Sjálfboðaliðar við störf Fjöldi sjálfboðaliða vinnur hörðum höndum að viðhaldi og fjármögnun Hreppslaugar í sunnanverðum Borgarfirði. Ungmennafélagið Íslendingur situr uppi með mikið tap eftir rekstur laugarinnar síðastliðið sumar en eingöngu 188 félagsmenn eru í félaginu.
Sjálfboðaliðar við störf Fjöldi sjálfboðaliða vinnur hörðum höndum að viðhaldi og fjármögnun Hreppslaugar í sunnanverðum Borgarfirði. Ungmennafélagið Íslendingur situr uppi með mikið tap eftir rekstur laugarinnar síðastliðið sumar en eingöngu 188 félagsmenn eru í félaginu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Jón Heiðar Gunnarsson jonheiðar@mbl.

Sviðsljós

Jón Heiðar Gunnarsson

jonheiðar@mbl.is

„Að mínu mati eru gerðar óraunhæfar kröfur til lítilla sveitalauga á Íslandi,“ segir Gauti Jóhannesson, talsmaður Hreppslaugarnefndar, en nefndin reynir að tryggja fjárhagslegan grundvöll fyrir rekstur Hreppslaugar í sunnanverðum Borgarfirði.

Gauti segir hertar reglur síðustu ára um starfsemi sundlauga valda miklum vandræðum fyrir rekstur laugarinnar. „Það er mikill rekstrarkostnaður að hafa tvo starfsmenn í lauginni þar sem sami starfsmaður má ekki sinna laugargæslu og vinna í afgreiðslu á sama tíma samkvæmt lögum,“ segir Gauti.

Vongóður þrátt fyrir taprekstur

Hreppslaug hefur verið opin fyrir baðgesti yfir sumartímann síðustu ár en reksturinn gekk illa síðasta sumar. Ungmennafélagið Íslendingur situr nú uppi með rúmlega 700 þúsund krónur í tap. „Þetta hefur verið mjög erfitt þar sem sífellt eru gerðar strangari kröfur um öryggi og hreinsibúnað í lögum um sundlaugar. Framtíðin er í óvissu en nú lítur út fyrir að okkur takist að opna laugina um næstu helgi með samstillu átaki frá sjálfboðaliðum og fjárstykjum frá Skorradalshrepp og Borgarbyggð,“ segir Gauti vongóður. Framtíð laugarinnar er nú í höndum Heilbrigðisnefndar Vesturlands en hún verður að samþykkja rekstrarplan laugarinnar og meta hvort fjármagn og framkvæmdir dugi til að halda úti öryggiskröfum skv. lögum.

Svíarnir ekki jafn slæmir

Reglurnar eru góðar og gildar fyrir stærri sundlaugar að mati Gauta en hann telur þær ekki henta litlum sundlaugum sem eingöngu eru starfræktar yfir sumarið.

„Í innilauginni í stærstu íþróttamiðstöð Norður-Evrópu í Umeå í Svíþjóð er enginn laugarvörður þrátt fyrir að Svíar séu þekktir fyrir öryggisvitund sína. Þar stendur á skilti að sundlaugargestir passi hver upp á annan og séu í lauginni á eigin ábyrgð. Maður hefði haldið að þetta væri einnig hægt að gera í lítilli sveitalaug á Íslandi.“

Kýr datt ofan í laugina

Gauti segir engin alvarleg slys hafa orðið í lauginni þrátt fyrir að einn starfsmaður hafi verið á vaktinni hingað til. Hann rifjar hins vegar upp sögu af kú sem datt ofan í laugina fyrir mörgum árum áður en laugin var girt af. „Hún slapp nú ómeidd frá þessu blessunin en það var mikið vesen að ná henni aftur upp á þurrt land,“ segir Gauti og hlær.

Gauti telur stórt og mikið skilti þar sem fram kemur að fólk sé í Hreppslaug á eigin ábyrgð og að laugargæsla sé takmörkuð myndi leysa fjárhagsvanda laugarinnar að stórum hluta. „Það þarf engu að síður að vera alveg á hreinu hver ber ábyrgðina ef svo ólíklega vildi til að alvarlegt slys myndi verða í lauginni.“

Klefi fyrir hesta

Hreppslaug á sér langa sögu en þessi 25 metra steinsteypta laug var byggð árið 1928. Laugin hefur ekki eingöngu stuðlað að sundkennslu í sveitinni gegnum tíðina því við hana var einnig starfrækt bókasafn, mötuneyti og spunaverksmiðja. „Laugin hefur verið miðpunktur sveitarinnar í mörg ár. Í upphafi voru byggðir þrír klefar; karla, kvenna og hesta því allir komu jú ríðandi í laugina,“ segir Gauti hlæjandi.

Bygging laugarinnar þótti merkileg og bar vott um þann mikla kraft sem bjó í ungmennahreyfingunni í byrjun 20. aldarinnar.

Sírennandi heitt vatn úr uppsprettum rétt ofan við laugina skapa henni sérstöðu ásamt birkivaxinni grasbrekku sem nær nánast að laugarbarmi. Gestir hafa haft það á orði að vatnið í lauginni hafi góð áhrif á exem en það hefur ekki verið rannsakað. „Kvöldopnun hefur skapað lauginni nokkra sérstöðu og við stefnum á að hafa opið til 11 á kvöldin í sumar ef allt gengur upp. Það eru samt mjög fáir sem vita af lauginni enda hefur hún lítið verið auglýst.“

NÝ REGLUGERÐ TEKUR VIÐ

Margar laugar ekki í takt við tímann

„Ný reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum tók gildi 1. janúar 2011 og nú eru menn farnir að fara eftir henni af fullum þunga,“ segir Helgi Helgason, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Vesturlands.

Þar kemur m.a. fram að sund- og baðstaðir skulu ávallt hafa starfsmann sem sinni laugargæslu og engum öðrum störfum samhliða á meðan gestir eru í laug.

„Margar af þessu gömlu sveitalaugum eru orðnar börn síns tíma og Hreppslaugin er ekki undanskilin þessum reglum á meðan það er rukkað gjald fyrir að heimsækja hana,“ segir Helgi.

Hreppslaug er flokkuð í svokallaðan C-flokk samkvæmt reglugerð en hún hefur ekki neinn nútímalegan hreinsibúnað.

Hann segir margar gamlar sveitalaugar vera í svipaðri stöðu og óttast að eigendur þeirra muni reyna að fara á skjön við nútímakröfur með því að hætta að rukka sundlaugargesti.

„Á meðan ekki er rukkað ofan í laugarnar getum við ekkert aðhafst svo lengi sem þær eru ekki beinlínis hættulegar fólki. Við getum ekki gert kröfur um sérstaka laugargæslu í slíkum tilvikum ekki frekar en ef menn ákveða að bjóða fólki í heita pottinn heima hjá sér.“ Hann ítrekar þó að eigendaábyrgð eigi alltaf við ef alvarleg slys verða á fólki og að rekstraraðili beri ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi gesta.

TEKIÐ ER TILLIT TIL LÍTILLA SVEITALAUGA Í DRÖGUM AÐ NÝRRI REGLUGERÐ

Reglugerð um náttúrulaugar enn í vinnslu

Hreppslaugarnefnd íhugar að skrá laugina sem náttúrulaug ef ekki tekst að fjármagna opnun hennar í sumar en reglugerðir um sund og baðstaði gilda ekki um náttúrulaugar. Reglugerð um náttúrulaugar er hinsvegar enn í vinnslu hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og því er óljóst hvort laugin falli undir slíka skilgreiningu.

Í drögum að reglugerðinni er sett bann við meðhöndlun á vatni í náttúrulegum laugum en vatnið í Hreppslaug hefur verið klórblandað hingað til. „Ef við hættum að setja klór í laugina mun að sjálfsögðu myndast mikið af grænu slýi í framhaldinu. Það er svo sem skaðlaust en margir eru samt viðkvæmir fyrir því að synda í því,“ segir Gauti Jóhannesson, talsmaður Hreppslaugarnefndar.

Í reglugerðinni verður m.a. kveðið á um merkingar og vöktun náttúrulauga. „Umhverfisstofnun sendi frá sér drög að reglugerðinni til ráðuneytisins fyrir um hálfum mánuði og í þeim var tekið tillit til fámennra sveitalauga á borð við Hreppslaug,“ segir Katrín Hilmarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, en hún vonast til að reglugerðin komi út á þessu ári.