Það er gömul saga og ný að gestsaugað er jafnan gleggra en heimamanna.

Það er gömul saga og ný að gestsaugað er jafnan gleggra en heimamanna. Þetta sannaðist enn á ný í vikunni þegar glænýr umhverfisráðherra lét það verða meðal sinna fyrstu yfirlýsinga í embætti að velta þeirri hugleiðingu upp hvort umhverfisráðuneytið væri máske alls óþarft. Téður ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, er vel að merkja landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sömuleiðis og ætlar okkar maður sér greinilega að gera hluti á þeim vettvangi því hann bætti því við að mikilvægt væri að „umhverfismálin séu ekki andstæða atvinnumálanna“. Það var og.

Í landi sem býr að slíkum auðlindum sem eru til staðar hér verður maður að vona að ráðherra sá sem fer með málefni auðlinda geri sér grein fyrir mikilvægi þess að ávaxta pund sitt skynsamlega í stað þess að spreða því öllu til skemmri tíma. Í því felst að hann geri sér grein fyrir því að farsæl afgreiðsla umhverfismála er hrein og klár forsenda þess að hér lifi og endist gjöful fiskimið, að hér sé sjálfbær landbúnaður sem gefur af sér afurðir sem jafnast á við það sem best finnst fyrir í heiminum og að hér séu til staðar innviðir sem geta ráðið við sífellda fjölgun erlendra ferðamanna sem hingað koma (sem er fagnaðarefni, svo því sé haldið til haga). Frammistaða umhverfisráðherra úr Framsóknarflokki hingað til gefur reyndar tilefni til rétt mátulegrar bjartsýni, en Sigurður Ingi er þar með í dauðafæri að gerast forverabetrungur.

Náttúruvernd, loftslagsbreytingar, friðlýst svæði, súrnun sjávar, mengun og annað slíkt eru nefnilega málaflokkar sem heyra undir umhverfisráðuneyti (og þarfnast sérstaks ráðuneytis, vel að merkja) en tengjast engu að síður með afskaplega beinum hætti afkomu okkar til lengri tíma litið þegar litið er til sjávarútvegs, landbúnaðar og ferðaþjónustu. Þar eru þrír af okkar mikilvægustu atvinnuvegum svo allt tal um mögulega óþarft ráðuneyti er í besta falli barnaskapur.

Og þá komum við að glögga gestsauganu. Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Darren Aronofsky, sem dvaldi hér um hríð á síðasta ári við töku á mynd sinni um Nóa og syndaflóðið, sneri hingað aftur til að tilkynna að hann ætlaði að styrkja Náttúruverndarsamtök Íslands með fjárframlagi. Aronofsky heillaðist að eigin sögn svo mjög af landinu og hinni einstöku náttúru þess að hann vill leggja sitt af mörkum til að tryggja verndun umhverfisins. Á sama tíma spyr ábyrgðarmaður ríkisstjórnarinnar í málaflokki umhverfismála hvort ef til vill megi leggja ráðuneytið niður. Á minn sann! Eins og leikstjórinn útlendi benti á er ósnortin náttúra á undanhaldi í heiminum, ekki síst vegna viðhorfs manna á þá leið að umhverfismál megi ekki standa í vegi fyrir atvinnusköpun. Sigurður Ingi fer ekki af stað sem spámaður í eigin föðurlandi og ætti að þiggja hjálp hjá öllum þeim glöggu gestsaugum sem eru tilbúin að ljá honum svolitla sýn. Annars mun þessi „framsókn“ ekki standa fyrir neitt annað en afturför. jonagnar@mbl.is

Jón Agnar Ólason