Það eru laglegar línur í Chevrolet Cruze.
Það eru laglegar línur í Chevrolet Cruze. — Morgunblaðið/Dýrfinna Mjöll
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Chevrolet Cruze er nú í boði sem langbakur og með minni búnaði en áður til að ná niður verði bílsins. Okkur þótti því vel við hæfi að prófa þennan bíl sem hefur selst í töluverðu magni að undanförnu.

Chevrolet Cruze er nú í boði sem langbakur og með minni búnaði en áður til að ná niður verði bílsins. Okkur þótti því vel við hæfi að prófa þennan bíl sem hefur selst í töluverðu magni að undanförnu. Við fengum bíl með minnstu bensínvélinni, 1,6 lítra vél og beinskiptingu, og reyndum hann innanbæjar sem utan.

Gott farangursrými, lítil sæti

Þegar sest er inn í Cruze kemur fljótt í ljós að hann er einfaldur í notkun og ekkert sem kemur sérstaklega á óvart. Maður situr frekar lágt en útsýni er samt gott og allt innan seilingar. Pláss fyrir fætur er með betra móti og þá einnig í aftursætum hans en sætin mættu vera betri. Framsætin eru verstu sætin í bílnum, hörð og óþægileg og of stutt til að hægt sé að finna þægilega setu í þeim. Innréttingin er úr ódýrum efnum til að halda verðinu niðri. Þó skal segjast honum til hróss að hann virkar hljóðlátur í akstri og er laus við skrölt sem stundum einkennir innréttingar með þessu sniði. Farangursrýmið er aðalkostur bílsins því það er stórt miðað við bíl í þessum flokki. Einnig er það mjög aðgengilegt og vel hannað með tilliti til þeirra sem þurfa að nota þennan hluta bílsins mikið. Hægt er að draga gardínu fyrir rýmið á tvo vegu og í því eru einnig hólf fyrir ýmsa hluti.

Frekar lággíraður

Chevrolet Cruze er í boði með þremur gerðum véla, 1,6 og 1,8 lítra bensínvélum og tveggja lítra dísilvél. Við fengum bílinn eins og áður sagði með minnstu vélinni og satt best að segja er 1,6 lítra vélin ekki að henta þessum bíl vel. Hún virkar kraftlaus og þá sérstaklega á lægri hluta snúningssviðsins og ekki bætir það úr skák að gírarnir eru aðeins fimm. Á löglegum þjóðvegahraða í fimmta gír er vélin að snúast töluvert, og það er raunin með bílinn. Sjötti gírinn myndi eflaust bæta málin eitthvað og þá einnig eyðsluna sem er í hærri kantinum. Auk þess er vélin ekkert sérlega náttúruvæn heldur og er losun koltvísýrings 151 gr á km. Á móti kemur að bíllinn er léttur og skemmtilegur í akstri og stýrið gefur góða tilfinningu fyrir akstrinum. Eflaust er hann því töluvert skemmtilegri með stærri vél og þá líklega helst tveggja lítra dísilvélinni. Við höfum prófað hana áður í Malibu og er þar um þétta og góða vél að ræða sem myndi henta þessum bíl vel.

Á besta verðinu

Óhætt er að segja að helsti kostur bílsins er verðið enda er 3.190.000 kr. fyrir langbak í millistærðarflokki ekki mikill peningur. Það fékkst með því að skera annars veglegan staðalbúnað við nögl og bjóða hann með minni búnaði en áður, en samt er um ágætlega búinn bíl að ræða. Nægir að nefna upphituð sæti og spegla, blátannarbúnað, þokuljós, aksturstölvu, loftkælingu, skriðstilli og 16 tommu álfelgur sem er þokkalegasti listi fyrir hvaða bíl sem er. Meðal keppinauta við þennan bíl má nefna Ford Focus sem með 1,6 lítra vélinni kostar 3.940.000 kr., reyndar sjálfskiptur. Væntanlegur Skoda Rapid Combi er líka dæmi um keppinaut sem og Kia Ceed Sportwagon sem er aðeins í boði með dísilvél, en ódýrasta útgáfa hans er á 3.490.777 kr. Af þessu má ráða að verðið á nýjum Cruze langbak er með því besta sem gerist á íslenskum bílamarkaði í dag og er því einfaldlega einn af helstu kostum bílsins.

njall@mbl.is