Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Helstu talsmenn síðustu ríkisstjórnar héldu því gjarnan fram – og gera enn – að sú stjórn hafi náð tökum á ríkisfjármálunum.

Helstu talsmenn síðustu ríkisstjórnar héldu því gjarnan fram – og gera enn – að sú stjórn hafi náð tökum á ríkisfjármálunum. Þetta er meðal þeirra afreka sem komandi kynslóðir munu að þeirra sögn þakka „fyrstu hreinu vinstristjórninnni“ þó að kjósendur hafi sýnt eintómt vanþakklæti í nýlegum kosningum.

Í umræðum á Alþingi í gærkvöldi upplýsti fjármálaráðherra að glansmyndin af ríkisfjármálunum sem dregin hefur verið upp af fyrri ráðherrum á ekki við rök að styðjast.

Útgjöld umfram heimildir og minni tekjur vegna minni hagvaxtar valdi því að nú stefni í halla á þessu ári um rúma 30 milljarða króna. Afkoman verði því svipuð og í fyrra.

Minni hagvöxtur sem felur í sér minni tekjur í hagkerfinu – og þar með minni tekjur ríkissjóðs – er bein afleiðing þeirrar stefnu sem „fyrsta hreina vinstristjórnin“ bauð landsmönnum upp á.

Þess vegna var hárrétt sú ábending fjármálaráðherra að til að vinda ofan af vanda ríkisfjármálanna nægi ekki að leggja áherslu á varfærni í ríkisútgjöldum. Hér verði að skapa umhverfi sem gefi af sér meiri hagvöxt en undanfarin ár.

Stór þáttur í því að skapa skilyrði fyrir hagvöxt er að lækka skatta sem eftir þrotlausar skattahækkanir „fyrstu hreinu vinstristjórnarinnar“ eru að sliga bæði fólk og fyrirtæki. Þær skattalækkanir þola ekki bið ef koma á hagvexti hratt aftur á viðunandi stig.