Árni Johnsen
Árni Johnsen
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Árni Johnsen er á förum til Kiev í Úkraínu síðar í vikunni.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Árni Johnsen er á förum til Kiev í Úkraínu síðar í vikunni. Þar mun Þjóðarsinfóníuhljómsveit Úkraínu, sem er ein helsta sinfóníuhljómsveit landsins og talin ein fremsta sinfóníuhljómsveit í heimi, hljóðrita Sólarsvítuna eftir Árna hinn 16. júní næstkomandi. Stjórnandi er Volodymyr Sirenko, aðalstjórnandi hljómsveitarinnar. Verkið byggist á tónverkum Árna.

„Svítan er fjórtán kaflar, allt lög sem ég hef gert við ljóð ýmissa þekktra ljóðskálda á borð við Matthías Johannessen, Stein Steinarr, Indriða G. Þorsteinsson, Jónas Guðlaugsson, Jóhannes úr Kötlum, Tómas Guðmundsson, Halldór Laxness og Torfa Ólafsson og eins þrjú ljóð sem ég gerði,“ sagði Árni. „Þeir sjá bæði um tónlistarflutninginn og um upptökuna. Þeir vildu gera þetta allt og höfðu á orði að það væri ekki á hverjum degi sem einhver maður utan úr bæ bæði hljómsveitina að taka verk eftir sig!“

Breski tónlistarmaðurinn Ed Wells útsetti Sólarsvítuna. Hann annaðist einnig útsetningu Stórhöfðasvítunnar sem kom út árið 1998 og er hann einn aðalútsetjari breska ríkisútvarpsins BBC, að sögn Árna.

En stendur til að gefa Sólarsvítuna út? „Við sjáum bara til,“ sagði Árni léttur í bragði.