilli þakkarskuld við bróður minn, Gísla Frey Sverrisson. Einhvern tímann langaði mig að hætta að synda en hann ákvað að borga mér fimm þúsund krónur fyrir hvert Íslandsmet sem ég bætti. Það er eiginlega honum að þakka að ég hélt áfram að synda,“ segir Jón Margeir. Hann kveðst þó ekki hafa orðið rosalega efnaður á þessum samningi.

„Bróðir minn er nú hættur að borga mér fyrir Íslandsmetin en ég held samt áfram að bæta þau,“ segir Jón Margeir sposkur að lokum.

HEFUR VERIÐ STARFRÆKT Í YFIR ÞRJÁTÍU ÁR

Fjölbreytt íþróttaiðkun

Íþróttafélagið Ösp var stofnað 18. maí árið 1980 af foreldra- og kennarafélagi Öskjuhlíðarskóla, með stuðningi frá Íþróttasambandi fatlaðra. Ösp býður upp á afar fjölbreytta íþróttaiðkun en meðal þeirra íþrótta sem hægt er að stunda eru sund, borðtennis, frjálsíþróttir, lyftingar og fótbolti. Markmið íþróttafélagsins er að standa fyrir íþróttaiðkun meðlima félagsins þeim til heilsubótar og ánægju. Æfingar hjá félaginu hafa verið afar fjölsóttar og allir eiga möguleika á því að finna eitthvað við sitt hæfi, enda um margt að velja.