Fyrsta skóflustunga Álfhólsvegar 22 Frá vinstri: Jón Pétur, Ármann Kr. bæjarstjóri, Ragnar, Hafþór og Rannveig.
Fyrsta skóflustunga Álfhólsvegar 22 Frá vinstri: Jón Pétur, Ármann Kr. bæjarstjóri, Ragnar, Hafþór og Rannveig.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, tók þann 7. júní sl. fyrstu skóflustungu að byggingu nýs 16 íbúða fjölbýlishúss við Álfhólsveg. Þetta var önnur skóflustungan sem Ármann tók á sléttri viku, en hin var tekin við Kópavogstún.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, tók þann 7. júní sl. fyrstu skóflustungu að byggingu nýs 16 íbúða fjölbýlishúss við Álfhólsveg. Þetta var önnur skóflustungan sem Ármann tók á sléttri viku, en hin var tekin við Kópavogstún. Nánast allar íbúðirnar sem um ræðir hafa þegar verið seldar. „Staðan er orðin þannig að við erum búin að úthluta öllum lóðum fyrir stærri fjölbýlishús. Nú vinnum við að því að koma Musterissvæðunum svokölluðu í úthlutun, en það eru svæði í Vatnsendabyggð. Þau svæði eru bæði nálægt skóla og íþróttamannvirkjum. Ég tel það vera mjög spennandi kost,“ segir Ármann.

Ragnar Þór Ólason hjá byggingarfélaginu Mótanda, sem annast byggingu fjölbýlishússins við Álfhólsveg, tekur í sama streng. „Það er mikil eftirspurn eftir íbúðum á þessu svæði, enda er um rótgróna byggð að ræða.“ segir Ragnar og bætir við að fjölskyldufólk hafi keypt stærstan hluta íbúðanna.

Þrátt fyrir að bærinn sé búinn að úthluta öllum fjölbýlishúsalóðum er Ármann bjartsýnn á framhaldið. „Við höfum verið að úthluta lóðum í þegar byggðum hverfum og í tengslum við þegar byggð hverfi. Þannig höfum við byggt upp og því hafa nýir íbúar haft greiðan aðgang að skólum og allri þjónustu. Það á bæði við um eldri hverfi og yngri. Uppbyggingin hefur verið hagkvæm fyrir okkur að þessu leyti.“

Á árinu 2012 var íbúafjölgun í Kópavogsbæ 1,5% og spáir Ármann að fjölgunin verði 1,8% á árinu 2013, en bærinn telur 31.726 íbúa skv. tölum Hagstofu Íslands. agf@mbl.is