Þrír ættliðir Egill Birgisson, Þórir Jónsson og Birgir Þórisson á skíðum í Aspen í Bandaríkjunum.
Þrír ættliðir Egill Birgisson, Þórir Jónsson og Birgir Þórisson á skíðum í Aspen í Bandaríkjunum. — Ljósmynd/Árni Rudolf
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Það er ekkert þessu líkt,“ segir Þórir Jónsson, skíðamaðurinn síungi sem verður 87 ára í sumar, um skíðasvæðin í Aspen í Bandaríkjunum, en þar hefur þessi keppandi í svigi og bruni á Vetrarólympíuleikunum í St. Moritz í Sviss 1948 skíðað nær árlega undanfarin 33 ár eftir að hafa verið á fullri ferð í brekkum víða í Evrópu um árabil.

Á ársþingi Skíðasambands Íslands á dögunum var Þórir sæmdur heiðursstjörnu sambandsins fyrir langt, ötult og óeigingjarnt starf í þágu hreyfingarinnar. „Ég lít á þetta sem viðurkenningu til KR,“ segir hann hógvær, en Þórir byrjaði að æfa hjá KR í Skálafelli 1939, átti stóran þátt í uppbyggingu skíðasvæðisins þar, útbjó með félögum sínum fyrstu skíðalyftu landsins í Hveradölum 1949 með því að nota Weapon-jeppa með spili og staur, var lengi formaður skíðadeildar KR og Skíðasambandsins auk þess sem hann var í stjórn sambandsins um árabil. Til stendur að reisa lyftu í norðurhlíðum Skálafells, þar sem alltaf er nægur snjór, og kemur Þórir að því verki en stefnt er að því að fjáröflun fari í gang á þessu ári.

Sérstakur stíll

Þórir fékk skíðabakteríuna, þegar hann var á seinni árunum í Miðbæjarskólanum, 11-12 ára gamall. „Ég var íþróttasinnaður og mér þótti þetta vera skemmtilegasta íþróttin,“ rifjar hann upp. „Það var dálítil skíðabylgja á þessum árum eftir að L.H. Müller gaf skólanum 30 pör af skíðum og hver bekkur fór á skíði einu sinni á ári.“ Þá skíðaði hann með skólafélögunum og lagði grunninn að þátttöku á Ólympíuleikunum 1948 en í Aspen að þessu sinni stöðvuðu hjónin Christin Cooper og Mark Tache hann í brekkunni, þar sem hann skíðaði með eiginkonunni Láru Lárusdóttur, spurðu hvaðan hann væri og forvitnuðust um skíðastílinn. „Þau voru í ólympíuliði Bandaríkjanna í Sarajevo 1984 og hún varð þá í 2. sæti í stórsvigi,“ segir Þórir. „Norski ólympíu- og heimsmeistarinn Stein Erikson, sem keppti á sama tíma og ég, bjó eiginlega til þennan stíl og ég útfærði hann á minn hátt.“

Þórir hefur verið á skíðum í yfir 70 ár, en spilaði áður badminton þess á milli og varð meðal annars Íslandsmeistari 1958. Hann segir að beint flug til Denver komi sér vel og að ferðirnar til Aspen standi upp úr í skíðamennskunni. „Það er ekki hægt að bera þær saman við neitt annað. Aspen er önnur veröld. Þar er allt eins og þú vilt hafa það. Þetta er falleg íþrótt, það er unun að sjá góða skíðamenn og maður kemst ekki nær guðdómnum en á fjallstoppunum.“