Sjónarhorn „Veðrið er frekar að vinna með okkur en móti,“ segir leikstjórinn Hafstein Gunnar. Hér eru þeir Magni Ágústsson tökumaður í þungum þönkum á ónefndum stað. „Við vildum finna náttúruna vakna,“ segir hann.
Sjónarhorn „Veðrið er frekar að vinna með okkur en móti,“ segir leikstjórinn Hafstein Gunnar. Hér eru þeir Magni Ágústsson tökumaður í þungum þönkum á ónefndum stað. „Við vildum finna náttúruna vakna,“ segir hann.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

„Það er gott að vera á Vestfjörðum, hér er greiðvikið og gott fólk,“ segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri sem er við tökur á Flateyri á sinni annarri bíómynd, París norðursins , en hann leikstýrði bíómyndinni Á annan veg sem frumsýnd var fyrir tveimur árum.

Myndin sem hann er að taka upp núna er skrifuð af Huldari Breiðfjörð en framleiðendur eru þeir Þórir Snær Sigurjónsson og Sindri Kjartansson.

Margir með tengsl við Vestfirði

Aðspurður um hvað myndin sé segir Hafsteinn að hún sé um ungan mann sem hefur verið búsettur einn vetur á Flateyri. „Hann er á einhverjum krossgötum í lífinu og hefur verið kennari hér í nokkurn tíma. Fær síðan föður sinn í heimsókn sem hann þekkir lítið og hefur ekki hitt í langan tíma. Þetta er svona dramatísk kómedía af svæðinu,“ segir Hafsteinn Gunnar en Björn Thors leikur aðalhlutverk myndarinnar.

Þess má geta að fyrsta bíómynd Hafsteins Gunnars var einnig tekin upp á Vestfjörðum en Hafsteinn vill meina að það sé algjör tilviljun. „Ég skrifaði ekki Á annan veg með Vestfirði í huga, ég hafði eitthvað órætt landslag í huga þegar ég skrifaði hana. En þegar við vorum að keyra af Skjaldborgarhátíðinni sem haldin er árlega á Patreksfirði þá fannst mér það virka að setja söguna inn í þetta landslag. Þegar sú mynd fór í gang þá var hugmyndin að París norðursins búin að fæðast. Við erum nokkrir sem eigum tengsl hingað á Vestfirðina. Huldar Breiðfjörð er búinn að eiga hús hérna frá árinu 2007. Dáni Pedersen leikmyndahönnuður á hús við hliðina á honum þannig að það lá beint við að gera myndina hér. Hér er gott að vera,“ segir Hafsteinn.

Tökur ganga vel og eru þeir búnir með tíu tökudaga af áætluðum 23 dögum. En að sögn Hafsteins er hann ánægður með tilfinninguna í tökunum fram að þessu.

Aðspurður um veðrið þá hann er líka nokk sáttur við það. „Ég vildi hafa snjó í fjöllum, hugmyndin var að þetta gerðist um vor,“ segir Hafsteinn. „Við vildum finna náttúruna vakna. Finna vorið hörfa fyrir sumrinu. Það er enn snjór í fjöllum og það er mjög gott. Tökumaðurinn er mjög ánægður að það sé ekki alltaf glampandi sól. Veðrið er frekar að vinna með okkur en móti.

Annars erum við að fara í næturtökur núna, við viljum fanga þessar miðnæturtökur sem eru mjög sérstakar og fallegar,“ segir Hafsteinn.