Hildur Hjörvar hhjorvar@mbl.

Hildur Hjörvar

hhjorvar@mbl.is

„Skráningin hefur gengið vel hjá okkur, það er allt löngu orðið fullt í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og gengur sömuleiðis mjög vel í Siglunesi,“ segir Jóhanna Garðarsdóttir, verkefnastjóri upplýsingatæknimála hjá ÍTR, en leikjanámskeið hófust mörg hver í gær.

Steinunn Gretarsdóttir, deildarstjóri barnasviðs Reykjavíkurborgar, tekur í sama streng, en í ár hefja göngu sína ný námskeið í anda hinna vinsælu smíðavalla sem nefnast sköpun, smíðar og útivist. „Í stað þess að vera bara í kofasmíði vinna krakkarnir með efni beint úr skóginum, skoða endurunnið efni, læra um útieldun og smíða fuglahús, hljóðfæri, skartgripi og kassabíla.“

Skráning hefur verið afburðagóð í Vesturbæ, miðbæ og Hlíðunum en minni í öðrum borgarhlutum. „Skráningin hefur verið góð, hún hófst um miðjan mars, þátttaka er svipuð og hefur verið undanfarin ár,“ segir Þorsteinn Arnórsson, fjármálastjóri KFUM og KFUK. „Vindáshlíð hefur verið mjög vinsæl og er fullbókað í sjö af níu flokkum sumarsins,“ en KFUM og KFUK reka sumarbúðir í Vindáshlíð, Vatnaskógi, Ölveri, Kaldárseli og Hólavatni. „Leikjanámskeiðin eru alltaf vinsæl, en þau eru haldin í Hjallakirkju og Reykjanesbæ.“

Þorsteinn telur skráninguna vera síðar á ferð nú en áður, m.a. með tilkomu netskráningar og breyttum tíðaranda. Námskeið í júní njóta mestra vinsælda, en minni aðsókn er í kringum verslunarmannahelgi.

Útilífsskóli skáta býður upp á sumarnámskeið á þrettán stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrstu námskeiðin hófust í gær og var víða fullbókað á þau. Aðsókn er góð í júní en heldur minni í júli.

Þá er mikil aðsókn í sumarbúðir á Úlfljótsvatni að vanda að sögn Nönnu Guðmundsdóttur, dagskrárstjóra Bandalags íslenskra skáta.