Sólland Forstjóri Kirkjugarðanna segir að Sólland ætti að duga út öldina.
Sólland Forstjóri Kirkjugarðanna segir að Sólland ætti að duga út öldina. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján Jónsson kjon@mbl.is Bálfarir eru nú orðnar mun algengari á Íslandi en gerðist fyrir fáeinum áratugum, sú fyrsta eftir kristnitöku fór fram 1948.

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Bálfarir eru nú orðnar mun algengari á Íslandi en gerðist fyrir fáeinum áratugum, sú fyrsta eftir kristnitöku fór fram 1948. Þá höfðu árum saman staðið yfir harðar deilur í fjölmiðlum um þennan nýja sið sem mörgum fannst ógeðfelldur. Nú munu um 25% allra útfara hérlendis vera bálfarir. Hlutfallið er eðlilega mun hærra eða 40% á höfuðborgarsvæðinu; þar er eina bálstofan. Af hálfu þjóðkirkjunnar er ekki amast við bálförum en upphaflega snerust kristnir gegn þeim. Þeir vildu greina greftrunarsiði sína frá siðum heiðinna, víkingahöfðingjar kvöddu oft jarðvistina í logandi skipi.

Mælingar sýna að ekki er um að ræða neina hættulega jarðvegsmengun vegna bálstofunnar í Fossvogi. Fyrsti líkbrennsluofn í heimi var smíðaður um miðja 19. öld og var þá byrjað að berjast fyrir því að líkbrennsla yrði tekin upp. Beitt var heilbrigðisrökum en einnig væru þrengsli orðin svo mikil í hratt vaxandi borgum Vesturlanda að ekki dygði að halda fast í plássfreka greftrunarsiði. Kaþólska kirkjan streittist á móti og leyfði ekki bálfarir fyrr en 1964.

Hagkvæmnin er augljós. Stærð leiðis í duftreit á samkvæmt reglum að vera um hálfur fermetri og í reglugerð eru fyrirmæli um stærð legsteina. Grafarstæði fyrir kistu þarf sex sinnum meira landrými en duftgröf, segir á vefsíðu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis. Aðeins má setja lága legsteina á duftkerareiti en allir vita að háir legsteinar eiga til að skekkjast í görðum á Íslandi vegna frosts og ýmissa breytinga í jarðveginum. Gamlir kirkjugarðar eru oft fallegir og lögð áhersla á að halda þeim við. Talsvert er nú um að duftker séu með leyfi vandamanna lögð í hefðbundin leiði í kirkjugörðum.

Þegar bálför er gerð er hinn látni tilgreindur í bókum Bálstofu Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Tekinn hefur verið í notkun nýr, þriggja hektara duftgarður, Sólland, við Vesturhlíð í Fossvogi en duftgarðar eru til á fleiri stöðum en á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta eru nærri fimm hundruð á öllu landinu sem láta brenna sig,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarðanna. „Sólland ætti að duga út öldina, og miðað við að hlutfall bálfara fari upp í 50%. Hann tekur rúmlega 30.000 duftker. En hér á Íslandi er auðvitað nóg landrými. Ef fólk býr úti á landi þarf að senda kistuna hingað ef notuð er líkbrennsla, þetta er auðvitað nokkur framkvæmd og kostnaður ef staðurinn er langt frá Reykjavík.“

Hægt að endurnýta duftreiti

Hann segir að fyrir tilkomu bálstofunnar 1948 hafi lík verið send til Kaupmannahafnar eða Edinborgar ef notast átti við brennslu en ekki hafi verið mörg dæmi um það. Þórsteinn bendir á að mjög auðvelt sé að endurnýta duftreiti eins og gert sé í Hollandi og fleiri þéttbýlum löndum. Þetta sé þó ekki gert hér en gæti komið til þess í Sóllandi.

„Þá er kerið grafið upp, öskunni dreift á opið svæði innan garðsins og annað ker jarðsett á sama stað. Oft er miðað við að legstaðurinn sé leigður í 25 ár en stundum mun skemmri tími. Aðstandendur fá bréf og spurt hvort þeir vilji leigja staðinn áfram, ef ekki þá fá aðrir að nota reitinn.“

JAPANAR BRENNA ALLA

Misjafnt eftir löndunum

Í Japan eru nær öll lík brennd, hlutfall bálfara er einnig hærra á hinum Norðurlöndunum en hér, í Bandaríkjunum svipað og hjá okkur. Vilji maður láta brenna líkamsleifar sínar er nóg að útfylla eyðublað sem fæst hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur. Bálför er eins og venjuleg útför nema að því leyti að kistan er ekki borin til grafar. Eftir að kistan með líkinu hefur verið brennd til ösku við allt að 1200 gráðu hita í tvær stundir er askan varðveitt í duftkeri. Aðstandendur ákveða hvenær kerið er grafið í samráði við útfararstofu, þeir velja milli jarðarfarar og bálfarar ef ekki liggur fyrir ósk hins látna. Duftker á að varðveita í kirkjugarði eða öðrum löggiltum grafreit.