— Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jónu Valgerði Kristjánsdóttur: "Ekki má heldur gleyma því að meðan laun hækkuðu á almennum markaði fengu eldri borgarar enga samsvarandi hækkun á lífeyri."

Mikil umræða var að sjálfsögðu um kjaramál eldri borgara á landsfundi Landssambands eldri borgara (LEB) 7.-8. maí sl. Fulltrúum í kjaranefndinni sem starfaði á landsfundinum þótti lítið hafa miðað í leiðréttingum bóta almannatrygginga hjá síðustu ríkisstjórn. Mest er alltaf rætt um skerðingu bóta 1. júlí 2009 sem átti að vera tímabundin í 2-3 ár. Skerðing á tekjutryggingu vegna annarra tekna var þá einnig hækkuð úr 39,35% í 45%, en sú skerðing á að renna út um næstu áramót ásamt skerðingu heimilisuppbótar. Hins vegar er tekjutenging grunnlífeyris við lífeyrissjóðstekjur sem einnig var sett á með lögum 1. júlí 2009 enn í gildi og hefur haft í för með sér mikla óánægju þeirra sem hafa eitthvað úr lífeyrissjóðum, og gert að verkum að stór hluti eldri borgara er fastur í fátæktargildru. Það er sterk krafa eftirlaunaþega að það verði dregið til baka. Og þau loforð voru gefin fyrir kosningar. LEB samþykkti tillögu starfshóps um endurskoðun almannatrygginga sem fól í sér einföldun bótaflokka og skerðinga vegna annarra tekna. Þetta kemur fram í frumvarpi um lífeyristryggingar og félagslegar bætur sem lagt var fram á Alþingi 7. mars sl., enda verður mikil lagfæring að því og kerfið miklu einfaldara og skiljanlegra venjulegu fólki. En með samþykkt þess lagði ég jafnframt fram bókun þess efnis að við vildum að grunnlífeyrir, eða ígildi hans væri óháð þessari tillögu og yrði upphæð sem allir fengju óháð öðrum tekjum. Með frumvarpinu ef að lögum verður fæst nokkur kjarabót, næstu árin, en það tekur ekki á öllum þeim skerðingum sem eldri borgarar hafa mátt sæta sl. fjögur og hálft ár og nemur allt að 17 milljörðum króna.

Landsfundur LEB lagði áherslu á öll þessi mál og ályktaði einnig að hækkun skattleysismarka væri ein besta kjarabótin fyrir allt láglaunafólk og þar með talið þá sem eru á eftirlaunum. Landsfundurinn samþykkti einnig að atvinnutekjur 67 ára og eldri skuli ekki skerða greiðslur frá TR, og má benda á að þannig er það í Noregi, auk þess sem sumar stéttir þar byrja að taka ellilífeyri frá 61-63 ára aldri. Mikið var rætt um hækkanir sem dunið hafa yfir frá áramótum eins og þjónustugjöld til lækna, sjúkraþjálfara og lyfjakostnað, sem eftirlaunafólk hefur þurft að taka á sig án nokkurra leiðréttinga á greiðslum til að mæta þessum kostnaði. Landsfundurinn krafðist þess að virðisaukaskattur af lyfjum yrði lækkaður úr hæsta þrepi sem er 25,5% í lægsta þrep sem er 7%. Það væri vissulega mikil kjarabót fyrir eldri borgara landsins sem eru sennilega fjölmennasti hópurinn í lyfjakaupum hér á landi.

Þá kom til umræðu að sum sveitarfélög hafa lýst vilja til að lækka eða afnema fasteignagjöld af húsnæði sem eldri borgarar eiga og búa í. Þau hafa hins vegar ekki lagaheimild til þess, og auk þess er þeim gert að nýta hámark tekjustofna sinna til að geta fengið framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þess er óskað að þessu verði breytt með lögum svo sveitarfélög geti hlúð að sínum eldri borgurum og öðrum sem höllum fæti standa með þessum úrræðum.

Nú hefur tekið við ný ríkisstjórn þeirra flokka sem gáfu loforð um það fyrir kosningar að dregnar yrðu til baka skerðingar vegna tekna eldri borgara og öryrkja frá árinu 2009, og þeim bættur skaðinn. Við gerum auðvitað ráð fyrir því að þau loforð verði efnd. Ekki má heldur gleyma því að meðan laun hækkuðu á almennum markaði fengu eldri borgarar enga samsvarandi hækkun á lífeyri. Stjórnmálaflokkar eiga ekki að komast upp með loforð fyrir kosningar en svíkja þau síðan þegar þeir hafa völd til þess að efna þau. Við munum í Landssambandi eldri borgara fylgjast vel með framvindu mála á sumarþingi.

Höfundur er formaður Landssambands eldri borgara.