Trúverðug „Deon Meyer heldur manni við efnið. Djöflatindur er vel skrifuð og spennan eykst eftir því sem nær dregur endalokum.“
Trúverðug „Deon Meyer heldur manni við efnið. Djöflatindur er vel skrifuð og spennan eykst eftir því sem nær dregur endalokum.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Deon Meyer. Íslensk Þýðing: Þórdís Bachmann. Kilja. 416 bls. Tindur 2013.

Við búum í ógnvænlegum heimi og í þessum heimi þrífast afbrotamenn, glæpir, svik, spilling og launráð. Upp úr þessum farvegi spretta rithöfundar sem sjá veröldina með sínum augum og koma henni í sögubúning. Einn þessara höfunda er Deon Meyer í Suður-Afríku og með spennusögunni Djöflatindi hefur hann komið sér vel fyrir í heimi spennusagnahöfunda.

Suður-Afríka er ekki beint í túnfætinum en þaðan berast oft ógnvænlegar fréttir af glæpum og spillingu. Deon Meyer þekkir umhverfið og Djöflatindur virkar á mann eins og frásögn atburða á líðandi stundu. Bókin lýsir ógnvænlegum viðburðum, máttlausum yfirvöldum til að takast á við glæpina og sjálfsbjargarviðleitni einstaklinga í kjölfarið. Í hringiðunni er síðan rannsóknarlögreglumaðurinn Benny Griessel í Höfðaborg, drykkjurútur með allt niður um sig, en samt einstaklingur sem sýnir að lengi lifir í gömlum glæðum.

Sagan hverfist um þrjár persónur, Christine, Thobela og Benny, og þó þær séu ekki allra, falli ekki inn í normið, finnur lesandinn til með þeim og getur eiginlega ekki annað en staðið með þeim. Þær eru ólíkar en eiga ýmislegt sameiginlegt. Sterkar en eiga samt sína veikleika.

Spennusagan Djöflatindur er á sinn hátt saga ákveðinna uppgjöra en vandinn er viðameiri en svo að hann leysist í stuttri sögu. Þó að svar finnist við ákveðnum spurningum er vandinn í raun óviðráðanlegur.

Deon Meyer heldur manni við efnið. Djöflatindur er vel skrifuð og spennan eykst eftir því sem nær dregur endalokum. Þetta er mjög trúverðug saga og besta sumarbókin til þessa.

Steinþór Guðbjartsson