Heiðar Már Guðjónsson
Heiðar Már Guðjónsson
Olíufélagið CNOOC, sem hóf nýlega samstarf við íslenska olíuleitarfyrirtækið Eykon Energy, er fyrsta kínverska olíufélagið til að koma að olíuleit í Norður-Íshafi. Þetta kemur fram á fréttavef Financial Times .

Olíufélagið CNOOC, sem hóf nýlega samstarf við íslenska olíuleitarfyrirtækið Eykon Energy, er fyrsta kínverska olíufélagið til að koma að olíuleit í Norður-Íshafi. Þetta kemur fram á fréttavef Financial Times . CNOOC, sem er í fullri eigu kínverska ríkisins, gekk inn í umsókn um leitar- og vinnsluleyfi olíu og gass á Drekasvæðinu ásamt Eykon í seinustu viku.

Umsókn kínverska félagsins var kynnt mánuði eftir að Kínverjum var veitt áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, sem er helsti samstarfsvettvangur þeirra ríkja sem liggja á eða að Norðurslóðum, og tveimur mánuðum eftir að Ísland varð fyrsta Evrópuríkið til að gera fríverslunarsamning við Kína.

Ákvörðun liggur fyrir í haust

Eykon leitaði til CNOOC eftir að hafa fengið frest frá Orkustofnun til að afla sér samstarfsaðila sem að mati Orkustofnunar hefði nægjanlega sérþekkingu, reynslu og bolmagn til að annast olíuleit. Orkustofnun mun nú kanna nánar fjárhagslega og tæknilega getu umsækjenda og mun ákvörðun hennar um hvort hún úthluti Eykon og CNOOC rannsóknarleyfi liggja fyrir í haust.

Mikil tækifæri

Heiðar Már Guðjónsson, stjórnarformaður Eykon Energy, segir í viðtali við Financial Times alþjóðleg fyrirtæki streyma til norðurslóða í leit að tækifærum. „Það er ekki bara olía og gas; þarna eru steinefni, þarna eru hugsanlegar nýjar skipaleiðir.“ Heiðar gerir hins vegar minni væntingar til komu kínverskra fyrirtækja til Íslands á meðan gjaldeyrishöft eru við lýði. „Í grundvallaratriðum kæfa höftin hagkerfið þar sem innlend fjárfesting er engin.“

Aukinn áhugi Kínverja

Kína hefur undanfarið sýnt norðurslóðum aukinn áhuga. Í seinustu viku var tilkynnt að sett yrði á laggirnar nýtt rannsóknarsetur um norðurslóðamál í Shanghai, eftir því sem fram kemur í kínverska dagblaðinu China Daily . kij@mbl.is