Landnám Plógurinn fer 17 sentímetra niður í jörðina og snýr torfunni á hvolf. Síðan er farið yfir með jarðtætara eða herfi, áður en sáð er. Ef tíð verður hagstæð í sumar þýtur grængresið upp og góð uppskera fæst í september.
Landnám Plógurinn fer 17 sentímetra niður í jörðina og snýr torfunni á hvolf. Síðan er farið yfir með jarðtætara eða herfi, áður en sáð er. Ef tíð verður hagstæð í sumar þýtur grængresið upp og góð uppskera fæst í september. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Þetta hefur alltaf bjargast hjá bændum. Spurningin er bara hversu lengi maður er að ná sér upp aftur.

Sviðsljós

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Þetta hefur alltaf bjargast hjá bændum. Spurningin er bara hversu lengi maður er að ná sér upp aftur. Það getur tekið mörg ár, það er allt svo dýrt,“ segir Pálmar Ragnarsson, kúabóndi í Garðakoti í Hjaltadal. Hann er einn þeirra bænda í austanverðum Skagafirði sem kal í túnum leikur illa.

Ráðunautur sem leit á túnin í Garðakoti í vor áætlaði að 80% túnanna væru ónýt vegna kals. Pálmi gekk í að endurrækta og sá grasfræi eða grænfóðri í meginhluta túnanna, alls um 40 hektara. Mikið af því plægði hann upp en lét duga að hræra í efsta laginu um leið og sáð var í einhvern hluta. Miklar skellur eru í þeim túnum sem hann hreyfði ekki við og hætt við að lítil uppskera verði af þeim í haust. „Það eru þarna stykki sem ég ætla að gefa tíma en reikna með að þurfa að taka þau í haust,“ segir Pálmi.

Eigandi jarðarinnar Miklahóls í Viðvíkursveit bauð Pálma að nota land sem búið er að þurrka upp. Gekk hann í það að láta tæta þúfurnar og plægja upp um 12 hektara og reiknar með að sá þar grænfóðri í dag eða allra næstu daga. Segir Pálmi að það bjargi miklu.

Hann segist birgur með hey frá síðasta ári og eigi fóður fyrir kýrnar fram á haust. Þá vonast hann eftir góðri uppskeru af grænfóðri. Gróður hefur tekið vel við sér í Skagafirði í hlýindunum undanfarna daga. Pálmi segir þó ekki hægt að fóðra kýrnar eingöngu á grænfóðri. Eitthvert þurrara gras verði þær að fá með.

Kostnaður skiptir milljónum

Hluti jarðanna í Hjaltadalnum hefur farið illa út úr kalinu og telur Pálmi að búið sé að plægja og endursá í á annað hundrað hektara. Þá sé líklegt að jafnmikið land sé stórskemmt. Hluti jarðanna hefur sloppið betur. Sama ástandið er á bæjum í Viðvíkursveit, Óslandshlíð og Sléttuhlíð.

Auk kostnaðar við plægingu, fræ og áburð þurfa sumir bændur að kaupa hey, nema þeim mun betur rætist úr sumrinu. Þá eru girðingar illa farnar. Tjón einstakra bænda hleypur því á milljónum.

„Ég er ekkert farinn að taka saman eða hugleiða hvað þetta kostar. Bara hugsað um að koma fræi niður í jörðina,“ segir Pálmi. Hann segist heldur ekki hafa haft tíma til að setja sig í samband við Bjargráðasjóð til að athuga hvort von væri á einhverjum stuðningi þaðan. Fram hefur komið að málefni sjóðsins eru til athugunar í atvinnuvegaráðuneytinu.